Þúsundir eldri borgara í bágri stöðu

Inga Sæland

Síðastliðinn föstudag voru mikilvægar viðræður um hagsmunamál eldri borgara á Alþingi. Inga Sæland formaður Flokks fólksins hóf umræðuna og í máli hennar kom fram að 11.000 eldri borgarar hér á landi eru í neðstu þremur tekjuþrepunum og þar af 6.000 í sárri fátækt.

Hún beindi fyrirspurn til félagsmálaráðherra Guðmundar Inga Guðbrandssonar um hvað hafi verið gert til að koma til móts við þennan hóp og benti á að kjaragliðnun á launakjörum almannatrygginga sem næmi 71.000 kr. hafi orðið frá því rétt í kringum hrun. –  En kjaragliðnun er munurinn á lágmarkslaunum og óskertum greiðslum almannatrygginga –  Hún vildi að rædd yrðu 25.000 kr. skerðingarmörkin sem eru á lífeyrissjóðsgreiðslum eldri borgara en þau hafa ekki breyst í áratug. Inga nefndi einnig að enn væri ábótavant upplýsingagjöf til eldra fólks um rétt sinn og stöðu og embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks væri ekki í sjónmáli.

Guðmundur Ingi GuðbrandssonTilraunaverkefni um ráðgjafarþjónustu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra svaraði Ingu og benti á að settur hafi verið í gang starfshópur um gerð frumvarps um stofnun embættis hagsmunafulltrúa eldra fólks. Í starfshópnum voru meðal annars fulltrúar Alzheimersamtakanna og fulltrúar Landssambands eldri borgara. Guðmundur Ingi sagði að niðurstaða hópsins hafi verið að þar sem ekki lægju fyrir formlegar greiningar á því hvar skórinn kreppir helst varðandi ráðgjöf og upplýsingar til eldra fólks væri skynsamlegra að setja á fót tilraunaverkefni til tveggja til þriggja ára um sérstaka ráðgjafarþjónustu fyrir eldra fólk og safna þar gögnum frekar en að stofna til embættis hagsmunafulltrúa eldra fólks. Hann hafi fylgt þessum ráðleggingum og tilraunaverkefnið, Gott að eldast, væri komið í gang.

Umtalsverður árangur náðst segir félagsmálaráðherra

Félagsmálaráðherra taldi einnig að umtalsverður árangur hefði náðst í að bæta kjör eldra fólks á síðustu árum. Hann vitnaði í skýrslu forsætisráðherra um fátækt og áætlaðan samfélagslegan kostnað frá maí síðastliðnum en þar voru um 6% eldra fólks talin undir lágtekjumörkum árið 2020 en voru það tæp 19% 20 árum fyrr og í skýrlsunni sé kaupmáttur ráðstöfunartekna eldra fólks sagður hafa hækkað um 30% frá árinu 2013. Hann sagði einnig: „Í úttektinni Hagir eldra borgara frá árinu 2021 kemur síðan fram að hlutfall þeirra sem oft hafa fjárhagsáhyggjur í hópi eldra fólks hefur farið úr 12% í 5% á síðustu árum.“

Í máli ráðherra kom fram að gripið hafi verið til ýmissa aðgerða til að bæta kjör eldra fólks, sveigjanleiki verið aukinn í töku lífeyris og til atvinnuþátttöku, og breyting gerð á greiðslukerfi ellilífeyris árið 2017 sem fólu í sér verulegar kjarabætur fyrir eldra fólk, einkum það sem er í lægri tekjutíundunum. Árið 2020 hafi verið sett lög um félagslegan viðbótarstuðning til að tryggja framfærslu eldra fólks sem hefur takmörkuð réttindi í almannatryggingum.

Inga Sæland steig aftur í ræðustól síðar og svaraði ráðherra og benti á að þingheimur allur hafi samþykkti embætti hagsmunafulltrúa aldraðra þann 13. júní 2021. Starfshópur ráðherra hafi því tekið fram fyrir hendur löggjafans með ráðleggingum sínum. Að mati þingmannsins er eingöngu gott að eldast hér á landi fyrir efnameira fólk og að fulltrúar eldri borgara hafi talið verkefnið Gott eldast viðbót við embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks en ekki koma í stað þess þess.

Ekki meiningin að ríkið yrði stóri lífeyrisþeginn

Fleiri þingmenn tóku til máls og Jóhann Páll Jóhannsson frá Samfylkingu hafði meðal annars þetta að segja. „Þegar starfstengdu lífeyrissjóðunum var komið á fót í kjölfar kjaraviðræðna 1969 var það ekki útgangspunkturinn að greiðslur úr lífeyrissjóðum yrðu dregnar svo rækilega frá greiðslum almannatrygginga að ríkið sjálft yrði í rauninni stóri lífeyrisþegi lífeyrissjóðanna.“

Berglind Svava Svavarsdóttir Sjálfstæðisflokki gerði hins vegar að umtalsefni skertum aðgangi eldri borgara af landsbyggðinni að sérfræðiþjónustu og taldi brýnt að bæta úr með meðal annars fjarheilbrigðisþjónustu.

Líneik Anna Sævarsdóttir Framsóknarflokki tók undir orð félagsmálaráðherra um batnandi hag eldri borgara og ítrekaði að hlutfall þeirra sem væru undir lágtekjumörkum hafi lækkað og búið væri að tvöfalda frítekjumörkin. Þá hefðu breytingar á greiðslukerfi lífeyris komið til móts við þann hóp sem verst hefði verið settur vegna langrar búsetu erlendis.

Landspítalinn ekki hugsaður sem hjúkrunarheimili

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn gerði vanda heilbrigðiskerfisins að umtalsefni og sagði að Landspítalinn væri ekki hugsaður til að vera hjúkrunarheimili og elsta kynslóðin ætti betra skilið en að staða hjúkrunarrýma væri eins og hún er.

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingar kom inn á vasapeningafyrirkomulagið sem felur í sér að íbúar á dvalar- og hjúkrunarheimilum séu að hluta til sviptir fjárráðum og þeim skammtaðir vasapeningar í stað þess að þeir greiði sjálfir eðlilegan hluta í húsaleigu og öðrum kostnaði heimilishalds á hjúkrunarheimilum. Fjárhagslegt sjálfstæði eldra fólks skerðist verulega við flutning á hjúkrunarheimili og Landsamband eldri borgara barist fyrir því að þetta verði afnumið. Einnig sé ekki ljóst í hvað fjármunir íbúa fari.

Diljá Mist Einarsdóttir Sjálfstæðisflokki taldi að margt gott hafi áunnist í málefnum eldra fólks á undanförnum árum, en taldi að auka ætti svigrúm eldra fólks til atvinnuþátttöku án umtalsverðra skerðinga og halda áfram að draga úr skerðingu ellilífeyris vegna tekna. Starfslok ættu einnig að verða sveigjanlegri.

Þá verða þau gengin til feðra sinna

Inga Sæland dró saman umræðuna í lokin og benti á að ástandið væri enn slæmt og meðal lokaorða þingmannsins voru þessi:

„Staðreyndin er líka sú að það eru hátt í 100 eldri borgarar sem eru fastir inni á Landspítala af því að það er ekkert sem grípur þau þrátt fyrir að þau séu tilbúin til útskriftar. Þetta er dýrasta legurýmaúrræði sem til er í landinu og þannig hefur þessi ríkisstjórn kosið það að spara aurinn og fleygja krónunni. Það er líka staðreynd svo ekki verður um villst að þrátt fyrir góðar yfirlýsingar um hitt og þetta þá er staðan bág hjá þúsundum eldri borgara. Staðreyndin er sú að áður en þúsundir þeirra hafa fengið að njóta þess að átta sig á því sem hæstv. ráðherra hefur verið að boða hér, að hér sé gott að eldast, þá verða þau gengin til feðra sinna. Það þolir enga bið að taka á málaflokki þar sem þúsundum er ekki bara haldið í fátækt heldur í félagslegri einangrun og vanlíðan.“

 

 

Ritstjórn nóvember 1, 2023 15:20