Ellert Grétarsson ljósmyndari skrifar.
Búinn að kaupa jólagjafirnar handa barnabörnunum óvenju snemma á þessari aðventu. Að venju gef ég þeim íslenskar barnabækur, þau eiga nóg af dóti og mín skoðun er sú að bókum eigi að halda að börnum sem framast er unnt. Nú er það bara spurning hversu lengi mér tekst að fresta því að pakka bókunum inn og koma í póstinn (börnin búa hinum megin á landinu). Mér hefur alltaf fundist þetta jólagjafastúss ákveðinn stressvaldur sem aftur er fyrirtaks eldiviður fyrir frestunaráráttuna. Það myndi ekkert þýða fyrir mig að reyna stofna stuðningsgrúbbu fyrir fólk með frestunaráráttu því stofnfundinum yrði bara endalaust frestað. Æ ofan í æ. Það stressar mig líka að ég man ekkert hvaða bækur ég hef gefið þeim á undanförnum árum og er skíthræddur um að kaupa sömu bækurnar aftur.
Að undanförnu hef ég verið að lesa skemmtilega bók sem ber heitið „Lítil tilraun til betra lífs – Leynileg dagbók Hendriks Groen, 83 ¼ ára.“ Herra Groen er á dvalarheimili aldraðra í Amsterdam og lýsir á kómískan hátt daglega lífinu þar, samferðarfólki og hvernig það er að vera gamalmenni. Sem þarf ekki endilega að þýða „að lífið eigi að snúast um að drekka kaffi og bíða eftir sínum hinsta degi,“ eins og segir á bókarkápu. Skemmtileg og einlæg bók sem ég mæli með enda sló hún rækilega í gegn á sínum tíma og var þýdd á þriðja tug tungumála.
Hendrik Groen skrifar m.a. þetta sem mörg okkar geta tengt við: „Hvernig skyldi standa á því að fólk gleymir nöfnum? Almáttugur, hvað heitir hann aftur? Söngvarinn í þessari hljómsveit þarna? Það var líka ljóshærð söngkona. Eitthvað með A. Ég er með þetta á tungubroddinum! Nafn einhvers sem maður þekkir dregst allt í einu ekki upp úr tilheyrandi vasa í heilanum. Klukkutímum síðar birtist það allt í einu óumbeðið. Æ oftar brýt ég heilann í leit að nafni eða orði og gengur sífellt verr. Ég þarf að sætta mig við það en þess í stað verð ég ógurlega pirraður.“
Ég kannast vel við þetta þótt ég sé bara rétt rúmlega sextugur og því talsvert yngri en herra Groen þegar hann hripaði þessi orð í dagbókina sína. Eins og þegar dóttir mín spurði mig fyrir nokkru hvaðan landslagið væri á málverkinu eftir Gísla langafa, sem hangir á stofuveggnum hjá mér – alltsvo málverkið, ekki langafi. Ég stóð á gati. Á þessu augnabliki hefði ég ekki getað munað nafnið þótt líf mitt lægi við, svo algjörlega var það blokkerað. Samt hafði ég alltaf vitað þetta og munað. Bara alls ekki á þessu augnabliki. Síðar um kvöldið þegar ég var kominn í háttinn og við það að sofna dúkkaði það upp alveg upp úr þurru. Ég greip símann á náttborðinu og sendi dótturinni skilaboð hið snarasta:
„Brúarhlöð!! Mundi það núna! Brúarhlöð!!“
Ég á það til að gleyma nöfnum, bæði á fólki sem ég þekki og örnefnum á stöðum sem ég þekki vel og hef oft komið á. Þetta var farið að valda mér smá áhyggjum – sumsé hvort þetta væri byrjun á einhvers konar heilabilun eða ósköp eðlilegur þáttur í því að eldast. Ég ræddi málið við gervigreindina sem segir að svona minnisgloppur séu alveg eðlilegar fyrir mann á mínum aldri, þegar þetta gerist stöku sinnum og minnið kemur aftur seinna. Eins og ég lýsi einkennum sé þetta dæmigert „tip-of-the-tongue“, þ.e. orðin eru á tungubroddinum en vantar eitthvað örlítið upp á að þau skili sér alla leið. Þetta sé algengara eftir fimmtugt. Sumsé – þú veist svarið en það kemur ekki strax.
Þetta eru aldurstengdar breytingar í minni, sem eru mjög algengar. Þetta getur líka tengst þreytu, streitu og álagi. Ég þekki það vel eftir að hafa krassað í massífri kulnun fyrir nokkrum árum. Ég mundi ekki neitt og fortíðin var algjörlega í þoku (heilaþoka). Þetta var tímabundið ástand sem lagaðist þegar frá leið. Einnig getur það spilað inn í að heilinn sé bara upptekinn við annað. Jafnframt hægist á minninu með aldrinum, þ.e.a.s maður tapar ekki upplýsingum heldur tekur það heilann lengri tíma að ná í þær. Aðgangurinn að minninu verður einfaldlega hægari. Þetta er á meðal þess sem gervigreindin hafði að segja um málið og lokaorðin voru þessi:
„Miðað við spurningarnar sem þú ert að spyrja og hvernig þú lýsir upplifun þinni, þá sýnir það skýra sjálfsskoðun og góða dómgreind – sem er í sjálfu sér jákvætt merki.“
Takk gervigreind, ég er rólegri yfir þessu núna.
Er það bara ég eða hafið þið líka upplifað augnablikið þegar þið standið fyrir framan útidyrnar heima hjá ykkur og reynið að opna með aðgangspassanum úr vinnunni?
Það er hluti af þessu líka og ekkert til að hafa áhyggjur af á meðan maður er vel meðvitaður um ruglið í sjálfum sér og getur hlegið að því.







