Sextíu manns vilja læra á iPad

Gísli Jafetsson

Gísli Jafetsson

Gísli Jafetsson rekstrar- og skrifstofustjóri hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík segir að fleiri og fleiri gangi í félagið, en aldurstakmarkið er 60 ár. Hann segir að þeir sem gangi í félagið  hafi sumir heyrt um afsláttarkjörin sem félagið bjóði uppá og einnig finnist fólki mikilvægt að hafa málssvara fyrir þennan hóp.  Meðalaldurinn í félaginu hefur verið í hærri kantinum, en félagið býður uppá margs konar námskeið og fræðslu .  Gísli segir að félagið reyni að höfða líka  til „yngri“  eldri borgara og sextíu manns eru búnir að skrá sig á iPad námskeið sem verða haldin bæði í þessum mánuði og næsta mánuði. Námskeiðið kostar 8.500 krónur.

Félagsgjaldið fljótt að borga sig

Félagið er að skoða að stofna sérstakan sumarbústaðaklúbb í samvinnu við Húsasmiðjuna og nýbúið er að ganga frá samningi um sérstök kjör á eldsneyti hjá Olís og OB.  Félag eldri borgara er með 10% afslátt í Hagkaup í Holtagörðum.  Gísli segir að með því að nota aflsáttarkortið og þá sérstöku afslætti sem félagið hefur samið um sé félagsgjaldið fljótt að borga sig – og það jafnvel á einum stað!

Of ungir til að ganga í félagið?

Um níu þúsund manns eru nú í Félagi eldri borgara í borginni og Gísli segir að það sé stöðugt verið að efla félagslífið.  Það stendur til dæmis til að fara í ferð til Pétursborgar í Rússlandi í vor og til Washington í Bandaríkjunum næsta haust.  Margir í yngri hópnum telji sig of unga til að ganga í félagið og  átti sig ekki á, að það er opið þeim sem eru  sextugir og eldri. Annars gildi það sama um félagsstarf eldri borgara og annað félagsstarf –  og öflugt félagsstarf byggist á skipulagningu og virkri þáttöku allra.

Systkini hætt að hittast?

Gísli telur að notkun samfélagsmiðla sé ein af ástæðum þess að menn taki ekki jafn mikinn þátt í félagsstarfi og áður.  Hann segir að fólk sinni sjálfu sér og sinni fjölskyldu, börnum og barnabörnum. En það sé jafnvel til í dæminu að systkini sem eru farin að eldast, hittist ekki mikið.  Menn kenni Facebook og netinu um, en á móti komi að í gegnum Facebook fái menn fréttir af stórfjölskyldunni sem þeir fengju kannski ekki ella.

 

 

Ritstjórn nóvember 18, 2014 12:29