„Það stoppar varla síminn“

Það kannast sjálfsagt margir við Björn Berg Gunnarsson sem var fræðslustjóri Íslandsbanka í mörg ár. Hann vakti mikla athygli fyrir fundi um lífeyrismál og starfslok sem voru fjölsóttir. Björn byrjaði ferilinn hjá bankanum fyrir 16 árum hjá eignastýringu VÍB.  Árið 2010 hóf hann að byggja upp fræðslustarf bankans á ný og byggði það að hluta á starfsemi VÍB, þar sem hann starfaði á sínum tíma með Sigurði B. Stefánssyni. Síðustu þrjá árin var hann deildarstjóri greiningardeildar bankans.

Óháð fagleg fjármálaráðgjöf

Björn Berg hefur nú söðlað um, hann er hættur  hjá Íslandsbanka og hefur sett á fót óháða faglega fjármálaráðgjöf um lífeyrismál og fleira. Og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa.  „Ég er nýbyrjaður og Þetta fer vel af stað. Áhuginn er mikill,  það stoppar varla síminn“, segir Björn í samtali við Lifðu núna. Hann segir að það séu bæði einstaklingar sem óski eftir ráðgjöf sem hafi samband og vinnustaðir, stofnanir og samtök, sem vilji fá sig til að halda námskeið fyrir sitt fólk. „Þetta er snýst yfirleitt um lífeyrismál en einnig vilja menn erindi um persónuleg fjármál og hvernig ástandið í efnahagsmálunum hefur áhrif á fjármál heimilisins til dæmis lánin“ segir hann og vísar til mikillar verðbólgu um þessar mundir.  Enn aðrir óski eftir ráðgjöf um fjárfestingar.

„Þetta eru annað hvort hreinar og beinar ráðleggingar sem einstaklingar óska eftir eða þá að ég er fenginn til að leggja mat á áform þeirra varðandi  fjármálin“, segir Björn sem telur að það vanti hlutlausa ráðgjöf um lífeyrismálin öll og vill reyna að mæta þeirri þörf. „ Menn fara í banka, Tryggingastofnun og lífeyrissjóði og leita sér upplýsinga um réttindi sín þar, en það virðist vanta einhvern sem hefur yfirsýn yfir heildina. Menn eru látnir sjá um þetta sjálfir og þá er gott að hafa einhvern með sér“, bætir hann við.

Lagðist ungur í ferðalög

Björn Berg er Vesturbæingur. Foreldrar hans eru Gunnar Berg Björnsson flugmaður og Sigrún Jóhannesdóttir.  Hann á fjögur hálfsystkini sem eru öll eldri en hann og búa öll í erlendis.  Hann ferðaðist því iðulega til útlanda að heimsækja þau þegar hann var strákur. „Það kom sér vel að eiga systkini í útlöndum og geta fengið frímiða í fluginu“ segir Björn sem heimsótti hálfsystkini sín meðal annars til Noregs, Luxemburgar, Bandaríkjanna og Singapore.

Björn er kvæntur Tinnu Þorsteinsdóttur sálfræðingi. Þau eiga tvo syni sem verða 5 og 9 ára í ágúst. Þeir eiga afmæli sama dag og fékk sá eldri litla bróður i afmælisgjöf þegar hann var 4 ára.

Þetta er fyrst og fremst rosalega spennandi

Björn er viðskiptafræðingur frá HR og tók meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði í Háskóla Íslands. Hugur hans stóð til þess að starfa við fiskútfluning en örlögin höguðu því þannig, að hann fór að vinna hjá Íslandsbanka þar sem hann starfaði í 16 ár.  Hann segir að eitt það skemmtilegasta sem hann hafi gert þar, hafi verið vinnan í greiningardeildinni. „Ég var að vinna þar með hagfræðingum og lærði mikið á því. Það voru alger forréttindi að vinna þarna og fara í gegnum sveiflurnar í Covid með þeim og sviptingarnar í íslenska efnahagslífinu. Þetta var mjög góður skóli“, segir Björn sem hætti sáttur hjá Íslandsbanka. „Mér fannst ég búinn að ná árangri í því sem ég hafði verið að gera og vera búinn að ná þeim markmiðum sem ég hafði sett mér. Mér fannst þetta hentugur tími til að hætta sáttur og  koma á fót þessari starfsemi, sem er fyrst og fremst rosalega spennandi og ég fer spenntur í vinnuna á hverjum degi“.

Björn segir nýja starfið líka tækifæri til að stjórna tíma sínum betur. Hann segist vilja passa uppá að afa tíma fyrir fjölskylduna „Ég vil geta búið til heitt kakó handa strákunum þegar þeim koma heim úr skólanum“, segir hann bjartsýnn.

Tvö fjarnámskeið fyrirhuguð í sumar

Á vefsíðunni www. bjornberg.is er hægt að fá ítarlegri upplýsingar um þá þjónustu sem Björn hyggst bjóða uppá. Það er líka hægt að hafa samband við hann gegnum síðuna eða með því að senda honum póst á netfangið bjorn@bjornberg.is eða í síma 844-4869.  Það er einnig bókunarkerfi á síðunni hans þar sem hægt er að panta tíma.  Björn verður með tvö námskeið um lífeyrismál og starfslok í sumar. Þetta eru fjarnámskeið og verður fyrra námskeiðið 24.júní kl. 9-12 og síðara námskeiðið 19.júlí kl. 19-22.

Ritstjórn júní 6, 2023 07:00