Tengdar greinar

Lofa eldra fólki gulli og grænum skógum

Lifðu núna sendi öllum stjórnmálaflokkum sem bjóða fram í öllum kjördæmum tvær spurningar í tölvupósti. Hin fyrri var: Hvað ætlar þinn flokkur að gera fyrir eldri borgara að loknum kosningum? Síðari spurningin var: Hvernig ætlar flokkurinn að fjármagna aðgerðirnar.  Hér eru svör þeirra flokka sem svöruðu spurningum Lifðu núna. Svör flokkanna eru ekki í neinni ákveðinni röð, heldur birtast í þeirri röð sem flokkarnir sendu þau inn. Svör bárust fá öllum flokkunum.

Framsóknarflokkurinn

Framsókn vill stórátak í byggingu á þjónustuíbúðum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Biðlistar eru langir og munu lengjast verði ekki gripið til aðgerða. Framsókn vill leita eftir samstarfi við lífeyrissjóðina um að fjárfesta í 300 nýjum íbúðum á ári fyrir aldraða næstu árin. Við viljum fjárfesta fyrir minnst 10 milljarða árlega í hagkvæmum þjónustu- og hjúkrunaríbúðum fyrir aldraða í þeim sveitarfélögum sem þörfin er brýnust. Lífeyrissjóðirnir þurfa fleiri fjárfestingavalkosti og gæti þessi leið verið samfélagslega hagkvæm. Framsókn vill afnema frítekjumarkið af atvinnutekjum. Margir þeir sem komnir eru á efri ár og eiga rétt á lífeyri frá almannatryggingum vilja halda áfram að vinna. Fólk á rétt á að hafa val. Þeir sem vilja og geta unnið, eiga að fá tækifæri til þess. Fátt er eins ömurlegt að langa til að halda áfram á atvinnumarkaðnum en upplifa neikvæða umbun í formi skerðingar á lífeyri. Atvinnuþátttaka aldraða leiðir til betri heilsu og heilbrigðara samfélags. Tannheilsu aldraðra hefur hrakað m.a. vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki staðið við 75% niðurgreiðslu kostnaðar. Framsókn vill setja strax einn milljarð í auknar niðurgreiðslur.  Framsókn telur mikilvægt að afgangur af ríkisrekstri renni ekki eingöngu til lækkunar á skuldum.

Samfylkingin

Fólk á ekki að þurfa að kvíða ellinni. Við viljum að eldra fólki verði sýndur meiri sómi – því verði gert fært að vinna lengur ef það vill og getur og að því verði tryggð mannsæmandi eftirlaun. Samfylkingin leggur áherslu á að boðið verði upp á sveigjanleg starfslok og störf fyrir eldri borgara. Við viljum fjórfalda frítekjumarkið strax til þess að þeir sem hafa möguleika á og vilja vera virkir áfram á atvinnumarkaði, geti verið það. Við viljum að eftirlaun í landinu verði þau sömu og lágmarkslaun og fylgi þróun launa. Við viljum að ellilífeyrir, þær bætur sem ná til allra eldri borgara, hækki í takt við þróun launa. Síðustu tvær ríkisstjórnir sem Sjálfstæðisflokkur, Framsókn, Viðreisn og Björt framtíð hafa átt sæti í hafa hækkað heimilisuppbótina, sem nær bara til þeirra sem búa einir, hlutfallslega meira en ellilífeyrinn til þess að geta sagst hafa hækkað bætur í takt við lágmarkslaun. Við viljum hverfa frá þessari þróun og tryggja að allir njóti góðs af hækkun lágmarkslauna, líka þeir sem eru í sambúð. Við viljum huga betur að húsnæðismálum hjá eldri borgurum og horfum til nýrra valkosta. Við viljum að í boði verða litlar ódýrar íbúðir til leigu eða kaups, svipað og boðið er upp á fyrir námsmenn. Við viljum að heilbrigðisþjónusta við aldraða verði bætt. Við stefnum á að byggja upp öfluga, gjaldfrálsa opinbera heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð aldri og búsetu. Við ætlum að efla heimahjúkrun og endurhæfingu aldraðra til muna og viljum að þessi þjónusta verði samþætt til að auka val, bæta gæði og minnka þörfina fyrir ný hjúkrunarrými. Hins vegar þurfum við að byggja ný hjúkrunarheimili og vinna að endurbótum í samræmi við nýja áætlun til að mæta brýnni þörf. Samfylkingin vill að unnið verði að styrkingu íslenska lífeyriskerfisins enda byggir það á sjóðsöfnun og samtryggingu. Sjóðirnir þurfa að verða burðugir til að taka við stærstum hluta lífeyrisgreiðslna til ellilífeyrisþega. Uns lífeyriskerfið nær fullum þroska munu almannatryggingar gegna mikilvægu hlutverki í að tryggja ásættanlega afkomu lífeyrisþega. Þessar aðgerðir sem við erum að boða eru kostnaðarsamar en á sama tíma munu þær gagnast mörgum og eru í raun réttlætismál.  Samfylkingin ætlar sér ekki að hækka skatta á almenning heldur færa skattbyrði til þeirra sem hana geta borið og tryggja að allir landsmenn njóti arðs af auðlindum landsins. Þar þarf að horfa til raforkufyrirtækja, sjávarútvegsfyrirtækja og þeirra ferðamanna sem hingað koma til að njóta náttúrunnar. Þannig tryggjum við að allir njóti góðs af þeim efnahagslegum uppgangi sem nú er. Við búum í samfélagi þar sem hinir ríku verða sífellt ríkari og 5% ríkasta fólks landsins á jafn mikið af eignum og hin 95% landsmanna. Þess vegna er það réttlætismál að búa betur að fólkinu sem fór með Íslandi úr fátækt í að vera eitt ríkasta land í heimi.

Björt framtíð 

Björt framtíð leggur ríka áherslu á að elli- og örorkulífeyrir dugi til framfærslu. Uppbygging heimaþjónustu er eitt af baráttumálum Bjartrar framtíðar og er einn lykilþátturinn í því að bæta lífsgæði aldraðra og draga úr þörf einstaklinganna fyrir dýrari og flóknari úrræði. Samhliða þarf að tryggja aðgengi að hjúkrunarrýmum sem dregur úr nauðsyn þess að aldraðir dvelji á bráðasjúkrahúsum með tilheyrandi óhagræði fyrir einstaklingana sjálfa og kerfið í heild. Lífeyriskerfið þarf einnig að einfalda til muna, koma á samræmi milli opinbera og almenna kerfisins og skoða samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða með það að markmiði að fólk njóti betur framlaga sinna til hvors tveggja. Allir einstaklingar, hvort sem þeir glíma við líkamlegar, félagslegar eða andlegar hindranir, eigi möguleika á sjálfstæðu lífi, með reisn og fái til þess aðstoð ef þarf.  Björt framtíð leggur áherslu á að hafist verði handa strax í vetur við að gera úttekt á aðgengi landsmanna að þjónustu, meðal annars með það fyrir augum að jafna kostnað íbúa við að njóta lögbundinnar grunnþjónustu. Við viljum forgangsráða í þágu þeirra sem setið hafa eftir, sem hópur í samfélaginu, og fjármagna nauðsynlegar endurbætur m.a. með því að setja á sanngjarnt endurgjald fyrir fiskveiðiauðlindina.Eldri borgarar geti notið þjónustu í því byggðalagi sem þeir kjósa og þeim bjóðist fjölbreyttir og hagkvæmir búsetukostir. Í tíð Óttarrs Proppé í heilbrigðisráðuneytinu var sérstök áhersla lögð á aldraða, þ.e. hjúkrunarrými, dagdvöl aldraðra og sérhæfða heimahjúkrun með sérstakri áherslu á endurhæfingu. Ríkið og sveitarfélög verða að finna leið til þess að fólk geti búið þar sem það kýs á efri árum.

Píratar

Píratar ætla að bæta kjör einstaklinga og þá sérstaklega þeirra sem eru í lægstu tekjuhópunum. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun en á árunum 1998 til 2016 hefur heildarskattbyrði einstaklinga aukist um 21 prósentustig. Það hefur bein áhrif til lækkunar á ráðstöfunartekjum fjölskyldna. Áhrifaríkasta leiðin til að bæta kjör allra er að minnka skattaálögur á almenning með hækkun persónuafsláttar. Píratar vilja hækka persónuafslátt strax á næsta ári um 7.000 kr. á mánuði. Takmarkið er að ná fram hækkun á afslættinum sem nemur 26.000 kr á kjörtímabilinu þannig að hann fylgi almennri launaþróun, og verður þá við lok kjörtímabilsins tæpar 78 þúsund krónur. Ríkið á ekki að segja eldri borgurum hvar, hvort og hvernig þeir eigi að vinna, lifa eða njóta í ellinni. Píratar ætla að afnema tekjuskerðingar eldri borgara. Aldraðir eiga að geta unnið eftir hentugleika án þess að missa áunnin réttindi. Píratar vilja einnig hækka lífeyri eldri borgara en það verður gert í skrefum yfir lengra tímabil. Tekjuafgangur ríkissjóðs verður lækkaður úr 1,6% í 0,5% af VLF. Með því að lækka kröfu um afgang til skuldaniðurgreiðslu má auka ráðstöfunarfé ríkissjóðs og full ástæða er til að nýta jákvæða afkomu ríkissjóðs til að styrkja samneyslu og byggja upp innviði. Þá verður fjármagnstekjuskattur hækkaður í 30%. Þessi aðgerð mun auka tekjur ríkissjóðs um 10-14 milljarða. Þá viljum við leggja bann við þunnri eiginfjármögnun, þannig að íslensk fyrirtæki með erlend móðurfélög geti ekki skotið undan skattskyldu sinni með einfaldri tilfærslu á skuldum.

Vinstrihreyfingin grænt framboð 

Vinstrihreyfingin grænt framboð vill vinna að félagslegu réttlæti og reka öfluga velferðarstefnu sem tryggir rétt allra til mannsæmandi lífskjara og mannlegrar reisnar. Tryggja þarf þátttöku eldra fólks á öllum sviðum samfélagsins. Eldra fólk er auðlind og mikilvægt að það fái notið sín í leik og starfi eins lengi og hugurinn stendur til og geti lifað með reisn þegar og ef heilsan bilar. Þeir sem eru háðir velferðarkerfinu um afkomu sína eiga að hafa möguleika á að lifa innihaldsríku lífi og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Eins og í heilbrigðis- og menntamálum leggur VG áherslu á að rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila eigi best heima á hendi hins opinbera eða sjálfseignarstofnana eða félagasamtaka sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Gera þarf átak í uppbyggingu hjúkrunarrýma og gera áætlun til 10 ára um að byggja þannig upp að ekki séu biðlistar eftir sjálfsagðri þjónustu. Jafnframt þarf að gera sérstakt átak í uppbyggingu hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu. Ennfremur þarf að setja fjármagn í að byggja upp öldrunargeðdeild sem hefur staðið til í meira en 10 ár. Hækka frítekjumark vegna atvinnutekna og gera fólki þannig kleyft að bæta hag sinn. Samfélagslaun eldra fólks eiga einnig að fylgja lágmarkslaunum í samfélaginu. Vinstri græn vilja tryggja eldra fólki réttinn til sveigjanlegri starfsloka.  Við viljum að gert sé átak í búsetumálum eldra fólks, ekki bara m.t.t. hjúkrunarrýma heldur einnig þjónustuíbúða innan félagslega kerfisins á viðráðanlegu verði fyrir eldra fólk. Nýta þarf hluta afgangs ríkisjóðs til að fjármagna framkvæmdir innan heilbrigðiskerfisins og til uppbyggingar hjúkrunarheimila. Þá viljum við að komið verði á samstarfi sveitarfélaga, ríkis og lífeyrisjóða við fjármögnun búsetuverkefna fyrir eldra fólk. Við viljum sækja peninga í auðlindagjald og nýjan auðlegðarskatt þannig að íbúðarhúsnæði verði undanþegið. Í góðu árferði eins og nú, er tækifæri til að vinna að innviðauppbyggingu. Vinstrihreyfingin grænt framboð vill fjármagna tillögur sínar með því að dreifa skattbyrðinni jafnar, og án þess að hækka skatta og skattbyrði almennings. Sjúklingaskattar og komugjöld á heilbrigðisstofnanir verði afnumin í skrefum og stefnt að gjaldfrelsi í heilbrigðisþjónustu. Ekki kemur til álita að leggja sérstaka eignaskatta á eldra fólk sem býr í skuldlausu eigin húsnæði.

Sjálfstæðisflokkurinn 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tryggt eldri borgurum mestu kjarabætur í áratugi með gagngerum kerfisbreytingum á almannatryggingakerfinu. Áfram verður lögð áhersla á að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði eldri borgara. Lífeyriskerfi almannatrygginga hefur verið einfaldað þannig að nú er einn flokkur ellilífeyris í stað þriggja áður, auk heimilisuppbótar. Það er einfaldara og gangsærra, sanngjarnara og skiljanlegra. Lágmarkslífeyrir þeirra sem búa einir verður 300 þúsund krónur frá og með 1. janúar 2018. „Króna á móti krónu“ skerðingin var afnumin og séreignarsparnaður skerðir ekki greiðslur í almannatryggingum líkt og í eldra kerfinu. Við ætlum að gera enn betur og hækka frítekjumark atvinnutekna strax í 100 þúsund krónur á mánuði. Með breyttum lögum hefur sveigjanleiki til töku lífeyris verið aukinn og kostum einstaklinga varðandi starfslok fjölgað. Nú er hægt að hefja töku ellilífeyris frá 65 ára aldri og einnig fresta til 80 ára aldurs. Frá 1. janúar 2018 verður hægt að taka hálfan lífeyri hjá TR og hálfan lífeyri hjá lífeyrissjóðum ásamt atvinnuþátttöku. Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að eldri borgarar geti búið sjálfstæðu lífi á eigin heimili sem lengst og að aldraðir á dvalar- og hjúkrunarheimilum haldi fjárhagslegu sjálfstæði sínu. Við ætlum að styrkja heimaþjónustuna og gera sérstakt átak í fjölgun hjúkrunarheimila. Þrír milljarðar á ári munu renna úr Þjóðarsjóði í það átak á næstu árum. Heimaþjónusta taki mið af aldri og þörf og verði veitt samkvæmt viðurkenndu þjónustumati.

Miðflokkurinn

Við ætlum að tryggja að atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Það ýtir undir verðmætasköpun og er jákvætt fyrir eldri borgara og allt samfélagið. Það er mikilvægt að samfélagið fari ekki á mis við þekkingu og reynslu þeirra sem mest hafa af henni.  Við ætlum að tryggja að lágmarkstekjur aldraðra og öryrkja fylgi lágmarkslaunum á vinnumarkaði og að persónuafsláttur fylgi verðlagsþróun. Lyfseðilsskyld lyf verði undanþegin virðisaukaskatti og heimahjúkrun verði aukin til að gera fólki kleift að búa lengur á heimilum sínum. Við ætlum að byggja nýjan Landspítala á nýjum og beri stað, færa heilbrigðisþjónustuna nær íbúum, leysa aðflæðisvandann, fjölga hjúkrunarrýmum og gera átak í byggingu hjúkrunarheimila og tengja þau betur við sterkari þjónustu heilsugæslunnar. Við bjóðum öllum sem áhuga hafa að móta framtíðna með okkur og viljum hvetja eldri borgara til að gefa sig fram og taka þátt í málefnastarfi okkar.  Við ætlum að nýta eigið fé bakanna með því að greiða umfram eigið fé úr þeim í ríkissjóð og nýta það í verkefni sem geta gagnast öllum og þar á meðal öldruðum.

Flokkur fólksins

Við ætlum að afnema frítekjumark á atvinnutekjur svo þeir eldri borgarar sem geta og vilja afla  sér aukinna tekna geti gert það án skerðinga á lífeyrisgreiðslum úr almannatryggingum. Við ætlum að hækka persónufrádrátt í þágu hinna lægst launuðu með því að taka upp stiglækkandi persónufrádrátt og auka þannig ráðstöfunartekjur þeirra sem lægst hafa launin. Við ætlum að bæta úr í heilbrigðismálum með áherslu á hjúkrunarheimili aldraðra. Við ætlum að gera grunnheilbrigðisþjónustu gjaldfrjálsa svo fólk geti leitað almennrar þjónustu án þess að vera rukkað um gjald í hvert skipti.  Lækkun frítekjumarks kostar tvo milljarða samkvæmt mati fjármálaráðuneytis. Þetta er ekki veruleg fjárhæð í ríkisbúskapnum enda teljum við þetta skila sér að mestu leyti aftur í ríkissjóð í formi tekjuskatts. Lækkun persónuafsláttar er tilfærsla innan gildandi kerfis, við viljum að fólk njóti sömu kjara og 1998 svo við hjótum að hafa efni á því, við erum að tala um ríflega eitthundrað þúsund krónum hærri ráðstöfunartekjur en fólk nýtur nú. Þetta er tilfærsla sem ætti ekki að kosta umtalsverða fjármuni. Gjaldfrjáls grunnheilbrigðisþjónusta er talin kosta um sjö milljarða, þetta er hægt að fá með hagræðingu og breyttri forgangsröðun. Við leggjum áherslu á ábyrga fjármálastjórn og lofum ekki umfram efni. Að auki leggjum við til að lífeyriskerfinu sé breytt, inngreiðsla í sjóðina  sé skattlögð, en munur á inngreiðslur og útgreiðslu er um 40 milljarðar, sem verði nýttar til að fjármagna viðfangsefnin. Sömuleiðis verði greiðslur lífeyrissjóða til TR aflagðar, þannig að eldri borgarar njóti ævisparnaðar síns án skerðinga.

Viðreisn  

Viðreisn hefur lagt áherslu á að afnema svokallað frítekjumark þannig að eldri borgarar hafi frelsi til þess að halda áfram atvinnuþátttöku ef þeir svo óska. Einstaklingar eiga að geta nýtt skarfsorku sína og vilja án þess til komi skerðing á lífeyrisgreiðslum. Viðreisn leggur til að afnema frítekjumarkið alfarið í einu skrefi. Þar fyrir utan er það stefna Viðreisnar að lífeyrir skuli að lágmarki vera samsvarandi lágmarkslaunum eins og þau eru ákveðin í kjarasamningum. Viðreisn hefur einnig lagt áherslu á uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða til að mæta því plássleysi sem er í kerfinu í dag. Ekki þarf þó síður að huga að styrkingu heimaþjónustu til að gera öldruðum kleift að búa heima ef þeir svo kjósa.  Viðreisn hefur lagt fram ítarlega fjármálaáætlun um hvernig eigi að fjármagna samneysluna næstu fjögur ár, en framangreindar aðgerðir falla vissulega þar undir. Þar er mesta áherslan lögð á aukningu framlaga til velferðarmála. Tekjuöflun ríkisins samkvæmt fjármálaáætlun er blanda af skatttekjum, bæði almennir skattar og svo nefndir grænir skattar, auk tekna af auðlindum s.s. afnot af sjávarauðlindinni og raforka. Hins vegar telur Viðreisn að allur einskiptishagnaður ríkissjóðs, s.s. vegna sölu eigna eigi að renna til þess að lækka skuldir ríkissjóðs eða eftir atvikum í varasjóð sem þarf að vera fyrir hendi ef áföll dynja á. Lækkun skulda ríkissjóðs hefur aftur í för með sér lægri vaxtakosnað ríkisins sem eykur svigrúm til útgjalda til velferðarmála.

Ritstjórn október 26, 2017 11:39