Þeir ríku verða ríkari

Ólafur Sigurðsson

Ólafur Sigurðsson

Ólafur Sigurðsson varafréttastjóri skrifar

Að auka um eitt prósent tekjur þeirra tuttugu prósenta fólks, sem hafa lægstar tekjur, eykur þjóðarframleiðsluna um 0.38 prósent. Hinsvegar ef laun þeirra tuttugu prósenta, sem hafa hæstu launin, hækka um eitt prósent, dregur það úr hagvexti um 0,08 prósent. Þetta eru niðurstöður úr skýrslu fimm hagfræðinga hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, sem birt var á miðju ári 2015.

“Brauðmolahagfræði – Trickle down economics”

Það er útbreidd kenning meðal hagfræðinga að það auki hagsæld að lækka skatta á auðmenn og fyrirtæki, sem hafi þá aukið fé, sem þeir muni nota til fjárfestinga, sem efli atvinnulífið. Auknar tekjur þeirra muni þannig “hríslast niður” hagkerfið (trickle down), alþýðu manna til hagsbóta. Þessi kenning liggur að baki skattalækkunum í vestrænum ríkjum, meðal annars hér á landi. Þetta hefur verið kallað brauðmolakenningin hér á landi, sem er langsótt tilvísun í dæmisöguna um Lasarus. Hann lá heltekinn holdsveiki undir borði höfðingja og át molana, sem féllu af borði hans, þar til hann dó. Jesús Kristur gerði síðan kraftaverk og vakti hann upp frá dauðum, heilan sára sinna.

Misskipting ekki aðeins ranglát, heldur skaðleg

Skýrsla hagfræðinganna fimm sýnir með afgerandi hætti, reiknað út frá hagtölum ríkja í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, að þessi kenning er röng. Hún byggist á þeirri forsendu að þeir sem ráða fjármagninu muni nota það eins og best má verða fyrir þjóðfélagið og þá sem hafa minnstar tekjur. Eins og Frans páfi segir: “Þetta sýnir einfeldnislegt og barnalegt traust á manngæsku þeirra sem ráða yfir fjármagninu.”

Lægst launuðu 40 prósentin skaðast mest

Fyrir tveim árum kom út bók á vegum OECD, Efnhags- og þróunarstofnunarinnar í París, In it Together: Why Less Inequality Benefits All. Þar er lögð áhersla á að misskipting auðs skaði mest neðstu fjörutíu prósent launþega. Ritstjóri bókarinnar, Stefano Scarpetto, segir þetta skaðlegt á margan hátt og tekur dæmi: “Þetta dregur meðal annars úr möguleikum láglaunafólks til að greiða kostnað af góðri menntun”.

Vopn í kjarabaráttu

Íslenskir fjölmiðlar hafi ekki haft hátt um þessar fréttir, enda uppteknir við annað, eins og sjá má og heyra. Það verða þó að teljast tímamót þegar það kemur í ljós að hægt sé að hækka laun þeirra lægst launuðu og auka um leið hagvöxt í landinu og þar með almenna velsæld. Vonandi notfærir launþegahreyfingin sér þessar nýju upplýsingar í baráttu sinni fyrir bættum kjörum þeirra lægstlaunuðu. Vinnuveitendur og ríkisvaldið hafa oft notað skýrslur frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og Efnahags- og þróunarstofnuninni til réttlætingar á eigin stefnu í ýmsum málum. Það verður því erfitt að hafna þessari skýrslu. Nú þýðir ekki lengur að halda því fram að allt fari á annan endann ef 250 þúsund króna laun eru hækkuð um fáein prósent.

“Trickle down” eða “brauðmylsnustefna” er brandari

Brauðmylsnuhagfræðinnar er fyrst getið hjá Will Rogers, einum vinsælasta grínista Bandaríkjanna á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þegar Herbert Hoover, forseti Bandaríkjanna, greip til efnahagsaðgerða vegna kreppunnar miklu 1929, sagði Rogers í uppistandi: “Til að leysa vanda almennings hefur forsetinn gefið þeim ríku alla peningana, af því að frá þeim muni þeir hríslast niður til fátækra og þurfalinga.” Þá hlógu menn dátt og þriðjungur þjóðarinnar atvinnulaus. Ætli þetta hafi ekki varið brandari allan tímann?

Að lokum. Ef eins prósents launahækkun hjá láglaunafólki eykur hagvöxt um 0,38%, hugsið ykkur hvað tíu prósenta launahækkun myndi auka hagvöxtinn.

 

 

Ólafur Sigurðsson nóvember 30, 2015 10:00