Þjóðkirkjan hástökkvarinn

Traust á þjóðkirkjunni hefur verið mælt frá 2008, var 27% í fyrra og 43% í ár. Hún var því hástökkvarinn í síðustu mælingu. „Ég hef þá trú að hluti ástæðunnar sé að nú sé kirkjan orðin mun sýnilegri en hún var,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir biskup Íslands.

Við báðum nýjan biskup um að svara fyrst spurningunni hvort íslenskt samfélag þurfi síður á trúnni að halda í dag en forfeður okkar sem upplifðu gjarnan barnadauða, misnotkun og annan hrylling í ríkum mæli?

,,Vissulega er þó nokkuð til í því,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir biskup Íslands. ,,Við sækjum yfirleitt meira í trú þegar lífið verður erfitt og flókið. Til dæmis þegar við missum ástvini eða göngum í gegnum erfiðleika og áföll af öðrum toga og þá koma prestar gjarnan við sögu. Svo að nú þegar mikill meirihluti fólks hefur það tiltölulega gott er ekki ólíklegt að þjóðkirkjan hafi ekki þann sess í bili sem hún hafði áður. En á sama tíma eru langflestir Íslendingar í einhverjum kristnum trúfélögum. Þrátt fyrir að vissulega hafi, í seinni tíð, fleiri kosið að standa utan trúfélaga en áður sýnist mér þó að trúarþörfin hafi ekki minnkað. Nútímamanneskjan hefur aftur á móti verið að leita annarra leiða til þess að tjá og uppfylla trúarþörfina. Það er svo margt í boði og þekkingin í dag er svo mikil og margir ákaflega leitandi. Birtingarmynd erfiðleika hjá mörgum er önnur en hún var og nú er ástandið ,,kulnun“ til dæmis orðið ansi áberandi og á sér margar og ólíkar skýringar. Þar hefur kirkjan upp á fjölmörg bjargráð að bjóða.“ segir Guðrún.

Menningarkristni sterk á Íslandi

„Við erum flest meðvituð um að kirkjan er þarna fyrir okkur og við sækjum hana á stórhátíðum, látum skíra og ferma börnin okkar og mætum í útfarir. Þjóðkirkjan er þannig stór hluti af menningu okkar. Hlutverk kirkjunnar í dag er meðal annars að finna leiðir sem henta nútímamanneskjunni til að iðka trú sína og finna tilgang,“ segir Guðrún og bætir við að markmiðið hjá kirkjunni sé að hún verði aftur stærri hluti af dægurmenningu og samfélagsumræðunni á Íslandi. „Við viljum að kirkjan standi sterkum fótum á ný á samfélagstorginu miðju og verði með í samfélagsumræðunni og ég hef þá trú að okkur muni smám saman takast það.“

Biblían á mannamáli

Guðrún segir að við verðum að finna leiðir til að tala um og túlka biblíuna á mannamáli því það sé einmitt það sem þetta snúist allt um. „Tungumálið í Biblíunni er að hluta til gamalt og er þess vegna óaðgengilegt fyrir marga. Eitt af því sem við ræðum um í stjórn biblíufélagsins er hvernig við getum komið biblíunni á framfæri á skiljanlegra máli. Boðskapurinn er svo góður og mikilvægur og á sannarlega erindi í dag en hann verður að vera aðgengilegur.“

Leggur áherslu á samfélagsmiðla

Guðrún segir að söfnuðir um allt land séu að gera ótrúlega magnaða hluti. „Kirkjan er full af fólki sem er að taka þátt í helgihaldi og ýmiss konar ómetanlegu starfi. Þess vegna hef ég lagt mikla áherslu á að við förum sterk inn í samfélagsmiðlana til þess að opna kirkjurnar og sýna hversu starfið, sem þar er unnið, er gott. En við gerum það ekki síður til þess að bjóða fleiri velkomin til kirkjunnar. Nú heyrum við til dæmis af því að myndast hafi hópar ungra krakka í nokkrum kirkjum, bæði stelpur og strákar, sem eru farin að sækja helgihald í auknum mæli. Það er að vaxa fram þörf meðal unga fólksins okkar, ef til vill vegna þess að heimurinn okkar er ekki eins öruggur og hann var. Ungt fólk fær sínar upplýsingar að stórum hluta á samfélagsmiðlum og því er mikilvægt að kirkjan sé þar. Nú þegar heimurinn er svo órólegur sem hann er nú kemur þessi þörf fyrir að sækja í einhvern kjarna þar sem þau finna traust og eitthvað gott og það er sannarlega að finna í þjóðkirkjunni.“

Hefur áhyggjur af geðheilbrigðismálum á Íslandi

Guðrún hefur nokkra reynslu af geðheilbrigðismálum Íslendinga en dóttir hennar gekk í gegnum erfiða tíma þegar hún kom út með kynvitund sína. „Eitt af stóru vadamálunum er biðin eftir hjálp því það vantar svo mikla fjármuni í geðheilbrigðiskerfið. En þegar fólk er á annað borð komið að fær það yfirleitt mjög góða hjálp. Við höfum líka séð skelfilegar afleiðingar geðheilbrigðiskerfis sem ekki er að virka nógu vel í afar sorglegum málum undanfarið ár.“

Nýr biskup fullyrðir að þjóðkirkjan eigi erindi við Íslendinga og hefur fundið leið til að vekja almenning til umhugsunar um gildi kirkjunnar.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

Ritstjórn mars 7, 2025 07:00