Vanlíðanin streymdi gegnum útihurðina

Sólveig Pálsdóttir hafði aldrei ráðið tíma sínum fyllilega sjálf. Það var því með tilhlökkun og eftirvæntingu að hún hélt til La Rochelle í Frakklandi í athvarf fyrir rithöfunda staðráðin í að skrifa í friði og njóta staðarins. En margt fer öðruvísi en ætlað er. Mikið veik útgangskona hafði komið sér fyrir við húsið og svaf á dyraþrepinu. Sólveig segir að óttinn hafi læðst inn um útidyrnar og haft mikil áhrif á hvernig sagan þróaðist.

Mynd: Jónatan Grétarsson.

Nýja bókin heitir Miðillinn og aðstæður Sólveigar á ritunartímanum nokkuð sérstakar.

„Ég tók þátt í skiptiprógrammi á vegum, Rithöfundasamband Íslands, sendiráðs Frakklands á Íslandi, Alliance Française í Reykjavík og Centre Intermonde de La Rochelle. Íslenskur höfundur fer út og franskur kemur til Íslands. Þarna hafa dvalið barnabókahöfundur og myndasöguhöfundur. Að þessu sinni auglýstu þeir eftir spennusagnahöfundi og ég sótti um og fékk. Ég hugsaði með mér að þarna fengi ég algjört næði og svo hef ég aldrei ráðið tíma mínum alveg sjálf. Ég hef verið fjölskyldumanneskja alla ævi þannig að ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að geta skrifað öllum stundum og sinnt öðru á undarlegustu tímum. Þegar ég kem út tekur á móti mér kona frá menningarstofnuninni og keyrir mig á staðinn.

Þegar hún opnar fyrir mig húsið segir hún: „Ef þú kemur heim eftir að skyggir verð ég að segja það að hér er kona sem hefur sest hér að og sefur á dyrapallinum.“ Heimilislaust fólk er alls staðar og ég sá marga sem þannig er ástatt fyrir í Frakklandi. Ég hef aldrei verið hrædd við veikt fólk en þessi kona var með mjög miklar ranghugmyndir og ofsóknaræði og vegna þess að ég var ein þarna og húsið staðsett inni í almenningsgarði. Ef maður kom heim eftir að skyggja tók, sem ég gerði aldrei nema þetta fyrsta kvöld, þurfti að ganga smá spöl áður en ég kom að hliðinu að húsinu. Maðurinn minn kom með mér út og fór heim tveimur dögum seinna. Þegar við komum frá því að borða þetta kvöld kviknaði á útiljósunum þegar við gengum upp á veröndina og þá reis hún upp og talaði og talaði og vildi komast inn. Konan frá menningarstofnuninni hafði hins vegar lagt á það ríka áherslu að það mætti ég alls ekki.“

Vonuðu að vandamálið myndi hverfa

Félagsmálayfirvöld voru búin að reyna allt og konunni hafði verið boðin hjálp og skjól í einhverju af athvörfum borgarinnar. En hún vildi ekki þiggja og meðan hún gerði ekkert af sér var ekki talinn ástæða til að nauðungarvistana.

„Ég hefði auðvitað ekki viljað að það væri gert,“ segir Sólveig. „Ég hef heldur aldrei óttast veikt fólk, enda skárra væri það nú að vera hræddur við sjúkdóma. En vegna þess að aðstæður voru þessar læddist að mér þessi tilfinning. Það var eins og allir væru eitthvað svo máttlausir gagnvart þessu og væru að vona að vandamálið myndi bara hverfa. Hún færi bara. Mér var sagt að hringja í lögregluna sem oftast en það vildi ég ekki.“

Átti þríbura sem voru teknir af henni

Franskt leikskáld átti að vera í húsinu með Sólveig en sú kona festist í París vegna uppsetningar verks sem dróst á langinn og svo fékk hún Covid. Hún kom bara undir lokin og sótti dótið sitt. Sólveig átti þó athvarf á daginn.

„Ég fór yfir í hús höfundanna, mjög glæsilegt hús og var þar yfir daginn og skrifaði,“ segir hún. „Ég gægðist út um rifu á hurðinni á morgnana til að vita hvort hún væri farin, ægilega stressuð og var svo komin heim milli fimm og sex á daginn, lokaði mig inni og setti járnhlera fyrir gluggana. Umgangur var um garðinn þar til fór að skyggja en eftir það vorum við einar. Svo heyrði ég henni fyrir utan, gangandi um að tala við fólk sem enginn sá nema hún. Ég hringdi einu sinni á lögregluna vegna þess þá var hún svo reið. Það var vegna þess að ég hafði sett í ruslaföturnar en það mátti ég ekki því hún geymdi dótið sitt þar. Hún átti góða þykka dýnu, sæng og kodda og var vel útbúin.

En svo fann ég mikið til með henni. Mér fannst líka svo vont að vera hrædd. Þarna vorum við tvær konur, einar inni í þessum dimma garði. Svo talaði ég ekki tungumálið og það hefur ábyggilega haft áhrif á þetta líka. Ég vann ofboðslega mikið þennan tíma sem ég var ein og oft langt fram á nætur. Ég henti meðal annars fjórum köflum sem ég hafði skrifað og byrjaði aftur. Nokkuð sem ég geri nánast aldrei. Sagan varð þess vegna svolítið dulrænni. Ég leyfði þessari tilfinningu að óttast eitthvað sem maður veit ekki hvað er og getur hvorki séð né þreifað á að læðast inn í söguna. Þessi ónotatilfinning gagnvart einhverju sem maður getur ekki útskýrt alveg.

Ég veit að það var búið að reyna mikið að hjálpa henni en kannski hafði enginn hlustað á hana. Við verðum að hlusta á fólk og það er alltaf uppspretta hugmynda hjá mér. Einhver kveikja að efninu verður til. Eins og í bókinni Fjötrar er það þöggun, í Skaði þessi stimplun, ef einhver heldur einhvern tíma að þú sért eitthvað ákveðið berðu þann skarlatsstaf það sem eftir er en í þessari bók var grunnkveikjan að hlusta á fólk hvaðan sem það kemur og hvernig sem það birtist okkur. Daginn áður en ég fór heim komst ég að því gegnum nema í menningarstjórnun við menningarstofnunina að konan við húsið sem ég bjó í hafði átt þríbura. Móðir þessa nema er sálfræðingur og hafði komið að máli hennar tíu árum fyrr þegar börnin voru tekin af henni vegna þess að hún var illa haldin af ofsóknarkennd. Ég get alveg ímyndað mér að þessi kona hafi verið einstæðingur og það er alveg nóg að eiga eitt barn ein, hvað þá þrjú. Ég hugsaði mjög mikið um þessa konu og mér fannst mjög erfitt að vera ein inni í húsinu og hún úti. Mér fannst ég líka skynja mikla vanlíðan sem streymdi gegnum hurðina inni í húsið því hún lá bara á dyraþrepinu rétt fyrir utan dyrnar.“

Miðillinn óx og stækkaði

Var hugmyndin að bókinni fullmótuð þegar þú ferð út. Átti miðillinn að gegna svona stóru hlutverki?

„Hún var fullmótuð en hann átti ekki að gegna svona stóru hlutverki. Það stækkaði og breyttist og bókin átti ekki að heita Miðillinn. Hún varð, held ég skarpari fyrir vikið. Ég vogaði mér inn á svið sem ég hafði ekki þorað inn á áður. Það er svona ákveðið hættusvæði. Maður þarf að fóta sig varlega sem höfundur. Ég feta líka varlega en fer inn á þetta. Ég held að við séum núna að upplifa tíma sem eru opnari gagnvart öllu andlegu og að eitthvað sé til fleira en menn geta hönd á fest en við vorum bara fyrir nokkrum árum.“

Varstu sjálf opin fyrir andlegum hlutum, spíritisma og slíku?

„Já, ég var í sveit í Hraunkoti í Lóni og segi frá því í bókinni Klettaborgin. Guðlaug Benediktsdóttir sem bjó þar ásamt bróður sínum og mágkonu var rammskyggn. Mín kynslóð náði líka í skottið á þessari spíritismabylgju sem var á Íslandi á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Þegar ég var unglingur fórum við vinkonurnar í andaglas og til spákvenna. Ég hef farið á miðilsfund gerði það tvisvar á miðjum aldri. Systir mín var svo spennt fyrir að fara eftir að mamma okkar dó. Amma mannsins míns leitaði líka til Einars á Einarsstöðum þegar mér gekk illa að fæða fyrsta barnið. Þetta er allt í kringum mig.

Ég er pínulítið næm sjálf. Ég er ekki skyggn eða neitt slíkt en ég fann stundum á mér að ég ætti ekki að fara eitthvað eða gera eitthvað. Kannski var verið að ýta á mig að gera eitthvað en ég fann að það var ekki rétt og passaði mér ekki. Aftur og aftur kom í ljós að tilfinning mín var rétt. Þetta var ekki gott, hafði ekki góðar afleiðingar og svo ég treysti sífellt meira á þetta innsæi og fór eftir því. Ég held við höfum þetta öll en við lærum svo fljótt að loka á það og líta á það sem vitleysu.“

Mikilvægt að næra ímyndunaraflið

Telur þú að þeir sem eru ungir í dag hafi sömu tilfinningu fyrir miðlum og trú á anda eða upplifi það eins?

„Nei, ég er viss um að svo er ekki. Í Hraunkoti var eðlilegasti hlutur í heimi að huldufólk byggi í klettunum og fara átti varlega hér og þar út af einhverju slíku. Maður tók fyllilega tillit til þess. Þetta er auðvitað dálítið skemmtilegt og snýst svolítið líka um ímyndunaraflið. Að fá hugmyndir að bókum snýst auðvitað um að hafa fjörugt ímyndunarafl og næra það, að geta eins og í barnæsku lagst í grasið, horft upp í himininn og skýin urðu að ævintýraverum og borgum. Ég veit ekki hvort börn eru minna myrkfælin en þá þau sjá bara annað.

Ég hitti næstum því þriggja ára frænda mannsins míns um daginn og hann sagði: „Veistu, það er skrímsli undir rúminu mínu.“ „Er það?“ sagði ég. „Já, veistu það er allt í lagi. Ég sagði bara skrímsli þú þarft ekkert að vera hræddur, ég er góður.““

Húsið þar sem Sólveig skrifaði á daginn.

Hvílir sig og endurnærist

Sólveig hlær við og ber fram orð barnsins með ofurlítið smámæltri þriggja ára röddu. Sumir telja að sköpunargáfan dofni með aldrinum og hugmyndauðgin minnki. Hefur þú einhvern tíma fundið fyrir því að þig skorti hugmyndir?

„Ég tek mér alltaf hvíld eftir hverja bók. Sumir höfundar segja að þeir séu strax byrjaðir á næstu eftir að hafa lokið við síðustu. Aðrir eru með tvö til þrjú verkefni í gangi í einu. Ég er ekki þannig. Ég þarf að endurnæra mig. Ég tek svolítið til í sjálfri mér, fer meira í sund og hreyfi mig og hitti fólk. Þegar ég er á þessu skeiði er ég ekki með neina hugmynd í kollinum og oft hugsa ég; nú fæ ég ekki fleiri hugmyndir. Nú er þetta búið. En það hefur alltaf gerst að eftir þessa hvíld þá byrjar eitthvað að verða til í kollinum á mér. Það er eins og ég þurfi að hreinsa út, kveðja. Svo er annað og kannski kemur það með aldrinum. Af því að ég tek öllu þessu ferli með þakklæti. Það kemur bók út og með árunum verð ég alltaf uppteknari af því að njóta þess að fylgja henni úr hlaði.“

Er það aldrei svo að einhver persóna eða atvik leiti á huga þinn og kveiki hugmyndir? Sagan segir til dæmis að Agatha Christie hafi heyrt á tal tveggja kvenna í samkvæmi og önnur sagt við hina: „Why didn‘t they ask Evans?“ Og það orðið kveikjan að sakamálasögunni þekktu.

„Það kemur eftir smátíma. Ég hugsa að það gerist núna eins og alltaf áður. Auðvitað byggir maður alltaf á því sem maður heyrir, les eða upplifir að einhverju leyti. Tínir saman brot og brot, sýður þau síðan saman og byggir úr þeim mynd. Það er alveg þannig að setning, mynd eða atvik getur sett hluti af stað. En ég tak aldrei heilar persónur og skeyti þeim inn í sögurnar mínar. Ég hef einu sinni gert það, í einni af mínum allra fyrstu bókum, tók ég svona 80-90% af manneskju sem ég þekki og bjó til aukapersónu. Það er í eina skiptið sem ég hef fengið gagnrýni fyrir persónusköpun. Hún þótti ekki nógu trúverðug.“

Varstu ekkert hrædd um að viðkomandi myndi þekkja sig?

„Nei, ég bjóst ekki við að hún myndi lesa. Hún er svolítið sérstök sú manneskja.“

Hefur þú fengið einhver viðbrögð við nýju bókinni?

„Já, ég hef fengið skilaboð frá lesendum og þau eru öll á einn veg. Þeir hafa sagt mér að þeim finnist bókin gríðarlega spennandi. Konan kemur hvergi fyrir í sögunni en þar er þessi tilfinning sem ég fann,“ segir Sólveig að lokum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 29, 2023 07:00