Það er þetta með aldurinn

Það er þetta með aldurinn. Hvað hann er afstæður! Ef ég hefði litið í spegil þegar ég var 25 ára og séð mig eins og ég lít út 73 ára, hefði ég ugglaust fengið áfall og jafnvel ekki langað til að lifa lengur! En nú þegar ég horfi á mig 73 ára, get ég ekki séð að ég sé neitt öðruvísi en þegar ég var 25 ára! Kannski hjálpar til að ég er í dag að gera nákvæmlega það sama og ég var að gera þegar ég var 25 ára: að skrifa. Þannig að það hafa ekki orðið nein skil hjá mér. Ég ímynda mér að fólk sem hættir í vinnu og byrjar allt annað líf upplifi meiri hvörf.

Sem breytir ekki því að þegar maður eldist – svona mikið – fer ekki hjá því að fólkið sem umlék mann og umvafði þegar maður var ungur er allt saman horfið af sviðinu – og samt ekki horfið heldur hefur það flust yfir á efra svið – ekki stóra sviðið heldur efra sviðið – og þar heldur það áfram að lifa með manni.

En síðan er komið alveg nýtt fólk sem á í manni hvert bein – barnabörnin – við eigum fjögur og nú er þeirra veröld okkar veröld.

Ætli það haldi manni ekki ungum – yngri?

Síðan held ég að það sé svo mikilvægt að hlakka til og langa til – þessar sagnir sem eru svo erfiðar í íslensku af því að manni hættir svo til að nota vitlaust fall, segja „mér hlakkar“ og „mér langar“ í stað „ég“ og „mig“. En hvort sem það er nefnifall, þolfall, þágufall eða jafnvel eignarfall – þá er svo mikilvægt að langa til og hlakka til.

Sjálfur á ég engin áhugamál og ekkert hobbí, þ.e.a.s. þetta tvennt er innifalið í starfinu. Ég fer yfirleitt allt á hjóli það sem ég fer einn, það er mín hreyfing. Ég nýt þess líka að ganga, aftur á móti hef ég aldrei fundið púðrið í því að hlaupa. Á sumrin reynum við að ferðast eins mikið og við getum um landið okkar. Ég fer að jafnaði einusinni á ári niður í bæ – en þá til Parísar – miðbær Reykjavíkur er ekki lengur minn bær, hann er farinn eitthvert annað, aftur á móti er París í stórum dráttum eins og þegar ég hitti hana fyrst fyrir fimmtíu árum.

Og síðan held ég áfram að gera það sem ég hef verið að gera í hálfa öld, vakna kl. sjö, lesa yfir það sem ég var að gera í gær, gera jógað og hlusta á áttafréttirnar með morgunkaffinu. Og halda svo inn í hugarheiminn þangað til einhver hringir eða sendir póst og biður mann að sækja, skutla eða passa …

 

Ritstjórn mars 26, 2020 08:03