Út með það gamla, inn með það nýja

Áramót eru ákveðin tímamót í hugum fólks og flestir kveðja hið gamla, stundum með söknuði, stundum með létti og horfa fram á við ákveðnir í að bæta líf sitt. Hvernig til tekst er svo upp og ofan en víða um heim hafa skapast áramótasiðir sem fyrst og fremst miða að því að undirbúa jarðveginn og tryggja að gæfan brosi við manni.

Ekki margir áramótasíðir tengjast mat beinlínis. Þó tíðkast á Spáni að borða tólf vínber meðan klukkan slær inn nýja árið til að tryggja að allir mánuðir ársins verði ánægjulegir. Augnbaunir gegna sama hlutverki í hugum margra Bandaríkjamanna og víða um heim eru borðaðar linsubaunir til að tryggja fjárhagslega velgengni. Linsurnar minna svolítið á smáaura og með því að borða þær átti aurunum að fjölga. Í Austurlöndum er víða sú trú á að um áramót megi ekki borða fugla. Þeir leiti í skítnum að mat og korni og snæðir þú kjöt þeirra um áramót bíða þín sömu örlög eða að krafsa lífsbjörgina upp úr aurnum.

Hogmanay er skoskt orð fyrir gamlársdag og hefur yfirfærst á siðina sem tíðkaðir eru í kringum áramót í skosku hálöndunum. Eftir miðnætti heimsækja nágrannar gjarnan hver annan og mikilvægt er að sá fyrsti sem stígur yfir þröskuldinn á heimili þínu eftir miðnætti hafi með sér græna grein, brauðbita og kolamola svo hvorki skorti frjósemi, vistir né yl hjá bóndanum á nýja árinu.

Hin gömlu kynni gleymast ei

Hins vegar er ekki sama hver gesturinn er jafnvel þótt hann komi færandi hendi. Rauðhærðir og ljóshærði eru ekki velkomnir „first-footers“ (fyrstu fætur) ,eins þessir gestir kallast, því þeir boða vandræði. Börn eru heldur ekki æskileg, enda verður árið þá aðeins miðlungi gott. Ef svo óheppilega vill til að kona verði fyrst til að nálgast heimili þitt verður að reka hana hið snarasta burtu, enda boðar það verstu hörmungar að taka á móti henni. Ef hún lætur sér ekki segjast strax er leyfilegt að hrekja hana frá með öllum ráðum, meira að segja að grípa til byssunnar. Besti gesturinn er hávaxinn dökkhærður karlmaður berandi gjafirnar þrjár því þá mun lukkan ekki bregðast.

Hann á að banka og bíða eftir að sér verði hleypt inn og sé um heimilismann að ræða má hann alls ekki nota lykilinn sinn. Um leið og opnað er á hann að ganga í gegnum húsið og fara út um aðrar dyr en þær sem hann kom inn um. Varast verður þó að þessir karlar séu sambrýndir, rangeygðir eða með ilsig því gæfan minnkar í hlutfalli við þessi lýti. En þegar fullkominn kandítat hefur stigið yfir þröskuldinn eru allir aðrir velkomnir eftir það.

Og fyrst við erum komin til Skotlands er ekki hægt annað en að minnast á Robert Burns. Þessi skoski uppreisnarseggur og drykkjumaður var alþýðuskáld á borð við Sigurð Breiðfjörð. Hann orti árið 1788 kvæðið Auld Lang Syne við vinsælt þjóðlag í sínu héraði. Titillinn þýðir vegna þess gamla eða fyrir sakir þess sem liðið er. Lagið náði strax vinsældum og breiddist hratt út. Nú er orðin hefð, einkum í enskumælandi löndum, að syngja það á miðnætti á gamlárskvöld þegar nýja árið gengur í garð. Textinn er angurvær og hvetur fólk til að minnast góðra kynna þótt velgengni bíði sitt í hvoru lagi þá eiga gamlir vinir alltaf sinn stað í hjartanu.

Hoppað inn í nýja árið

Frændur okkar Danir narta í smörrebröd og drekka bjór á gamlárskvöld en til að tryggja sér gæfuríkt komandi ár hoppa þeir mót nýárinu. Það er ekki nóg að stökkva jafnfætis framfyrir sig heldur verður að stökkva ofan af stól til að lukkan hlaupi ekki frá þér. Í Napolí fleygja menn gömlum stólum út um dyrnar til að rýma fyrir hinu nýja. Á Púertó Ríkó velta menn hins vegar kókoshnetu gegnum allt húsið sitt, börnin bera vatnsfötur að gluggunum og skvetta úr þeim og að lokum er farið með reykelsi og myrru um allt. Þetta hreinsar húsið af illum öndum og sér til þess hægt sé að byrja á nýjum upphafsreit. Hér í hinum vestræna heimi er það hins vegar hávaðinn frá flugeldunum sem á að sjá um að reka hina vondu ára í norður og niðurfallið.

Sá siður að opna allar gáttir og dyr í húsi sínu á miðnætti á gamlárskvöld er iðkaður víða í fjölskyldum og enginn veit hvaðan hann er upprunninn. Líklegt er að þetta hafi gegnt sama hlutverki og reykelsið þ.e. hrakið allt illt rykti burtu. Í Brasilíu safnast menn saman á Copacabana ströndin íklæddir hvítu en nærfötin leggja grunn að góðri framtíð. Séu þau gul er peninga von en ef rauð bankar ástin upp. Brasílíubúar bera blóm og gjafir til gyðjunnar Lemenjá en hún er hin tindilfætta lukkugyðja þar í landi.

Hollendingar halda brennur, líkt og Íslendingar. Þær eru táknrænar og eldurinn á að eyða öllu íþyngjandi og illu úr fortíðinni. Í Japan er mikilvægt að gera hreint fyrir sínum dyrum í bókstaflegum skilningi. Bonenkai heita áramótin í þar í landi og eru þau slegin inn með 180 höggum í gongin í Búddahofunum. Áður en höggin taka að dynja eru húsin skrúbbuð hátt og lágt. Þetta var gert til að kveðja gamlar áhyggjur og vandamál. Einnig bar mönnum að fyrirgefa allar gamlar væringar og borga upp allar skuldir.

Áramótaheit frá Babýlóníu

Sú trú þekkist víðar og á Englandi þótti ekki gott að eiga eitthvað ógreitt á nýju ári. Þar var líka talið betra að hamstra mat fyrir desemberlok því ekki máttu skáparnir vera tómir þegar nýtt ár gengi í garð. Þessi trú þekkist reyndar víðar um heim og fylgdi mörgum innflytjendum til Bandaríkjanna. Víða um heim er líka vinsælt að strengja áramótaheit og nota þessi tímamót til að skapa nýjar lífsvenjur. Það voru Babýlóníumenn sem voru upphafsmenn af slíkum heitstrengingum en sumir hafa líka viljað rekja til þeirra þann sið að fagna nýju ári með kossum. Kossarnir létta mönnum lundina en eiga líka að tryggja hlýju í samskiptum manna í milli út árið.

Margskonar önnur hjátrú tengd áramótum hefur náð að breiðast út um allan heim. Meðal annars má nefna að miklu þykir skipta hvað fólk aðhefst stundirnar í rétt fyrir og rétt eftir miðnætti. Það mun setja svip sinn á árið sem fer í hönd svo það er eins gott að vanda sig. Hvaðan vindurinn blæs getur líka haft sitt að segja. Suðlægur vindur færir íbúunum ábatasamt líf en norðanroki fylgir áframhaldandi ótíð. Vestanvindurinn kemur gnægð mjólkur og fiskjar en sé hann að austan er von á hungursneyð og erfiðleikum. Lognið er best því þá verður árið gott fyrir alla.

En þótt nýársnóttin sé liðin er margt að varast. Nýársdagur er líka mikilvægur og þann dag fá japönsk börn sínar gjafir. Hér á Vesturlöndum er aftur á móti gott að gera eitthvað sem tengist vinnunni þótt þú farir ekki á vinnustaðinn. Það mun tryggja atvinnuöryggi og aukinn starfsframa. Ekki má samt gera of mikið því þá snýst viðleitnin upp í andhverfu sína. Gættu þess líka að brjóta ekkert á nýársdag en ef það skyldi henda er líklegt að ýmislegt brotni upp á árinu. Auk þess er best að láta vera að þvo þvott á nýársdag því sá sem þvegið er af gæti orðið hættulega veikur. Þennan dag er getur líka borgað sig að klæðast einhverju nýju en borga ekkert og lána engum. Ef það gleymist eru líkur á að peningar streymi um hendur þínar allt árið en stoppi ekki við. Í Evkador og Venesúela pakka menn í töskur og bera þær um svo næsta víst sé að þeir verði á faraldsfæti næstu mánuði. Og nú er bara að gulltryggja sig með því virða alla þessa siði um þessi áramót.

Ritstjórn desember 31, 2023 07:00