Uppskrift af nýrri vináttu

Kristín Linda Jónsdóttir

Kristín Linda Jónsdóttir hjá Huglind er sálfræðingur, fyrirlesari og aðstoðarfararstjóri hjá Skotgöngu. Hún tekur á móti einstaklingum í sálfræðimeðferð, handleiðslu og ráðgjöf bæði í Reykjavík og Selfossi og heldur námskeið og fyrirlestra hérlendis og erlendis.

 

Ótal rannsóknir víðsvegar um heiminn hafa sýnt fram á að til að viðhalda góðri heilsu og líðan og auka líkur á farsælu langlífi er mikilvægt að skapa sjálfum sér góða félagslega heilsu. Gleði, hlýja, hvatning og góðvild eru heilsueflandi og mikilvæg næring sem verður til í uppbyggjandi og jákvæðum samskiptum milli fólks. Einmannaleiki og einsemd dregur niður líðan og virkni og hefur samkvæmt rannsóknum beinlínis neikvæð áhrif á heilsu og lífslíkur.

Við getum sjálf ákveðið að gera eitthvað í málinu auðga þann félagsskap sem fyrir er og ekki síður að koma á nýjum reglubundnum og jákvæðum félagsskap fyrir okkur og aðra.

Í starfi mínu sem sálfræðingur hef ég orðið vör við að það er of algengt að einstaklingar festist í félagslegri fátækt vegna þeirrar hugmyndar að þeir eigi ekki vinir/vinkonur. Að þeir sem eitt sinn voru vinir/vinkonur séu það ekki lengur af ýmsum ástæðum, samskiptin hafi steytt á skeri eða viðkomandi sé farinn burt og ekki lengur til staðar. Sannarlega er það oft svo enda lifum við flest langa og fjölbreytta ævi og eðlilega verða breytingar á aðstæðum okkar og okkur og ekki hægt að búast við að við finnum samhljóm með sömu einstaklingum ævina á enda.

Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að líta á það sem sjálfsagt mál að stofna til nýrra kynna og vináttu hvenær sem er á æviskeiðinu.

Ef til vill ert þú svo lánsöm að finna að þú sért félagslega vel stödd, eigir bæði góð tengsl við fjölskyldu, vini/vinkonur og sért virkur þátttakandi í þínum hópum, endilega taktu eftir gæfu þinni, þakkaðu fyrir hana og haltu áfram á sömu braut. Hugsaðu líka um það hvernig þú getur bætt gleði í þau samskipti sem þú ert í nú þegar við fjölskyldu eða vini.

Ekki festast í of einhæfum og dauflegum samskiptum, það dýpkar sambönd og gefur gleði að upplifa eitthvað saman, skoða eitthvað nýtt, prófa eitthvað nýtt og skapa saman sterkar minningar.

Leiðbeiningar um nýja vináttu

Virk leið til að koma á nýjum vinskap og auka félagsauð er að búa til nýjan hóp sem hittist reglulega samkvæmt ákveðnu skipulagi og reglum sem halda utan um hegðun hópsins þannig að eitthvað verði úr. Hér er ekki átt við að hóa saman þeim sem þú nú þegar hittir oft heldur að skapa nýrri vináttu, svið til að verða til og blómstra, hvort sem er á fertugs-, sextugs- eða áttræðisaldri svo dæmi séu tekin.

Það er upplagt að tveir kunningjar tali sig saman um að stofna klúbb um ákveðið viðfangsefni. Síðan bjóða þeir í hópinn fólki sem þeir vita um en einmitt ekki þeim sem eru í þeirra innsta hring. Markmiðið er jú að stækka félagslega netið. Fyrsta skrefið er að hafa kjark til að hafa frumkvæði að því að tala við þennan kunningja og útskýra hugmyndina. Þegar tveir einstaklingar eru búnir að ná saman um verkefnið er næst að finna fleiri. Skiptið því með ykkur, annað hvort að hver ykkar tali við tvo svo úr verði sex eða að hvort ykkar finni einn og þeir fjórir sem þá eru komnir í klúbbinn finni hver einn til viðbótar svo úr verði átta.

Munið, finnið fólk sem þið vitið um en ekki safna saman vinunum eða ættingjum, það er annað dæmi, við erum hér að fjalla um að stækka félagslega netið og skapa ný kynni.

Það reynist ekki vel að leggja af stað með færri en sex en athugið að þar sem um persónulegan klúbb er að ræða er ekki heldur gott að í honum séu of margir. Ef það eru sex í hópnum og hann fundar í þrjá tíma hefur hver einstaklingur þrjátíu mínútur til að tjá sig, eða til dæmis þrisvar sinnum tíu mínútur, þær eru fljótar að líða þegar er gaman. Hugmyndin er að klúbburinn hittist fast, reglulega, svo hann verði gildur stólpi í félagslífi þeirra sem í honum eru og alvörusvið nýrrar vináttu. Til þess að svo sé þarf klúbburinn að vera starfhæfur þó að það séu til dæmis tveir sem ekki geta mætt í það skiptið þess vegna er sex lágmark en átta líka ágætt.

Vel reynist að ákveða í upphafi fyrirkomulag sem klúbbfélagar ganga að og virða af virðingu hvor við annan og þakklæti fyrir að fá tækifæri til að auka félagslíf sitt, gleði og vináttu í klúbbnum. Það er góð reynsla af því að ákveða strax að virða tíma félaganna og ákveða bæði hvenær klúbbfundir byrja og enda. Það kemur frekar þreyta i samskiptin ef það er engin ákveðin endapunktur. Lykilinn að trausti og blómstrun klúbbsins eru heilindi og virðing, að slúðra aldrei um þá sem eru fjarstaddir hverju sinni, að dæma ekki, tala yfir eða gefa of lítið af sér heldur kynnast af jákvæðum og hvetjandi áhuga og góðvild.

Athugið að til þess að klúbburinn virkilega auki félagsauð og bæti gleði og hlýju í líf þátttakenda þarf bæði að virða viðfangsefnið sem ákveðið er í upphafi, þema klúbbsins, og líka að deila persónulegri reynslu.

Þannig verður smám saman til traust, væntumþykja og gagnkvæmur stuðningur. Nýtt vináttusvið til að ræða mál og fá hvatningu og stuðning. Að sjálfsögðu þarf virðing og traust að vera grunnur í samskiptunum til að slíkt verði að veruleika. Gætið jafnræðis, talið ekki yfir aðra, eða takið allan tímann, ekki heldur sitja hjá og vera ekki tilbúin að deila nokkrum hlut með hópnum, þá er til lítils af stað farið. Það er sjálfsagt að fylgjast með tímanum og fara hringinn, einu sinni, tvisvar, þrisvar, þannig að klúbbfélagar taki við hver af öðrum að hafa orðið. Gleymum því ekki að með því að opna eigin hurð og deila með þeim sem maður kýs að hitta reglubundið þá gefum við tækifæri á nýrri vináttu, samkennd og öllu því besta sem mannleg samskipti geta gefið.

Þá er það spurningin um hverskonar klúbb á að stofna? Hvert á að vera hið sameiginlega viðfangsefni fyrir utan að auka félagsauðinn, skapa ný dýrmæt kynni og vináttu? Hér getur allt milli himins og jarðar komið til greina, bæði hvað varðar þema og útfærslu, hér eru nokkur dæmi:

  • Bókaklúbbur, klúbbfélagar lesa sömu bók, bækur, ræða efni þeirra og innihald og hugleiðingar sem vakna í kjölfarið. Klúbblagar velja bók til lestrar hver af öðrum til dæmis eftir starfrófsröð. Oftast hittast bókaklúbbar einu sinni í mánuði, mætti þó vera tvisvar í sumum tilvikum, ræða bókina sem lesin var og njóta persónulegar samveru.  Í sumum tilfellum er þó ákveðið að hver og einn lesi sínar/sína bók og klúbbfélagar kynni í kjölfarið þær bækur sem þeir lásu fyrir aðra í klúbbnum. Svipað og gert er í Kiljunni. Til dæmis að hver og einn kynni þær bækur sem honum fannst áhugaverðastar af bókum jólabókaflóðsins. Almennt lesa samt allir sömu bókina og hittast í klúbbnum til að deila upplifun sinni og skilningi á bókinni hver með öðrum, fá speglun, umræður og hafa gaman af.
  • Matarklúbbur/bakstursklúbbur hittast og elda saman, prófa nýtt í matargerð, elda heilsurétti eða rétti frá ákveðnum löndum, uppskriftir eftir Nigellu Lawson eða aðra meistarakokka.
  • Safna og listaklúbbur, hittast og skoða saman gallerý, söfn, listasýningar í klukkustund og setjast svo saman og ræða það sem fyrir augu bar, deila eigin málum og efla vináttuna.
  • Hygge og hamingjuklúbbur, fræðast um og hittast samkvæmt hinum dönsku hugmyndum um hygge, huggulegheit. Kertaljós, teppi, kósýsokkar og lestur, fræðsla, umræður um bækur og netsíður um hygge og hamingju og eigin mál.
  • Handavinnuhópur með þema, prjón, hekl, útsaumur, bútasaumur sem dæmi. Bæði hittast og vinna saman handavinnuna og ræða eigin mál.
  • Útivistarklúbbur, hittast til dæmis annan hvern laugardag klukkan tíu og fara sama, akandi eða gangandi að einhverri útivistarperlu. Garði, fossi, skógi, fjöru og njóta útiveru saman. Sumir klúbbar get valið að gengið sé í klukkustund, aðrir í fjóra tíma og enn aðrir að gengið sé sem minnst frekar, dundað við að mynda blóm, týna ber eða skeljar, leggjast í grasið, skoða eyðibýli eða þekkta sögustaði.

Finnst þér ekki snjallt að koma af stað nýjum klúbbi? Vettvangi fyrir þig og þá sem í klúbbnum verða til að skapa nýja vináttu, auka fjölbreytileikann í eigin félagslífi og upplifa fleiri góðar stundir? Ekki hika, gerðu það bara!

Kristín Linda Jónsdóttir maí 2, 2025 07:00