Fundu hvort annað á stefnumótavef

Óhætt er að fullyrða að öll höfum við átt okkur drauma um að þegar miðjum aldri yrði náð myndum við geta lifað lífinu lifandi, óháð og frjáls. Flestir eygja visst frelsi á þessu æviskeiði, börnin farin að heiman og farin að lifa sínu eigin lífi og viðveru okkar er ekki óskað nema stundum. Ef við höfum verið skynsöm eru fjárhagsáhyggjur ekki miklar, að minnsta kosti ekki ef miðað er við fyrstu árin úti í lífinu. En af hverju láta þá ekki fleiri í þessum hópi draumana rætast? Svarið við þeirri spurningu er auðvitað margþætt en þegar þau Álfhildur Ólafsdóttir og Halldór Holt eru spurð stendur ekki á svari: ,,Það gildir að láta slag standa og bíða ekki. Við vitum ekki hversu langan tíma við höfum.“

Ekki eftir neinu að bíða

Kaffipása á Siglunesi á Barðaströnd.

Álfhildur er fædd 1956 og Halldór 1954 svo þau eru sannarlega komin á þriðja aldursskeiðið. Álfhildur er Hörgdælingur og Halldór er breiðfirskur Vestfirðingur. ,,Aðdragandinn í mínu tilfelli var sá að ég missti manninn minn 2018 og rúmu ári síðar ákvað ég að ég ætlaði ekki að vera ein það sem eftir væri,“ segir Álfhildur. ,,Ég var þá ekki nema 61 árs og fór að kynna mér hvar maður leitar að lífsförunaut þegar maður er kominn á þennan aldur,“ segir hún. ,,Þá fann ég Makaleit.is og leist vel á þann vef. Hann virkaði vandaður því eðlilega er maður óöruggur í þessum aðstæðum. Þetta var algerlega nýr veruleiki fyrir mér en ég lét slag standa og sé ekki eftir því.“ Halldór hlustar ánægður á Álfhildi en það var í byrjun júní 2020 sem þau fundu hvort annað.

,,Ég hafði verið hættur í sambandi til nokkurra ára og leiddist að vera einn. Ég skráði mig þess vegna á Makaleit.is og var rétt svo búinn að ýta á ,,enter“ þegar Álfhildur sendi  skilaboðin sem urðu til þess að hér erum við,“ segir Halldór og brosir.

Tók tíma að finna samsvörun

Það tók svolítinn tíma áður en upplýsingarnar sem Halldór hafði gefið um sig smullu saman við það sem Álfhildur hafði gefið um sig og þar með hófu örlaganornirnar að spinna sinn vef á jákvæðan hátt.

Halldór er menntaður smiður en hefur starfað við akstur alla tíð. Álfhildur er búfræðikandidat frá Hvanneyri og gegndi ýmsum störfum á sviði landbúnaðar; var m.a. aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar landbúnaðarráðherra.  Síðan um fimmtugt hefur hún starfað sjálfstætt við bókhald, eignaumsjón o.fl.. ,,Ég hef verið að draga saman seglin undanfarið af því við flækjumst svo mikið“ segir Álfhildur. ,,Í fyrra tókst mér að draga úr þessum umsvifum þannig að nú er ég mjög frjáls. Ég sé um bókhald fyrir mig og nokkra vini og get séð um það hvar sem er í heiminum, svo framarlega sem ég hef tölvu,“ segir hún.

Lenti í falsara sem lifði í sýndarveruleika

Moli ferðalangur á tjaldstæði í 1000 metra hæð í Portúgal.

Álfhildur segir hlæjandi frá því að þegar hún var að þreifa sig áfram í þessum nýja veruleika lenti hún í því sem margir óttast því maður, sem hún var farin að skrifast á við, falsaði um sig upplýsingar. ,,Við höfðum skipst á skilaboðum og þetta virtist hinn þekkilegasti maður. Svo ákvað ég að biðja hann um að senda mér tölvupóst. Þá sá ég að þetta var algert bull. Það var ekki til það afrek sem maðurinn hafði ekki unnið og hann var augljóslega að lifa lífinu í sýndarveruleika. Svona fólk á ekki erindi inn á vef eins og Makaleit.is því þangað leitar fólk sem er að leita sér að langtímasambandi og lífsförunaut. Þar er kerfi sem sannreynir upplýsingar sem maður gefur um sig svo maður á að geta treyst því að þarna er ekki bull. En auðvitað þurfa allir að gæta sín því alls staðar er óheiðarlegt fólk. Okkar saga er til sanninda um fallega sögu og þær eru sem betur fer margar,“ segir Álfhildur.  Þess má geta að umsjónarmaður Makaleitar henti þessum lukkuriddara umsvifalaust út af vefnum þegar ég lét vita af honum.“

Húsbíllinn stór þáttur

Álfhildur við Mola ferðalang.

Halldór átti húsbíl þegar hann kynntist Álfhildi og svo heppilega vildi til að ferðalög voru áhugamál hennar líka. ,,Okkur dugar ekki að vera langdvölum á Kanaríeyjum þótt þar sé gott að vera heldur erum við nú búin að keyra 15.000 kílómetra um Evrópu á rúmu ári,“ segir hann og brosir. ,,Bíllinn er núna úti í Noregi en við fórum um 20. september í fyrra af stað frá Íslandi. Þá keyrðum við niður Evrópu í gegnum Þýskaland og Sviss niður til Ítalíu. Svo geymdum við bílinn á Alicante á Spáni. Og  þegar við vorum búin að liggja í sólinni á Kanaríeyjum í fimm mánuði náðum við í bílinn og keyrðum upp vesturströnd Evrópu, skildum bílinn eftir á syðsta odda Noregs. Svo í ágúst ætlum við að keyra eins langt og við komumst norður í Noregi.

Þau Álfhildur og Halldór hafa ferðast mikið um Ísland á húsbílnum og keyrt megnið af malbikuðu vegunum um landið. Þau hafa líka ferðast nokkuð með húsbílaklúbbum á Íslandi. ,,Eitt félagið er á Reykjavíkursvæðinu og svo er annað sem nefnist Flakkarar. ,,Þetta er  mjög skemmtilegur félagsskapur að ferðast með,“ segir Halldór.

Ekki eftir neinu að bíða

Nú segja þau Álfhildur og Halldór að þau finni að tímabært sé að skipta gamla húsbílnum út fyrir annan heldur þægilegri. ,,Gamli bíllinn er svokölluð háþekja sem þýðir að

Álfhildur og Halldór í Keukenhof i Hollandi þar sem áhugaverð saga nær aftur til 15. aldar.

sofið er uppi yfir stýrishúsinu. Við komumst að því að nú væri tímabært að fá okkur bíl með rúmið niðri.,“ segir Álfhildur og brosir. ,,Hún er að ýja að því að við séum að verða fullorðin,“ segir Halldór og þau hlæja bæði að galinni hugmyndinni. ,,Staðreyndin er sú að margir í mínu fagi þjást af sinadrætti um nætur og þá verð ég að komast fram úr og

það er mannhæð niður úr rúminu í gamla bílnum. Á einhverjum tímapunkti verður það erfiðara og þá er ekki eftir neinu að bíða,“ segir Halldór.

Hittust í fyrsta sinn í Búðardal

Halldór var búsettur á Patreksfirði og Álfhildur á Akureyri þegar tölvan fann út að þau tvö ættu nógu margt sameiginlegt til að það væri þess virði að prófa. ,,Við vorum búin að spjalla saman í tölvunni í nokkurn tíma og svo var komið að því að hittast,“ segir Halldór. ,,Við ákváðum að hittast á miðri leið og það reyndist vera Búðardalur því þangað var jafn langt fyrir okkur að keyra og þar er þessi fíni veitingastaður sem heitir því viðeigandi nafni ,,Veiðistaðurinn eða The fishing spot“,“ segir Halldór og þau skellihlæja bæði. ,,Þar voru þessi fínu sjávarréttir í boði og eftir þessa máltíð var ljóst að við gátum bæði hugsað okkur að rugla saman reitum.“ Þau viðurkenna bæði að hafa verið svolítið feimin þarna í Búðardal og Halldór bætir brosandi við að þau hafi borðað þar saman mjög góða máltíð og að þær hafi verið allar góðar síðan.

Halldór og Álfhildur við kafbatinn Espadon i Saint-Nazaire i Frakklandi.

Kassadama á Patró

Eftir þennan fyrsta fund þeirra Álfhildar og Halldórs ákváðu þau að það væri ekki eftir neinu að bíða og að Halldór skyldi flytja til Akureyrar. ,,Ég fór þá til Patreksfjarðar og gerðist ,,kassadama á Patró“ um stundarsakir,“ segir Álfhildur hlæjandi. ,,Það þýddi að ég fór þangað og aðstoðaði Halldór við að pakka dótinu hans niður í kassa.“

Þar með voru þau Álfhildur og Halldór flutt saman sem var árið 2020 og hann fékk strax vinnu sem bílstjóri á Akureyri. ,,En nú er ég orðinn löglegur þegi ellilífeyris og er hættur að keyra í fastri vinnu. Ég er nú samt á varamannabekknum því það vantar alltaf bílstjóra,“ segir Halldór.

Fyrsta ferðin á húsbílnum

Á balli við Ögur.

Á balli við Ögur.

Að ferðast um í litlu rými er sannarlega prófraun á hvaða samband sem er. Þau Álfhildur og Halldór fóru fljótlega í sjö vikna ferð um Færeyjar og Skandinavíu sem var mikið ævintýri. ,,Svo sannfærði ég hann um að koma með mér í einn mánuð til Kanaríeyja,“ segir Álfhildur. Hún segir að hann hafi fyrst verið tregur til því hann hafi verið fullur fordóma. ,,Ég hef aldrei verið mikið fyrir hita,“ segir Halldór. ,,En ég var kominn með svokallaða bílstjóraveiki en hún lýsir sér í verkjum í skrokknum eftir burð og álag. Læknir var búinn að óma öxlina og kvað upp úr með það að ég hefði kost á lítilli eða stórri aðgerð og hvað sem yrði gert myndi það taka mig sex mánuði að jafna mig. Ég sagði honum þá að ég hefði nú engan tíma í það og myndi prófa Kanarí fyrst sem ég og gerði. Fram að því var ég hættur að geta sofið og bruddi verkjatöflur eins og sælgæti. En þegar ég hafði verið í hitanum í nokkurn tíma var ég orðinn verkjalaus þótt ég væri auðvitað ekki með sama mátt í hendinni og áður. En það var mikill munur að geta sofið og losna við verkjatöflurnar,“ segir Halldór sem átti hugmyndina að því að næst færu þau í fimm mánuði til Kanarí. „Næsta vetur höfum við ekki tíma til að vera nema fjóra mánuði á Kanarí því við ætlum að vera svo lengi í Norður Skandinavíuferðinni sem hefst í ágúst,“ segir Álfhildur

Ferðalag í húsbíl kostar þau ekki svo mikið

Álfhildur og Halldór við Brandenborgarhiðið í Berlín.

Á þremur árum hafa þau Álfhildur og Halldór ferðast yfir 20.000 kílómetra um Evrópu. ,,Þegar grannt er skoðað er kostnaðurinn við ferðalag í húsbíl ekki svo mikið,“ segir Álfhildur. ,,Við þurfum auðvitað ekki að borga fyrir hótel og getum eldað um borð í bílnum svo veitingahúsaferðir eru ekki nema til hátíðarbrigða. Það kostar auðvitað olíu að keyra bílinn en í honum er allt sem við þurfum. Halldór átti húsbílinn fyrir og það er mikið framboð af næturstöðum þar sem er öll þjónusta eins og þvottaaðstaða og aðrar nauðþurftir.

Það hjálpar auðvitað til að með í för er atvinnubílstjóri sem lagði sjálfur rafkerfið í bílinn og kann allt mögulegt. Þegar þú ert með farartæki og heimili með þér er ekki einfalt að þurfa að kalla til sérfræðinga ef eitthvað bilar, smátt eða stórt. Fólk þarf að treysta sér í þessa vegferð með kostum og göllum en við höfum verið mjög heppin að hafa ekki þurft að upplifa bilanir.“

Álfhildur á einn son sem á tvö börn og Halldór tvo syni sem ekki eru komnir með fjölskyldur. Sonur Álfhildar er búsettur í Svíþjóð en Halldór á bróður sem býr í Noregi svo þau eiga því erindi til Skandinavíu reglulega að heimsækja sitt fólk. ,,Við höfum því mikinn tíma fyrir okkur og getum ráðstafað honum að vild,“ segir Halldór.

Moli ferðalangur

Þau Álfhildur og Halldór halda úti Facebook síðu sem ber nafn húsbílsins þeirra eða ,,Moli ferðalangur“. ,,Við skrifum þar inn flesta daga sem við erum á ferðalagi og það er

Húsbíllinn Moli er í senn heimili og farartæki á meðan á ævintýrunum stendur. Plássið dugar og þau segja að það sýni sig að líklega búum við mörg  óþarflega rúmt.

gaman að sjá að margir hafa ánægju af að fylgjast með því. Við fáum oft mjög skemmtilegar ábendingar frá fylgjendum okkar sem hafa verið á þeim stöðum sem við förum í gegnum og segja okkur frá einhverju markverðu að skoða.“

Að láta slag standa

Eitt af því sem sameinaði þau Álfhildi og Halldór er vissan um gildi þess að bíða ekki heldur nota tímann á meðan stætt er. Þau hafa horft á jafnaldra sína í þeirri stöðu að geta ekki lengur gert margt af því sem skiptir þau svo miklu máli að geta, til dæmis að ferðast. ,,Því yngra sem fólk lætur slag standa og breytir um lífsstíl því meiri líkur eru á að mikið fáist út úr breytingunni,“ segir þetta eldhressa par sem sannarlega lét slag standa.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

———————————————————————

Makaleit.is býður lesendum Lifðu núna ákveðið tilboð í tilefni tíu ára afmælis síðunnar. Lesendum Lifðu núna býðst einn auka mánuður án kostnaðar, ef þeir kaupa áskrift hjá síðunni. Til að fá hann þarf að senda tölvupóst á makaleit@makaleit.is og biðja um Lifðu núna auka mánuð.

Ritstjórn júní 16, 2023 07:00