Þvagleki -feimnismál sem fáir ræða

Magnús Jóhannsson.

„Þvagleki er ekki vinsælt umræðuefni fólks og engin ástæða til að hann verði það. Þvagleki má hins vegar ekki vera slíkt feimnismál að það hindri fjölda fólks í að leita til læknis þar sem flestir geta fengið verulega bót,“ segir Magnús Jóhannsson læknir og fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands.

Talið er að ein kona af hverjum fjórum sé með þvagleka og einn karl af hverjum tíu. Það eru því þúsundir karla og kvenna sem þjást af þessum kvilla á hverjum tíma.

„Þetta getur orðið svo slæmt að fólk neiti að viðurkenna, fyrir sjálfum sér og öðrum, að eitthvað sé að en einangrist félagslega af ótta við að aðrir finni þvaglyktina. Sumir virðast halda að þetta sé eitthvað sem fylgi barneignum og elli og ekkert sé við því að gera. Þeir sem ekki leita til læknis eftir aðstoð, fá hana eðlilega ekki. Staðreyndin er hins vegar sú að í langflestum tilfellum er hægt að lækna þvagleka að mestu eða öllu leyti með tiltölulega einföldum aðferðum og ef þær duga ekki til er hægt að gera skurðaðgerð, segir Magnús.

Magnús segir að til séu nokkrar gerðir af þvagleka. Áreynsluþvagleki er algengastur. Hann getur meðal annars orsakast af því að grindarbotnsvöðvar hafa skaðast í kjölfar fæðinga en karlar geta líka fengið þetta með aldrinum. Viðnámið í þvagrásinni minnkar og þvag lekur við áreynslu. Konur geta misst þvag við líkamsrækt, við að hósta, hlæja eða hnerra.

Annar algengur þvagleki er bráðaþvagleki sem orsakast af ósjálfráðum samdráttum í þvagblöðurnni. Þegar allt er eðliegt er þvagblöðruvöðvinn slakur á meðan þvagblaðran er að fyllast. Þegar blaðran er full fara taugboð til heilans um tími sé kominn til að tæma hana, fólki verður mál. En þegar blaðran er ofvirkt gefst oft mjög stuttur tími til að komast á klósett áður blaðran tæmist og fólk missir þvag. Svo eru margir sem þjást af hvoru tveggja.

Það er hins vegar tiltölulega auðvelt að laga þvaglega. Magnús segir að besta ráðið við þvagleka hjá konum á öllum aldri séu grindarbotnsæfingar. „Slíkar æfingar byggjast á því að herpa saman vöðva grindarbotnsins mörgum sinnum á dag en þá styrkjast vöðvarnir smám saman og veita betri stuðning fyrir þvagblöðru og þvagrás. Margir geta fundið hvaða vöðva á að herpa t.d. með því að finna hvað þarf að gera til að stöðva þvagbununa í miðju kafi, en sumir þurfa nánari leiðbeiningar eða aðstoð. Auðvelt er fyrir lækni að finna hvort verið sé að þjálfa rétta vöðva. Algengt er að mælt sé með því að vöðvar grindarbotnsins séu herptir saman í 5-10 sekúndur í senn, nokkrum sinnum, og að þetta sé gert einu sinni á klukkustund allan daginn. Búast má við árangri eftir 1-2 vikur en fullum árangri er oft ekki náð fyrr en eftir nokkra mánuði. Þessar æfingar má gera hvar sem er því nærstaddir verða þess ekki varir. Yfirleitt er mjög góður árangur af slíkum æfingum. Sumir eru með truflun á starfsemi þvagblöðrunnar og þurfa á blöðruþjálfun að halda. Slík blöðruþjálfun felur m.a. í sér fræðslu og reglulegar salernisferðir. Árangur blöðruþjálfunar kemur oft í ljós á fyrstu vikunni og hafi enginn árangur orðið eftir 2-3 vikur er venjulega tilgangslaust að halda áfram. Algengt er að slappur grindarbotn og truflun á blöðrustarfsemi fari saman og vilja sumir læknar þess vegna beita saman grindarbotnsþjálfun og blöðruþjálfun. Til eru ýmis konar hjálpartæki fyrir grindarbotnsþjálfun, m.a. tæki til að styrkja vöðvana með rafertingu, og geta slík tæki verið gagnleg fyrir suma. Meðferð með hormónum (östrógenhormónum) eftir tíðahvörf náði talsverðum vinsældum á árum áður og eitt af því jákvæða er að þessi hormón geta minnkað eða jafnvel læknað þvagleka. Notkun þessara hormóna er hins vegar lítil nú á tímum vegna ótta við langtíma aukaverkanir. Einnig eru til annars konar lyf sem auka rými þvagblöðrunnar og styrkja vöðvana umhverfis blöðrubotninn. Ef þessi ráð duga ekki má gera skurðaðgerð og er um nokkrar mismunandi aðgerðir að ræða og þarf að velja þá aðgerð sem hentar hverju sinni.“

Ritstjórn október 24, 2017 09:11