Segir sögur með myndvefnaði

,,Listasafn Reykjavíkur sótti um styrk til að veita listþróun kvenna sérstaka athygli,“ segir Hildur Hákonardóttir myndvefari en sýning með verkum hennar var opnuð á Kjarvalsstöðum 14. Janúar. ,,það hafa verið uppi raddir um að list kvenna hafi verið hjásett enda höfðu konur áður ekki aðgang að listsköpun á sama máta og strákarnir,“ bætir hún við.

Sigrún Hrólfsdóttir hlaut fyrst þennan styrk sem verður veittur í þrígang og Hildur segir að Sigrún hafi verið fylginautur og ævisöguritari hennar í heilt ár. Sýningin sem nú er á Kjarvalsstöðum er afraksturinn af þeirri rannsóknarvinnu.

Hildur, sem er orðin 83 ára, segir að samkvæmt tölvuspám ætti hún að vera farin svo hún sé á lánuðum tíma en bætir við að þetta blessaða heilbrigðiskerfi haldi henni á nokkuð góðum stað þrátt fyrir allt.

,,Why Old Women Have Replaced Young Men as the Art World’s Darlings,“ var fyrirsögn á enskri listatímaritsgrein. ,,Svo af því má ráða að eldri listakonur séu komnar tísku,“ segir Hildur og brosir breitt. ,,Það er svo spennandi að fylgjast með þessu ferli því allt frá endurreisnartímanum höfum við gengið í gegnum mjög fallegt tímabil þar sem málverkið var algerlega ríkjandi. Strigamálverkið kemur til sögunnar  rétt fyrir 1500 í Feneyjum þegar farið er að mála á ofinn strekktan flöt sem þá tekur við af myndvefnaði og útsaumi sem var áður framsetningarform myndlistar að stórum hluta. Þetta glæsta tímabil sem hefur nú staðið í rúm fimm hundruð ár er í raun heimur karlmanna. Þráðurinn er kvenlegra tól til að vinna með og í dag er mjög spennandi að fylgjast með hvert sú listsköpunin leitar. Nú þegar konur fá tækifæri til að taka þátt í þessari menningu er mín trú að sköpunarþörf þeirra fari síðan inn í tölvuna, þ.e. við vinnum ekki með pensli eða með strikum eða þræði heldur með ljósbylgjum.

Í þessu millibilsástandi sem nú ríkir kemur þráðurinn reyndar mjög sterkt inn.“

Málverkið  og ritlistin haldast í hendur

,,Málverkið, eins og við þekkjum það, verður til skömmu eftir að Johannes Gutenberg finnur upp prentvélina en hann var uppi 1400 – 1468. Fram að því hafði fólk bara séð myndir af því sem verið var að fjalla um og trúði þeim en þarna varð hið ritaða orð sannleikurinn. Nú erum við farin að efast um að hið ritaða orð sé alltaf rétt heldur viljum við aftur myndrænan heim,“ segir Hildur.

Hélt ég myndi verða heilari

Textinn sem Hildur fléttar er úr meistaraverki Henry David Thoreau, bókinni Walden eða Lífið í skóginum. Hildur og Elísabet Gunnarsdóttir fengu íslensku þýðingaverðlaunin 2018 en sagt er um bókina að hún marki upphafsspor í vestrænni hugsun um náttúruvernd og samband manns og náttúru. Hildur gerði þessar grasþúfur sem sjást á myndinni með sömu tækni og konan sem fléttaði mottuna sem hún hefði viljað gefa Thoreau.

,,Ég hélt ég myndi verða heilari en fann út að ég var ekki alveg náttúruð fyrir þá vinnu þegar ég fór að læra til þess,“ segir Hildur. ,,En ég er alltaf jafnhissa á því hvað mannslíkaminn er ótrúlega flókin og fullkomin vél. Ef við hugsum um hann sem brennsluvél sem hefur sífellt hæfileika til að aðlaga sig nýjum aðstæðum þá gerast kraftaverk á hverjum einasta degi. En líklega höfum við ekki borið nógu mikla virðingu fyrir náttúrunni til þessa.“ 

Erum að vakna til meðvitundar

Náttúran hefur átt hug Hildar allt frá því hún var ung og hefur litað allt hennar lífsstarf. Hún segist vera þess fullviss að margir séu nú að vakna til vitundar um að við verðum að bera virðingu fyrir jörðinni og náttúrunni sjálfri til að geta haldið áfram að búa hér. ,,Það er nefnilega  eins með karlmanninn sem ber ekki virðingu fyrir konunni því hann ber þá ekki virðingu fyrir sjálfum sér eða öðrum karlmönnum. Það er eitt af því sem ég uppgötvaði á jafnréttisbaráttutíð minni. Ef einhver hluti samfélaga er misvirtur, hvort sem það eru konur eða kynstofn, þá er þjóðfélagið ekki réttlátt og allt byggist á ójafnvægi og hrynur.“

Tölvan verður hluti af veröld Hildar

Þegar Hildur fylgdi þáverandi eiginmanni sínum, Oddi Benediktssyni, í nám til Bandaríkjanna var tölvan að fæðast. ,,Við fórum út 1956 og þá var tölvan ekki fædd en þegar ég kom heim var stóra tölvan í Reiknistofu Háskólans komin. ,,Oddur byrjaði í háskólanámi, sem var upphaflega stærðfræðinám sem breyttist svo í tölvunarnám og varð tölvunarprófessor við Háskóla Íslands eftir að hann kom heim. Hann  vildi halda áfram í doktorinn en ég hélt það ekki út svo lengi og fór heim  á undan eða 1963.

Hugsunin á bak við Apple tölvuna var að nálgast viðfangsefnið myndrænt á meðan PC tölvan var meira stafræn. Ég sé enn eftir gömlu Apple tölvunni sem var svona lítill kubbur,“ segir Hildur og brosir. ,,Það var alveg óhætt að láta lítil börn leika sér í henni og  barnabörnin máttu alveg leika sér í henni þriggja ára gömul.“ Hildur og Oddur eignuðust tvö börn, þau Kolbrúnu Þóru Oddsdóttur landslagsarkitekt og Hákon Má Oddsson kvikmyndagerðarmann.

Settist á skólabekk á Íslandi

Hildur settist í Myndlista- og handíðaskólann þegar hún kom heim frá Bandaríkjunum og tók forskólann í MHÍ sem er tveggja ára nám. ,,Þá var vefnaðarkennaradeild við MHÍ en mig langaði ekkert sérstaklega að læra að vefa á láréttan stól heldur langaði mig í myndvefnað. Þá var Kurt Zier skólastjóri, en hann kom frá Þýskalandi þess tíma þar sem Bauhaus menningin var sterk. Þar var borin virðing fyrir vefnaði og konur fengu aðgang að skólum og stofnunum hreyfingarinnar ef þær vildu vefa.“

Konur í fiskvinnu.

Kvennabaráttan fór á flug 1970-1975

Hildur átti töluverðan þátt í því hvernig félagsskapurinn í kringum kvennabaráttuna var upp byggður. Rauðsokkurnar voru að verða til og Hildur tók þátt í skipulangingunni af krafti.

Var skólastjóri MHÍ 1975 – 1978

Kurt Zieg var skólastjóri MHÍ þegar Hildur var við skólann. Síðan tók Hörður Ágústsson við og þegar hann vildi fara í rannsóknarleyfi bað hann Gísla B. Björnsson að leysa sig af sem hann gerði í þrjú ár. Hörður vildi svo vera lengur við rannsóknir sínar og bað Hildi um að taka við af Gísla. Að tveimur árum liðnum var ráðningartími Harðar búinn og þá var Hildur sett í skólastjórastöðuna en segist ekki hafa enst í starfinu nema í þrjú ár því það hafi verið svolítill slagur.

Laskaðist á hendi og fór að skrifa

Síðar laskaðist Hildur svolítið á hendi og hreyfingin sem hún þurfti á að halda við þá tegund af vefnaði sem hún var að gera varð henni erfið. Hún fór þá að skrifa texta en heillaðist af hugmyndaheimi Goethes en hann fór í fræga ferð frá Þýskalandi niður til Ítalíu og skrifaði um hana bók. Hann var að rannsaka hvernig sama planta þroskast mismunandi eftir því við hvaða kringumstæður hún lifir. Eitt dæmi er hin fræga orchidea sem vex villt hér á Íslandi en hér heitir hún brönugras. Þessi sama planta verður stórt og glæsilegt blóm þegar hún vex við önnur og betri skilyrði.“

Flytur austur i Ölfus

Veggteppi með árstíðum.

Eftir baráttutímabil Hildar fluttist hún austur í Ölfus með þáverandi eiginmanni sínum, Þór Vigfússyni. ,,Þór var frá Selfossi svo hann var svolítið að flytja heim,“ segir Hildur sem fór að velta náttúrunni fyrir sér og hóf að búa til þessi teppi með árstíðunum. Teppin voru 12 og  voru á Hótel Sögu en nú þegar verið er að gera húsið upp fundust bara 10. ,,Tvö teppi eru týnd en við skildum eftir pláss fyrir þau ef þau skyldu finnast,“ segir Hildur og hér með auglýsum við eftir þeim fyrir hana.

Þegar Hildur flutti upp í sveit skildi hún eftir baráttumálin og á sýningunni á Kjarvalsstöðum má segja að þau kaflaskil sjáist á miðri sýningunni. ,,Mín kenning er sú að allir eigi að taka einhvern þátt  í réttindabaráttu í samfélaginu. Rauðsokkahreyfingin átti að vera opin þannig að hún næði til allra en það er of erfitt að standa í stöðugri baráttu og það þarf að hvíla sig á henni eins og öðru. En það gerðist svo á kvennafrídaginn að nær því allar konur tóku þátt. Ég hef um ævina öðlast skilning á því hvernig félagsform virka og sú rannsóknarvinna skilar sér svo í verkum mínum, meðal annars í pælingunum um plöntuna.

Hildur Hákonardóttir er frábær fyrirmynd karla og kvenna sem komin eru langt á þriðja aldursskeiðið. Hún er enn skapandi og tekur þátt í lífinu af fullum krafti og nú má sjá glæsilega sýningu á verkum hennar á Kjarvalsstöðum þar sem saga kvennabaráttunnar er meðal annars gerð skil.

Hildur stendur fyrir framan myndasögu sem hún teiknaði og Listasafn Reykjavíkur keypti nýverið. Myndasagan segir frá tilurð kvennafrídagsins, 24. október 1975. Þetta er sagan sem segir frá því þegar Vilborg Harðardóttir, sem þá var blaðamaður og vinkona Hildar, fór að vinna í fiski á meðan á verkfalli prentara stóð því þá var ekkert að gera hjá blaðamönnum. Þar með komst Vilborg í náin tengsl við fiskvinnslukonurnar og þeirra kjör. Þá gerðu rauðsokkurnar eitthvað í málunum og efndu til láglaunaráðstefnu þar sem komu saman konur úr ýmsum láglaunastéttum og ræddu sín kjör. Í kjölfarið á því ákváðu þær að halda stærrri ráðstefnu allra stétta kvenna og á þeirri ráðstefnu var ákveðið leggja niður störf í einn dag til að sýna og sanna hvesju mikilvægt framlag kvenna til atvinnulífsins var og án þess myndi samfélagið lamast. Þessi myndasaga átti upphaflega að vera ,,slideshow“, svona kennslutæki um það hvernig maður breytir heiminum,“ segir Hildur og brosir og bætir við að það hafi nú ekki orðið mikið úr því. En nú hefur þessi myndasaga verið gefin út í litlu hefti.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 20, 2023 07:00