Hvað skiptir mestu máli í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?

Ólafur Sigurðsson

Ólafur Sigurðsson varafréttastjóri skrifar

“Mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum mynda þar sterkan grunn. …Ríkisstjórnin mun í öllum störfum sínum hafa í heiðri góða stjórnarhætti og gangnsæja stjórnsýslu.” Þetta segir í Inngangi, lengsta kafla yfirlýsingarinnar. Hann er 26 línur í útprentun frá Stjórnarráði Íslands. Ef ríkisstjórnin gæti gert allt þetta, þyrfti ekki að segja meira.  En forystumenn flokkanna þriggja skrifuðu átta blaðsíður í viðbót og prófessor í Háskólanum segir að þetta sé næst lengsta stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar frá stofnun lýðveldisins.

Er það lengsta mikilvægast?

 “Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að öll skólastig verði efld.” Þetta eru vissulega góðar fréttir, sem koma fram í næst lengsta kaflanum af tuttugu og einum.  Hann er 25 línur og fjallar um Menntamál. Menningarmál eru strax á eftir í sextán línum. Þar á samkeppnissjóður  (hvað er það) að gegna auknu hlutverki á sviði skapandi greina, svo dæmi sé nefnt.

Minnsta umfjöllun

 Ekki er hægt að fullyrða að ríkisstjórnin meti málaflokka eftir því hvað langa umfjöllun þeir fá.  Það er þó athyglisvert að þrír kaflar fá aðeins fimm lína rúm.  Það er Ferðaþjónusta, sem  nú er sagt að sé jafnvel mikilvægasti atvinnuvegur landsmanna. Þá Framtíð bankanna, en margir telja að breytinga sé þörf í þeim málaflokki.  Þar segir að “…verði stefnt að því að almenningur geti fengið tiltekinn eignarhlut afhentan endurgjaldslaust”.  Vill einhver veðja við mig um hvort úr því verður?  Loks er það Nýsköpun og þróun og áætlað að  “…auka aðgengi að vaxtarfjármagni fyrir nýsköpun…”, meðal annars til að auka samkeppnishæfni.  Þetta fjármagn verður væntanlega á margföldum vöxtum miðað við nágrannalönd  – allt til að auka samkeppnishæfnina. Litlu meira, sjö línur, fara í umfjöllun um Lög og reglu, en þar kreppir skórinn víða.

Miðjumoðið

 Fjórtán kaflar eru í miðju að lengd.  Þar er til dæmis talað um að aflamarkskerfið verði áfram í sjávarútvegi, en þorri landsmanna þekkir það eingöngu sem kvótakerfið. Mannamál er oft gott. “Eigendastefna verði gerð fyrir Landsvirkjun…”.  Það hlýtur að þýða að ný stefna boði aðra eigendastefnu en að landsmenn eigi Landsvirkjun sameiginlega og njóti sameiginlega arðsins. Um skatta segir að verði “…áfram unnið að útfærslu skatta á ökutæki og eldsneyti.” Þar sem álögur á eldsneyti og bifreiðaskattur hækkuðu um áramót, þýðir þetta væntanleg hærra bensínverð.  Á hverjum  lendir það?  Þeim sem eiga gamla bíla, sem eyða meiru en þeir nýju.  Þeir sem eiga þessa gömlu bíla eru efnaminni borgarar, en hini ríku hafa efni á nýjum bílum.  Til að  ná sér enn betur niðri á þeim efnaminni lendir hækkunin í vísitölunni, sem svo hækkar húsnæðislánin, til viðbótar því sem bensínhækkunin um áramót hefur þegar gert.

Eitt vantar

 Ég hef ekki fundið eitt orð um húsnæðismál. Nú er svo komið að stór hluti yngri kynslóðarinnar getur ekki eignast eða fengið til öruggra afnota þak yfir höfuðið. Lánsmat bankanna leyfir ekki einu sinni tekjumiklu ungu fólki að fá lán. Á hinum svokallaða leigumarkaði er fólk á stöðugum flótta, ýmist inni á ættingjum eða í okurleigu, með engri vissu um hversu lengi má búa á sama stað. Stór hluti yngri kynslóðarinnar er að hugsa um að flýja til landa, þar sem lánin lækka þegar greitt er af þeim og höfuðstóll hækkar ekki mánaðarlega.

—————————————————————————————————————

 Fyrir áhugamenn um stjórnmál vil ég benda á að gúggla:    Stefnyfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Ólafur Sigurðsson janúar 20, 2017 14:21