„Ekki hægt annað en skora aldursfordómana á hólm“

Það vakti athygli á dögunum þegar Lind Draumland Völundardóttir var skipuð skólameistari Fjölbrautarskólans á Höfn í Hornafirði til næstu fimm ára, en hún verður 67 ára gömul í október, sem er opinber eftirlaunaaldur fólks á Íslandi.

Ekki auðvelt að fá vinnu aftur

Lind og eiginmaður hennar Tim Junge, fluttu til Hafnar í Hornafirði fyrir fjórum árum og hún fór að kenna í Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu þar á staðnum. Lind er Reykvíkingur úr 101 en Tim Hollendingur og þau bjuggu í Hollandi um 15 ára skeið. Lind á fjögur börn, þrjú þeirra búa á Íslandi en eitt í Bandaríkjunum.  Þegar þau fluttu heim frá Hollandi árið 2011, fór hún að vinna sem forstöðumaður í búningadeild Íslensku óperunnar.  „Mér var sagt upp daginn eftir að ég varð sextug, tek það fram að þá var nýr óperustjóri nýtekinn til starfa. Í kjölfarið voru gerðar breytingar sem fólu það í raun í sér að búningadeildin var á endanum lögð niður“ rifjar Lind upp og segir að þetta hafi ekki verið auðvelt og þarna hafi hún komist að því að það sé ekki hlaupið að því að fá vinnu aftur, missi fólk vinnuna á þessum aldri. Árið 2018 fluttu þau til Hafnar og hafa búið þar síðan.

Það er auðvelt að fara ferða sinna á hjóli á Höfn

Aldursfordómar lítið ræddir

Lind var 66 ára þegar hún sótti um skólameistarastarfið í Framhaldsskólanum, en hvernig stóð á því að hún ákvað að sækja um það þegar svona skammt var í eftirlaunaaldurinn?  „Fyrir því eru nokkrar ástæður“, segir hún. „Ég hef orðið vör við, og orðið fyrir þeim gríðarlegu aldursfordómum sem eru ríkjandi í samfélaginu.  Það er alltaf verið að ræða um fordóma gagnvart ýmsum hópum, en aldursfordómar eru mjög lítið ræddir. Mér hefur sýnst og heyrst að þeir bitni meira á konum en körlum. Það er grundvallarástæðan fyrir því að ég sótti um og auðvitað af því að ég var með alla þá menntun og reynslu sem beðið var um.  Það var ekki hægt annað en skora aldursfordómana á hólm. Ég bjóst reyndar við að fleira ungt fólk sem væri vel til þess fallið að sinna starfinu myndi sækja um, en það gerðist ekki. Þessi niðurstaða kom mér því  á óvart. En engu að síður mjög ánægjuleg niðurstaða.

Ekki erfið ákvörðun að þiggja starfið

Lind segir að ferlið frá umsókn til ráðningar hafi verið langt og hún hafi veri búin að ákveða að ef henni yrði boðið starfið myndi hún þiggja það. „Það var ekki erfið ákvörðun. Það er frábært að fá að takast á við þetta verkefni og ljúka starfsferlinum með þessum hætti“, segir hún og bætir við að hún hafi ákveðinn afmarkaðan ráðningartíma og nú hafi þeir sem búi í samfélaginu eða vilji vera þar, tíma til að spá í hvort þar leynist ekki tækifæri, þegar hennar ráðningatíma ljúki.

Lind í góðum félagsskap á fjallamennskunámskiðinu

Fjallmennskunámskeiðið hefur slegið í gegn

„Skólinn stendur á krossgötum, það er mikil ásókn í fjallamennskunámið hjá okkur, enda spennandi nám, þar sem farið er í allar greinar fjallamennsku, gönguferðir á landi, ísklifur klettaklifur, kajak siglingar, fjallahjólreiðar, frjálsa skíðamennsku, jöklagöngur og fleira“, segir Lind.  Námsframboð skólans er fjölbreytt og við reynum að fylgja áherslum og uppbyggingu sveitarfélagsins. Skólinn er stór hluti af samfélaginu hér á Höfn og það er mikilvægt fyrir ungt fólk sem elst hér upp að geta klárað framhaldsskólann í sinni heimasveit. Skólinn hefur aðsetur í Nýheimum en þar er auk framhaldsskólans, aðsetur Fræðslunets Suðurlands, Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar, Náttúrustofu Suðurlands og Háskólaseturs.

Engir aldursfordómar hjá nemendum

Lind hefur séð um félagsstarfið í skólanum síðustu árin og verið nemendum innanhandar við að byggja það upp. Hún segir að þeir velti lítið fyrir sér á hvaða aldri hún sé. „Ég er viðstödd á öllum böllum og við höldum fundi vikulega, þetta eru mjög aldurslaus samskipti. Einhvern tíma var ég að mála með þeim, við vorum að gera veggmálverk. Þá snýr strákur sér að mér og segir í góðlátlegu gríni. „Hvað ertu að gera hér, langamman, í stuttbuxum og strigaskóm 😊?“.  Þau hafa fallega nálgun á þetta, það eru engir aldursfordómar þar“, segir hún. „Þeim finnst vissulega skrítið það sem  fellur ekki inní það sem þau þekkja, að eldra fólk geti gert eitthvað annað, verið með Apple úr og í hvítum strigaskóm, skrítið en líka rosalega gott. Ég hef trú á unga fólkinu okkar“.

Velferð ungs fólks skiptir samfélagið svo miklu

Lind sem er skipuð skólameistari til 5 ára, segist ekki vita hvað menn ætli sér með það. „Þetta kom á óvart, en það er náttúrulega til umfjöllunar á Alþingi að breyta stafslokaaldri opinberra starfsmanna. Ég sé fram á að vinna næstu 5 ár. Þegar ég fer á eftirlaun í fyllingu tímans, sé ég fyrir mér að skrifa og ég vildi óska að ég gæti haldið áfram að stuðla að uppbyggingu og velferð ungs fólks þó ég hætti formlegu starfi á vinnumarkaði. Það skiptir svo miklu máli fyrir samfélagið“, segir hún að lokum.

Með símann og til í allt

 

 

Ritstjórn ágúst 23, 2022 07:00