Þjónusta bankanna við elsta hópinn

Meðvitund bankanna varðandi nauðsynlega þjónustu við elsta hópinn okkar hefur eflst mikið enda mikilvægt að sá hópur haldi sjálfstæði og þurfi ekki að vera upp á ættingja komnir um hjálp við fjármál. Ástandið á covid tímum hefur ýtt við starfsfólki og athyglin beinst að þessari þörf enn frekar. Þeir, sem hafa nú fyllt flokk elstu viðskiptavinanna, störfuðu sumir ekki með tölvur á meðan þeir voru a vinnumarkaði. Ekki þýðir að segja við þennan hóp:  “Farðu bara í heimbankann í tölvunni þinn og þá finnurðu öll svörin við spurningum þínum.” Himinn og haf er á milli þeirra sem eru nýskriðnir út úr skóla og þeirra eldri og varla hægt að ætlast til þess að þetta fólk nái saman slík hefur tækniþróunin orðið á ævi þeirra. Enda hafa allir bankarnir gert gangskör í að búa til kerfi sem sinnir öllum aldri.

Við fengum svör hjá bönkunum um hvað hefur verið gert til að mæta þörfum elsta hópsins:

Íslandsbanki

Þjónusta Íslandsbanka við eldri borgara segja Hildur Kristmundsdóttir, forstöðumaður einstaklingssviðs og Jóhanna Erla Birgisdóttir, vörustjóri einstaklingssviðs, vera töluverða. Nýjung sem varð til í Íslandsbanka vegna Covid en verður áfram í boði vegna vinsælda og ánægju eldri borgara er til dæmis eftirfarandi:

Sér símanúmer fyrir eldi borgara 440-3737.

Aðstoð og leiðbeiningar varðandi notkun á starfrænum lausnum.

Auðveldara aðgengi og minni bið.

Góð viðbrögð strax í upphafi.

Vörur sérhannaðar fyrir eldri borgara:

Óverðtryggður sparnaðarreikningur með þrepaskiptum vöxtum, í boði fyrir 60 ára og eldri, Útborgun vaxta mánaðarlega og engar takmarkanir á inn/út borgunum fyrir viðskiptavini 60 ára og eldri.

Reikningurinn er aðgengilegur í öllum dreifileiðum bankans, í útibúi, netbanka og appi.

Margir fræðslufundir fyrir eldri borgara um allt land tengt fjármálum við starfslok. Sérstakur fræðsluvefur með efni  tengt fjármálum við starfslok

Netslóðir sem Íslandsbanki býður upp á:

https://www.islandsbanki.is/is/frett/aukin-thjonusta-vid-eldri-borgara

https://www.islandsbanki.is/is/timamot/fjarmal-vid-starfslok

 

Landsbankinn

“Við leggjum áherslu á að viðmótið í stafrænu lausnunum, s.s. netbanka og appi sé skýrt og þægilegt og henti sem flestum,” segir Helgi Teitur Helgason, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Landsbankans.

“Markmiðið með rekstri vefsíðunnar er að gera líf og störf  þeirra landsmanna sem eru komnir um og yfir miðjan aldur sýnilegri en þau eru, auka umræðu um þau málefni sem tengjast þessu æviskeiði og lífsgæði þeirra,” segir Helgi. „Þá er lögð sérstök áhersla á notendaviðmót fyrir sjónskerta og sjóndapra og hefur bankinn fengið viðurkenningu og hrós fyrir framgöngu sína í þeim efnum sem okkur í Landsbankanum hefur þótt vænt um. Óskýr framsetning eða smátt letur er þá ekki hindrun fyrir þá sem ekki hafa fulla sjón. Gera má ráð fyrir að þegar fram líða stundir verði þessar lausnir í auknum mæli raddstýrðar af notendum. Tækninni fleygir fram.

Við höfum boðið opin námskeið fyrir fólk til að læra á stafrænu lausnirnar en reynslan hefur kennt okkur að flestir, einkum eldra fólk, hefur meira og betra gagn af því að fá kennslu og leiðbeiningar af þessu tagi með fyrirkomulaginu „maður á mann“. Um leið aðstoðum við fólk að ná sér í rafræn skilríki án endurgjalds en rafræn skilríki eru sífellt að verða mikilvægari til að fólk geti nýtt sér ýmsa þjónustu sem er í boði í samfélaginu öllu. Að okkar mati er þessi fræðsla og aðstoð ein besta þjónustan sem við getum veitt þessum hópi viðskiptavina hvað afgreiðsluerindin varðar.

Margir eldri viðskiptavinir sem hafa tileinkað sér tæknina, eftir að hafa fengið kennslu í útibúum, kjósa að mæta í útibú bankans til að sinna bankaerindum með þessum stafrænu lausnum, því þeir finna í því öryggi og traust að sinna þeim innan veggja bankans. Og við bjóðum þau að sjálfsögðu velkomin og í útibúunum geta þau komist í tölvur og fengið aðstoð ef þörf krefur.

Ef viðskiptavinur vill ekki eða getur ekki nýtt sér stafrænar lausnir bankans eru eftir sem áður fjölmargar leiðir til að einfalda lífið. Það er t.d. hægt að skrá reglulega reikninga til dæmis kredtikorta-, rafmagns-, hitaveitu-, húsfélagsreikninga og aðra reglulega reikninga í beingreiðslur. Þá þurfa viðskiptavinir ekki að hafa áhyggjur af því að gleyma að borga með tilheyrandi kostnaði og óþægindum og auk þess spara þeir sé ferðir í bankann.

Ég bendi líka á að þótt bankaþjónusta sé í auknum mæli stafræn þá leggjum við í Landsbankanum líka áherslu á að veita persónulega þjónustu um allt land. Við rekum alls 36 útibú og afgreiðslur í öllum landshlutum og er leitun að stærra þjónustuneti á Íslandi. Að auki hefur bankinn á dreifbýlli svæðum landsins, einkum þar sem um lengri eða erfiðari leiðir er að fara, boðið viðskiptavinum upp á þjónustuheimsóknir. Þær eru yfirleitt í boði á öldrunar- og elliheimilum. Þessi þjónusta er fyrst og fremst hugsuð fyrir þá viðskiptavini sem heilsu sinnar vegna geta hvorki sótt sér þjónustu í útibúi né nýtt sér stafrænar lausnir.

Þar að auki rekur bankinn eitt stærsta þjónustuver landsins en þangað geta viðskiptavinir hringt á opnunartíma og fengið upplýsingar og ákveðna grunnþjónustu, svo sem að millifæra peninga og greiða reikninga. Til að geta nýtt sér þessa þjónustu þurfa viðskiptavinir að geta auðkennt sig með leyninúmeri eða rafrænum skilríkjum, þannig að hægt sé að sanna á þeim deili.

Ráðgjöf til viðskiptavina er sífellt mikilvægari þáttur í þjónustu okkar. Við viljum aðstoða viðskiptavini við að haga sínum fjármálum með sem bestu hætti, kynna fyrir þeim leiðir og valkosti, þannig að ávinningur þeirra verði sem mestur og bestur í ljósi aðstæðna hvers og eins.

Þá er rétt að nefna að eldri viðskiptavinum, alveg eins og þeim yngri, býðst að taka lán hjá bankanum t.d. íbúðalán til að endurfjármagna eldri lán eða til að kaupa eignir sem henta þeim betur t.d. í því ljósi að börnin eru flutt að heiman. Allt í kringum þetta kallar yfirleitt á spurningar um hvernig hlutirnir virka, hvaða kostir séu í stöðunni og hvað kunni að henta best í ljósi aðstæðna hvers og eins. Þessi ráðgjöf er veitt bæði í húsakynnum flestra útibúa bankans og í gegnum síma ef því er að skipta og betur hentar viðskiptavinum.

https://www.landsbankinn.is/einstaklingar/sparnadur/frodleikur/byggdu-upp-sparnad/aeviskeid-iii/

https://www.landsbankinn.is/einstaklingar/sparnadur/bankareikningar/vaxtareikningur-vardan-60/

Arion banki

Að sögn Haraldar Guðna Eiðssonar, forstöðumanns samskiptasviðs Arionbanka býður bankinn mjög fjölbreytta fjármálaþjónustu sem allir aldurshópar geta nýtt sér. Gjaldkeraþjónusta er í útibúum bankans um land allt og býður bankinn jafnframt upp á tíma- og símtalspantanir þegar sérstaklega þarf að fara yfir málin.

Að auki eru Arion appið og netbankinn stöðugt að verða vinsælli enda er hægt að sinna öllum einfaldari aðgerðum þar. Í útibúum okkar hefur verið sérstök áhersla á að kenna viðskiptavinum á þessar öflugu stafrænu lausnir sem og sjálfsafgreiðslulausnirnar (hraðbankana). Jafnframt höfum við boðið eldra fólki upp á sérstök námskeið í notkun stafrænna lausna.

Tilteknir þættir í þjónustu bankans eru sérstaklega ætlaðir eldra fólki. Við bjóðum meðal annars sérstaka innlánsreikninga, Premium 50+, sem eru ætlaðir fólki sem er eldra en 50 ára. Jafnframt bjóðum við upp á fasteignalífeyrislán sem gerir fólki kleift að nýta eigið fé í fasteign sinni til að auka ráðstöfunartekjur.

Svo er rétt að taka fram, að í vor þegar það þurfti að loka útibúunum vegna COVID-19 þá hringdi bankinn af fyrra bragði í viðskiptavini sem koma reglulega í útibú bankans um mánaðamót, en þeirra á meðal er stór hluti eldra fólk, og reyndi eftir fremsta megni að leysa úr málum fólks símleiðis eða með öðrum hætti.

 

Ritstjórn september 10, 2020 08:43