Það þarf að fjölga körlum í París

Hrafnhildur Einarsdóttir.

Eitt langlífasta skemmtifélag þeirra sem búa einir er félagið París.  Félagið var stofnað fyrir 14 árum í Reykjavík og hefur haldið úti blómlegri starfsemi síðan. „Ég hef kynnst mörgu mjög skemmtilegu fólki þau ár sem ég hef verið í París. Þar hef ég til dæmis eignast mína bestu vinkonu. París hefur algerlega bjargað mínu félagslífi eftir að ég varð ein. Það er svo gaman að geta alltaf farið með einhverjum á tónleika, í leikhús, bíó eða hvert svo sem mann langar hverju sinni,“ segir Hrafnhildur Einarsdóttir ein af talskonum Parísar.

„Það fjölgar ýmist eða fækkar í öllum félögum og auðvitað hafa verið sveiflur hjá okkur líka. Við höfum stundum verið full róleg í að koma okkur á framfæri og kynna félagið. En við erum í kringum 60 núna og hefur heldur fjölgað í félaginu síðustu vikur og mánuði,“ segir Hrafnhildur.  Félagið er opið öllum þeim sem eru orðnir fimmtugir og búa einir. „Við erum flest 60 plús sem erum aktív í félaginu en það þarf að reyna að fjölga yngra fólkinu svo við deyjum ekki út,“ segir hún og hlær en bætir við að sérstaklega þurfi að fjölga körlum því konurnar séu miklu virkari í starfsemi félagsins. „Karlarnir eru latari við að drífa sig af stað,“ segir Hrafnhildur. „Annars er tekið vel á móti öllum sem koma. Mörgum finnst erfitt að taka fyrsta skrefið og mæta en flestir sem ganga í félagið segja að þeir hafi heyrt af hópnum og verið búnir að skoða heimasíðuna á netinu. Svo hafi þeir hugsað málið en ákveðið að láta slag standa. Sumum finnst þetta frábært frá fyrstu stundu og eru duglegir að mæta á viðburði en öðrum finnst þetta ekki eiga við sig og mæta bara einu sinni. Annars er það svo merkilegt að fólk sem gengur í París er flest afskaplega lífsglatt og fjörugt. Þetta er upp til hópa ótrúlega jákvætt og skemmtilegt fólk. Maður er manns gaman og ég held að það sannist svo sannarlega innan okkar raða,“ segir Hrafnhildur.

Gaman saman, segja félagar í París.

Starfsemi Parísar er ótrúlega fjölbreytt, þar eru hópar sem hittast á kaffihúsum til að spjalla, gönguhópar, leikhúshópar, út að borða hópar, bjóða heim hópar og svo mætti áfram telja. Það eru líka skipulögð ferðalög innanlands og fólk hefur tekið sig saman og farið í ferðalög saman til útlanda. „Við erum með lokaða síðu á Fésbók þar sem fólk talar saman, stingur upp á einhverju sem gæti verið skemmtilegt að gera og fær aðra í lið með sér. Ég er til dæmis næstum hætt að nenna að elda fyrir mig eina og nú erum við að fara í gang með hóp sem hefur það að markmiði að finna staði þar sem fólk getur farið ódýrt saman út að borða á kvöldin í miðri viku.“

París er ekki hugsað sem stefnumótaklúbbur en það hefur komið fyrir að fólk hafi fundið nýja félaga innan klúbbsins. „Fólk þarf að hætta ef það fer í sambúð. En það er ekki hægt að banna fólki að eiga í sambandi við einhvern af hinu kyninu. Við rekum engan en það hefur komið fyrir að við höfum spurt fólk hvernig það ætli að haga hlutunum því fyrst og fremst er félagið ætlað fyrir fólk sem er eitt en langar að lifa virku félagslífi,“ segir Hrafnhildur.

Hægt er að skoða heimasíðu Parísar á netinu Paris.is. Þar er að finna upplýsingar um viðburði og hópa sem eru starfandi hverju sinni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn ágúst 14, 2017 11:13