Ekki vön að fikta og þreifa okkur áfram

Þeir sem tilheyra elstu kynslóðinni og eru komnir um áttrætt eiga margir erfitt með að tileinka sér þá nýju tækni sem nú er allsráðandi. En samkvæmt könnuninni, Greining á högum og líðan aldraðra á Íslandi sem gerð var árið 2016, eru samt ótrúlega margir eftirlaunamenn sem nota tölvur daglega eða 61%.  56% fara síðan daglega inná netið. Notkunin er mest í hópi 67-69 ára, en minnkar töluvert eftir 75 ára og er minnst í aldurshópnum 88 ára og eldri.  Það er algengt að menn telji að eldri kynslóðin eigi erfitt með bæði að tileinka sér nýjar hugmyndir og nýja tækni. En hvað segja álitsgjafar Lifðu núna. Eiga þeir sem eldri eru erfitt með það?

Ekki tel ég það, en það tekur eldra fólk lengri tíma og fyrirhöfn að tileinka sér nýja hluti og hugmyndir. Sumir er reyndar fastir í því að „það gamla“ sé það eina rétta og það besta og gefur nýjum hugmyndum ekki tækifæri.

Það er eins með tæknina og hugmyndirnar það tekur lengri tíma að tileinka sér hana.Við sem erum núna að eldast og verða eldri borgarar höfum alist upp við það miklar tæknibreytingar að við erum  kannski ekki svo illa stödd í þessum málum. Alla vega betur en kannski foreldrar okkar.   En auðvitað fer það líka eftir áhugasviði hvers og eins hve mikið er lagt í tækninýjungar.

Annar viðmælandi okkar taldi að eldra fólk ætti að einhverju leyti erfiðara með að tileinka sér nýjar hugmyndir og sérstaklega nýja tækni. Enn annar var ekki viss.

Held það fari frekar eftir einstaklingum og hversu móttækilegir og sveigjanlegir þeir hafa verið í gegnum tíðina, en eftir aldri. Sumir eru opnir og finnst allt mögulegt spennandi, hafa gaman af að fylgjast með því sem unga fólkið er að fást við, þótt sumt sé ef til vill illskiljanlegt og öðruvísi en gert var þegar þeir voru upp á sitt besta. Aðrir loka á allt nýtt, geta endalaust hneykslast og hummað og finnst allt hafa verið betra áður.

En varðandi nýja tækni held ég að við sem erum orðin eldri séum mörg eftirbátar yngra fólks. Við þurfum oft að taka okkur taki til að setja okkur til dæmis inn í möguleika símanna, nota öppin sem þar er boðið upp á og svo framvegis.b Við erum ekki vön því að fikta og þreifa okkur áfram og viljum helst láta kenna okkur þetta lið fyrir lið.

Einn viðmælandinn sagðist ekki halda að eldra fólk ætti erfitt með nýjar hugmyndir og sagðist sjálfur hafa verið fastheldnari á ýmsar hugmyndir og skoðanir áður fyrr og ekki mikið fyrir að viðurkenna að hann hefði rangt fyrir sér.

Það get ég auðveldlega gert núna og finnst bara í fínu lagi. Held að slík viðhorfsbreyting fylgi einmitt lífsreynslunni og tilheyrandi auðmýkt – hátíðlega sagt. Svo er þetta með „nýjar hugmyndir“ … sumt sem kynnt er sem nýmæli finnst mér oft kunnuglegt úr öðru samhengi eða frá fyrri tíð. Gamlar hugmyndir á nýjum belgjum eða þannig.

Já, ungviðið er greinilega kaldara að prófa sig áfram og láta vaða, til dæmis í tölvubransanum. Ég vil byggja á því sem ég þykist kunna og hætti mér síður í tilraunastarfsemi með símann eða fartölvuna!

Annar viðmælandi benti á að all  flestir í kringum hann væru vel tölvulæsir og notuðu tölvupóst, ritvinnslu, myndaforrit og hljóðbækur og enn annar benti á að þetta væri allt misjafnt eftir mönnum.

Ég held að við séum mjög misjafnlega í stakk búin varðandi nýja tækni. Sumir – sem eldri eru- eiga auðvelt með þetta, hafa af því reynslu, en aðrir síður. Hins vegar er það í þessu eins og mörgu öðru að með aldrinum dregur úr okkar sveigjanleika- og það kemur niður hér eins og víðar. Á móti kemur að við höfum meiri tíma- og getum nýtt hann hér ef við kjósum.

„Við erum áreiðanlega vandlátari á nýjar hugmyndir og spyrjum frekar hvort við viljum tileinka okkur þær og hvers vegna. Hvort þær þjóni okkur“, sagði annar.

Það er staðreynd að við lærum á annan hátt en áður og góð leiðsögn verður mikilvægari en fyrr. En við getum áreiðanlega tileinkað okkur meira af nýjum hugmyndum en margir halda. Og einn þáttur í að halda góðri heilaheilsu er að taka áskorunum af þessu tagi. Það sama á við um nýja tækni eins og nýjar hugmyndir.

Hópurinn sem svaraði spurningum Lifðu núna um nýjar hugmyndir og nýja tækni: Atli Rúnar Halldórsson, Elín Siggeirsdóttir, Eyþór Elíasson, Margrét S. Björnsdóttir, Sylvía Guðmundsdóttir og Valgerður Magnúsdóttir.

 

 

Ritstjórn maí 29, 2018 06:54