Æfingar til að koma sér í gang á morgnana

Regluleg líkamsrækt er öruggasta og besta leiðin til að tryggja hreysti og vellíðan. Margir byrja daginn á að gera nokkrar auðveldar en áhrifaríkar æfingar. Þær koma bæði líkama og huga í gang og skapa meiri orku og úthald yfir daginn. Gefðu þér tíu mínútur til að fara í gegnum þær á hverjum morgni og þú finnur mjög fljótt muninn.

Upphitun

Kettir og hundar byrja ævinlega á að teygja sig þegar þeir standa upp eftir notalegan blund. Það má margt læra af dýrum og með því að teygja á fótum, handleggjum og baki um leið og menn rísa upp úr rúminu ná þeir að hita líkamann, liðka og koma honum í gang. Síðan má gera 15-20 hnélyftur, nokkur sprellikarlahopp og hlaupa á staðnum. Þegar blóðrásin er komin í gang má snúa sér að næstu æfingu.

 

Tréð

Jógastaðan tréð æfir jafnvægi, vöðvastyrk og einbeitingu. Lyftu fyrst öðrum fæti og leggðu ilina á lærið, stattu þannig í 30-60 sekúndur allt eftir hvað þú ert fær um. Gerðu það sama hinum megin og reyndu að auka tímann um nokkrar sekúndur á hverjum degi.

Hundurinn

Jógastaðan hundurinn er einstaklega góð til að auka blóðstreymi til heilans og hita hann upp fyrir átök dagsins. Leggstu á magann á dýnu á gólfinu og lyftu síðan upp rassinum og reistu þig hægt og hægt upp þar til bæði fætur og hendur eru fullkomlega bein. Haltu hryggnum beinum og höfuðið í beinni línu með þannig að nefið vísi í átt að fótunum. Haltu þessari stöðu í 30-60 sekúndur og reyndu að bæta tímann á hverjum degi.

Dauð padda

Jóga staðan dauð padda felst í að leggjast á bakið á dýnu í gólfinu lyfta fótunum og beygja hnén í níutíu gráður og taka síðan með höndunum um iljarnar. Slakaðu alveg á og einbeitu þér að því að finna alla hryggjarliði snerta dýnuna. Þetta er ein besta æfing sem hægt er að gera ef menn eru viðkvæmir í baki eða finna fyrir stirðleika í mjóbaki. Haltu stöðunni í 30-60 sekúndur.

Hnébeygjur

Í lokin er svo gott að gera 15-20 hnébeygjur, eins djúpar og hægt er. Stattu með fætur í sundur um það bil 30 cm bil á milli. Haltu handleggjunum beinum fram og beygðu þig síðan i hnjánum eins og þú sért að fara að setjast á stól. Rassinum er skotið út en bakið er beint og höfuðið í beinni línu frá hryggnum. Spenntu kviðvöðva til að halda við bakið og styrkja hreyfingua. Hnébeygjur auka liðleika og mýkja vöðvana.

Ritstjórn janúar 24, 2024 07:00