Það er samt ekki kominn heimsendir ennþá

Það dofnaði verulega yfir öllu félagslífi þegar COVID faraldurinn geisaði síðast liðinn vetur og sumt félagslíf lagðist alveg af. Þá setti faraldurinns stórt strik í ferðaáætlanir fólks og gerir auðvitað enn, en þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur, hafa margir á umliðnum árum ferðast mjög mikið.

Utanlandsferð var aflýst, ég ferðaðist hinsvegar um heimahaga, gangandi og ríðandi. Ég og kona mín ókum líka mikið um nærliggjandi byggðarlög.

Sagði einn viðmælandinn, en aðrir eiga fjölskyldur erlendis og vilja komast í heimsóknir til þeirra.

Golfferð með góðum vinum var blásin af í vor, og þátttaka Leikfimihópsins Drengja Sóleyjar á fimleikhátíð á eyjunni Krít var líka strikuð út. Loks voru öll áform um heimsókn til fjölskyldunnar í  Ottawa og á slóðir Vestur-Íslendinga í Kanada slegin af í bráð. Þetta var súrt í broti og eflaust fjárhagstjón, en bætt upp af einhverju leyti með góðu golfsumri á Nesvellinum og nokkrum túrum innanlands sem veittu ómælda ánægju. Það er yndislegt að ferðast um landið og gista á góðum hótelum fyrir hóflegt verð. Tækifæri sem kannski kemur ekki aftur í bráð.

Einn viðmælenda sagði áhrifin á þátttöku hans í félagslífi hefðu verið mikil þar sem mannfundir féllu niður eða var frestað og enn annar sagði þetta um þátttöku sína á þeim vettvangi.

Auðvitað hefur hún verið minni en ella hefði verið en þó engin einangrun eins og áður hefur komið fram. Við rækjum Hallgrímskirkju og þar er hægt að rækta hugann í góðum félagsskap þótt takmarkanir séu á samkomuhaldi. Við erum fjórir gamlir vinir úr „póló“ sem hittumst í Reykholti nokkuð reglulega og í 20 ár höfum við verið í LH-mannræktarhópi fimm hjóna sem líka hittast reglulega. Og í næstum hálfa öld frá námsárum í Svíþjóð höfum við verið í Lúsíu- og gönguhópi sem kemur saman tvisvar á ári.  Allt svona verður enn mikilvægara en áður á plágutímum og það gildir að finna leiðir til þess að halda slíkum vinskap gangandi þótt varlega verði að fara.

Annar viðmælandi horfði á nýja samskiptamáta, í stað hefðbundins félagslífs.

Það breyttist auðvitað mikiða enda flestar samkomur og viðburðir felldir niður og lítil löngun til að vera meðal manna. Lærði þó á nýja samskiptamáta í gegnum tölvu og hitti fólk þar, sem var skemmtileg nýjung. Í staðinn fyrir félagslíf má segja að fjölmiðlar, útvarp, sjónvarp og samfélagsmiðlar hafi staðið sig vel í að miðla efni og streyma viðburðum. Þar var miðlað efni af ýmsu tagi, í opinni dagskrá, fyrir ýmsa hópa og fannst mér  það hafa mikið að segja og vera vel gert og virðingarvert. Auk þess lærðu margir að nýta sér betur rafræn samskipti.

Einn viðmælendanna sagði Covid hafa haft mest áhrif á utanlandsferðalög sín.

Ég var búin að skipuleggja ferðir til Póllands, New York og Indlands. Þær féllu allar niður. Ráðstefna sem ég ætlaði sækja í New York í mars var slegin af. Fjallganga sem ég ætlaði að fara í til Póllands í júní var líka felld niður.  Í nóvember ætlaði ég til Indlands en vegna Covid hefur ferðin verið slegin af. Ég var búin að borga flugið í allar þessar ferðir en hef ekki fengið neitt endurgreitt. Einnig var ég búin að greiða hótelgistingu í New York og námskeiðsgjald á Indlandi. Ég á ekki von á að fá þetta endurgreitt.

Flestir ferðuðust eitthvað innanlands í sumar, jafnvel töluvert.

Eina innanlandsferðin sem ég hætti við var ferð, með gönguhópnum mínum að Hungurfit að Fjallabaki, sem fara átti seinni partinn í ágúst. Í staðinn fórum við tvær ömmur í tjaldferðalag á Þingvelli. Ég fór með þrjú barnabörn, tvo níu ára stráka og einn 12 ára, og vinkonan var með eitt. Þetta var dásamleg ferð. Við ömmurnar flatmöguðum við vatnsbakkann í sólinni meðan barnabörnin slógu vatnið með veiðistöngum. Einnig löbbuðum við að Lögbergi, Silfru og Almannagjá. Það var mjög lítið af fólki á þessum vinsæla ferðamannastað.

Enn annar viðmælandi hafði skipulagt tvær utanlandsferðir sem báðar féllu niður vegna ástandsins.

Ég hef fengið allan kostnað endurgreiddan. Aðrar fyrirhugaðar ferðir innanlands féllu einnig niður. Auðvitað miður þegar maður þarf að breyta sínum plönum, en einhvern veginn auðvelt að sætta sig við orðinn hlut þegar allir eru í sömu stöðu og ekkert annað hægt að gera vegan ástandsins.

Annar hafði eftirfarandi að segja um ferðalög og félagslíf

Mér dettur ekki í hug að ferðast til útlanda við þessar aðstæður en innanlands höfum við farið bæði á Vestfirði og á Suðurlandið. Alltaf skemmtilegt að ferðast um Ísland. Norðurlandið skildum við eftir þar sem ég á fullt af ættingjum þar. Við vldum ekki taka áhættu varðandi aðra ef við skyldum næla okkur í smit og ekki hægt að rekja ferðir fólks.

Saumaklúbbur og aðrir vinkonuhópar  hafa ekki verið við lýði, en ætlunin er að byrja núna í september og reyna að hegða okkur vel. Varðandi eyðslu þá höfum við ekki verið út um allt og auðvitað höldum við okkur heima varðandi utanlandsferðir, enda ekki alltaf góðar fréttir erlendis frá um þessar mundir.

Það er nú samt ekki kominn heimsendir ennþá.

Hópurinn sem var svo vinsamlegur að leggja okkur lið í umfjölluninni um COVID er: Bjarki Bjarnason, Einar Karl Haraldsson. Hrafnhildur Schram, Kristín Erlingsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Sigrún Ásmundsdóttir og Þorgeir Baldursson og kunnum við þeim bestu þakkir.

 

Ritstjórn október 8, 2020 08:22