Hrafn Magnússon fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða skrifar
Í nýlegri skýrslu um fjölþjóðlega rannsókn á vegum OECD kemur fram að íslenska lífeyriskerfið sker sig úr með mikilli tekjutengingu lífeyris úr almannatryggingum, jafnframt er Ísland eina landið þar sem lífeyrir frá Tryggingastofnun fellur niður.
Almannatryggingar fyrir alla
Á ráðstefnu Alþýðusambands Íslands um velferðarkerfið sem haldin var fyrir nokkrum árum kom fram sú eindregna skoðun ræðumanna, að ekki mætti einskorða bætur almannatrygginga einvörðungu við þá sem verst væru settir í þjóðfélaginu.
Einn fremsti fræðimaður Norðurlanda á svið velferðar- og lífeyrismála, Joakim Palme, sem er sonur Olof Palme fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, dró í erindi sínu dökka mynd af því ástandi sem myndaðist þegar velferðarkerfi væru aðeins hugsuð sem aðstoð fyrir þá allra verst settu í þjóðfélaginu.
Afleiðing slíks kerfis væri sú að mati Palme að velferðarkerfið væri svelt, vandkvæði tengd neikvæðri stimplun styrkþega kæmi upp auk fátæktargildra. Því meira sem eftirlaun eru lágtekjumiðaðar, því lægri verður upphæðin sem er til ráðstöfunar, þ.e. því meiri áhersla verður lögð á að beina eftirlaunum aðeins til hinna fátækustu í samfélaginu, því minni árangri nær velferðarríkið í því að draga úr ójöfnuði.
Því miður virðist sú skoðun hafa skotið upp kollinum hér á landi að almannatryggingar eigi nær eingöngu að vera fyrir þá sem allra verst eru settir í þjóðfélaginu. Það sé aðallega gert með verulegri tekjutengingum í almannatryggingakerfinu, meira en tíðkast annars staðar, svo og með kerfisbundinni lækkun frítekjumarkanna.
Þetta er röng nálgun hvað varðar uppbyggingu almannatrygginganna, eins og Joakim Palme hefur réttilega bent á. Almannatryggingar eiga að vera fyrir alla. Eftirlaunin geta verið tekjuháð í vissum tilvikum, en eiga ekki að falla algjörlega niður, eins og tíðkast hér á landi. Má í því sambandi geta þess að um síðustu áramót féllu niður eða skertust eftirlaun til þúsunda eldri borgara, sem fá eftirlaun frá lífeyrissjóðunum. Sú aðgerð var óréttlát, auk þess sem hún grefur undan tiltrú almennings að ávinnsla lífeyrisréttindra sé réttlætanleg við núverandi aðstæður.
Grunnstoð lífeyriskerfisins er almannatryggingar
Íslenska lífeyriskerfið byggist á þremur megin stoðum. Í fyrsta lagi almannatryggingum, í öðru lagi eftirlaunum frá lífeyrissjóðum og í þriðja lagi greiðslum úr séreignarsparnaði og öðrum einkasparnaði..
Sú skoðun hefur heyrst að lífeyrissjóðirnir eigi að vera grunnstoðin en síðan komi almannatryggingar sem viðbót við greiðslur lífeyrissjóðanna. Þetta er misskilningur og stenst enga skoðun, þegar betur er að gáð.
Lífeyrissjóðirnir voru settir á stofn og hugsaðir sem viðbót við greiðslur frá almannatryggingum. Að vísu standa íslensku lífeyrissjóðirnir nær almannatryggingum, en annars staðar, þar sem um er að ræða skylduaðild allra starfandi manna að sjóðunum, en eftir sem áður eru lífeyrissjóðirnir samkvæmt öllum viðurkenndum skilgreiningum önnur stoð lífeyriskerfisins, en fyrsta stoðin er að sjálfsögðu almannatryggingar. Það er mjög mikilvægt að þessi skilgreining lífeyriskerfanna sé á hreinu.
Grein þessi eftir Hrafn Magnússon birtist í Morgunblaðinu 18. október 2017, en hann er stjórnarmaður í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.