„Nú er úr vöndu að ráða. En ég kemst að þeirri niðurstöðu að minn eftirlætisstaður á Íslandi sé Reykjanesið, nánar tiltekið svæðið kringum elsta vita landsins sem er að vísu löngu horfinn en stóð á Valahnúk.
Ég byrjaði unglingur snemma að hjóla þangað frá Keflavík, heimaplássi mínu, þótt vegurinn væri vondur, oftar en ekki afleitur reyndar, og var kátur og stoltur í hvert skipti sem ég var kominn alla leið. Ég var sjálfur á ferðalagi! Ég gekk um og innbyrti með undarlegri hrifningu hrikaleik þessarar eyðilegu náttúru, feginn bæði grasi og grjóti og hrauni og klettaþvögu í fjörunni, allt var þetta merkilegt og eftirminnilegt. Ég prílaði upp á Valahnúk og naut útsýnis yfir þessa miklu auðn þar sem forfeður mínir í Höfnum, á Vatnsleysuströnd, í Njarðvíkum, Keflavík og Fuglavík höfðu háð sitt lífsstríð. Og yfir hafið, yfir þann sjó sem þeir höfðu sótt fast, en ekki ég sjálfur. Nýir tímar sendu mig til annarra verka. Sálin stækkaði og vildi fljúga öllu ofar. Margar aldir komu saman í huganum og voru furðu samhljóma. Ég lagðist á bakið og horfði á himininn yfir Íslandi. Andartakið varð eilífðin sjálf.
Eitt sinn blés öflug norðanátt mér og hjólinu á skömmum tíma og svo til fyrirhafnarlaust suður þangað. En heimferðin var eftir því erfið, því mótbyr var öflugur og hjólið í það skiptið gamalt og gíralaust. En þessi barningur var loks á enda og heim kominn þóttist ég heldur en ekki karl í krapinu. Það er skemmtilegt að halda sig hafa unnið afrek sem enginn annar veit um.
Ég fór oft einn á þessar slóðir og síðar meir hefi ég margsinnis gengið þar um í félagsskap margra þeirra sem næst mér standa. Þarna stendur minnisvarði um geirfuglinn, en fyrsta skáldsaga mín hét einmitt Geirfuglarnir og gerðist í ímynduðu plássi ekki langt undan, á sömu strönd. Enn ein ástæða til að tengja æfi mína við einmitt þennan stað.
Þó ekki væri um það beðið má geta þess að Reykholt í Borgarfirði kæmi næst í vinsældum í minni sálarkytru. Ekki vegna náttúrufars eða vegna Snorra. Heldur vegna þess að þangað kom ég í skóla nýorðinn tólf ára gamall, í rauninni ofverndaður krakki og þurfti í fyrsta sinn að bjarga mér sjálfur í ýmsum vanda og prófa og upplifa margt í fyrsta skipti. Af þeim stað mætti líka segja langa sögu.“