Útilegufatnaður hátíðarbúningur ættarmótanna

Ættarmótin eru nú í algleymingi og margar fjölskyldur ugglaust á ferðinni til að hitta ættingja sína, annað hvort í heimasveit ættarinnar eða á tjaldstæði á fallegum stað, þar sem auðvelt er að hittast.

Iðunn Jónsdóttir veltir fyri sér klæðnaði fólks á ættarmótum, í BA ritgerðinni sinni sem fjallar um ættarmót á Íslandi.   Þar kemur fram að menn klæða sig ekki upp á ættarmótum, en eru í frjálslegum og afslöppuðum útivistarfatnaði. Útilegufatnaði, gönguskóm og lopapeysum. Menn sem aldrei fari í slíkar flíkur sjái ástæðu til að klæðast þeim á ættarmóti.

Útilegufatnaður viðeigandi

Það kemur fram að þessi fatnaður var talinn viðeigandi. Þarna væru menn í útilegu með fjölskyldunni, þeim sem standa þeim næst og enginn ástæða til að klæða sig uppá. Og orðrétt segir Iðunn um þennan klæðaburð.

Þótt tilefnið hafi verið álitið afslappað og áreynslulaust, þá var stórfjölskyldan engu að síður mætt á sameiginlega hátíð og þáttakendur klæddust samkvæmt því. Þannig mætti rökstyðja að útivistarfatnaður hafi verið álitinn hátíðarklæðnaður við þessar kringumstæður.

Ritstjórn júlí 16, 2015 14:30