Trump norðursins

Ólafur Sigurðsson

Ólafur Sigurðsson

Ólafur Sigurðsson varafréttastjóri skrifar

 

Aumt land og þjóð

Mexico er ömurlegt land segir Trump. Spillt stjórnvöld og vesæl þjóð undir hælnum á eiturlyfjakóngum og öðrum glæpamönnum.

Næst er sjónarhornið þrengra: Innflytjendur, sérstaklega frá Mexico eru stórhættulegur óþjóðalýður, nauðgarar og þjófar.

Loks draga í land, með ósannfærandi hætti.

Þetta eru siðir Donalds Trump, sem er í framboði til forseta Bandaríkjanna.

Aum ríkisstjórn pissar á sig

Ríkisstjórn Íslands er léleg og ómerkileg segir Kári og um Sigmund og Bjarna “…það voru ekki bara kröfuhafarnir sem glötuðu allri virðingu fyrir þeim þegar buxurnar þeirra fóru að blotna heldur hið alþjóðlega samfélag allt og ekki síst íslensk þjóð.” Og hananú.

Næst er sjónarhornið þrengra: Fúkyrði um forsætisráðherra í Reykjavík Grapevine. Þau fá umsvifalaust almenna útbreiðsu eins og tíðkast um fúkyrði og illmælgi.

Loks dregið í land, með ósannfærandi afsökunarbeiðni þættinum í Vikulokin á Rás eitt í Ríkisútvarpinu 6. febrúar. Skammast sín ekki fyrir ummælin, en þykir þetta “…fyrst og fremst leiðinlegt “.

Þetta eru siðir Kára Stefánsonar, sem segist ekki vera í framboði til forseta Íslands.

Þingmenn eiga að hlýða, eða…!

Vegna slæms hjartalags nokkurra einstaklinga í ríkisstjórn og þingnefndum skrifar Kári 13. desember 2015: “Þess vegna vil ég láta fjárlaganefnd vita að ef hún breytir ekki frumvarpinu á þann veg að mun meira fari til Landspítalans munum við nokkrir félagar safna 100.000 undirskriftum undir plagg sem hvetur landsmenn til þess að kjósa aldrei aftur þá stjórnmálaflokka sem standa að þessari ríkisstjórn vegna þess kulda og afskiptaleysis, sem hún sýnir sjúkum og meiddum í okkar samfélagi.” Þá vitum við hvað við eigum að kjósa.

Vesæl þjóð

“Söfnunin verður létt verk og löðurmannlegt. Þjóðinni ofbýður.” Sagði Kári í sömu grein.

Í vikulokunum 6. febrúar kom í ljós að þjóðin var að bregðast honum. Ekki höfðu nema innan við 60 þúsund skrifað undir. Þjóðinni þætti þetta “…ekki nægilega brýnt mál til að taka það skref að reyna að hafa áhrif á forgangsröðun stjórnvalda.” Hvað er eiginlega að þessari þjóð? En Kári erumburðarlyndur. Nú ætlar hann að leyfa þjóðinni að komast upp með 75 þúsund undirskriftir.

Til varnar heilbrigðisstarfsfólki.

Á undanförnum árum hef ég þurft á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda, svo sem með uppskurði á síðasta ári og legu á sjúkrahúsi í mánuð. Mín reynsla af þessu er í öllum megin atriðum góð. Margt má vafalaust betur fara og endurnýjun þekkingar, tækja og húsa er viðvarandi verkefni. Eftir að ég lá á Landspítalanum í mánuð rakst ég á grein eftir lækni, skrifaða skömmu áður, þar sem segir “…að spítalinn fór fyrir löngu fram af þessu hengiflugi en svo myndlíkingunni sé haldið áfram þá blasir núna við næsta hrun niður í svarta hyldýpisgjá, sem gæti reynst ómögulegt að komast upp úr.”

Guði sé lof að ég las þetta ekki áður en ég var lagður inn.

Ég finn til einmanakenndar þegar ég reyni að verja heilbrigðiskerfið, ekki síst vegna þess hversu illa fólk í heilbrigðisstéttum bregst við því. Mér finnst nauðsynlegt að hætta bölsýnisrausi og muna það hve margt er vel gert og hvetja til að bæta það sem á vantar.

 

 

Ólafur Sigurðsson febrúar 11, 2016 11:51