Vatn er uppspretta lífs – gættu að vökvabúskapnum

Vökvaskortur getur valdið alvarlegum einkennum meðal eldra fólks og hættan á ofþornun eykst með aldrinum. Það er auðvelt að koma í veg fyrir vökvaskort. Fyrsta skrefið er að vera meðvitaður um að hann er mögulegur og fylgjast þess vegna vel með hversu mikið maður drekkur yfir daginn.

Samkvæmt rannsókn á vegum heilbrigðisstofnunar Evrópu þjáist um 31% eldra fólks sem kemur inn á sjúkrahús í álfunni til lengri dvalar af vökvaskorti. Meðferðin felst helst í að koma aftur jafnvægi á vökvabúskap líkamans, sölt og steinefni en það er kostnaðarsamt að hafa fólk inni á sjúkrahúsum og hér er um að ræða ástand sem auðveldlega mætti koma í veg fyrir. Vökvaskortur er einnig líklegur til að auka einkenni annarra kvilla og sjúkdóma og ef fólk veikist og vökvabúskapurinn er ekki góður eru veikindin ævinlega verri en hjá þeim sem það á ekki við um.

Hvað er vökvabúskapur?

Allir vita að líkaminn þarfnast vatns til að virka. Lengst af ævinni er um 60% líkamans vatn og öll líffærakerfi þurfa þennan glæra vökva til að virka. Vatn temprar hitastig líkamans, skolar út úrgangsefnum, smyr liðina, flytur næringarefni til frumnanna, er ástæða þess að blóðflögurnar flytja súrefni um æðakerfið, heldur húðinni rakri og er undirstaða þess að við getum hugsað. Ef ekki kemur nóg vatn inn í líkamann hættir allt þetta að virka.

Líkaminn hefur kerfi til að tryggja sér nægan vökva. Það sér til þess að við finnum fyrir þorsta. En því miður er það svo að hægfara langvarandi vökvaskortur dregur úr hæfni þessa kerfis og deyfir þorstatilfinninguna. Nýrun leggja sig þá fram um að varðveita eins mikið vatn og hægt er í líkamanum en það dugir ekki til því bara við það að anda missir fólk vökva og um leið og það missir vatn fara einnig sölt og rafkleyf efni.

Með aldrinum eykst hættan á vökvaskorti

Eftir því sem við eldumst minnkar hæfni líkamans til að halda í vatn. Að hluta til er það vegna þess að það hægir á starfsgetu nýrnanna. Við fæðingu erum við 75% vatn en aldraður einstaklingur aðeins 50%. Þrátt fyrir þetta hafa rannsóknir á neyslumynstri fólks sýnt að eldra fólk drekkur mun minna vatn en þeir sem yngri eru. Það bendir til þess að eldra fólk finni síður fyrir þorsta en hinir yngri og viti þess vegna ekki að þeir þarfnast vökva. Hvers vegna þetta gerist vita menn ekki en það eykur verulega hættuna á því að eldra fólk finni ekki fyrir vökvaskorti og geri sér ekki grein fyrir hættunni fyrr en ástandið er orðið alvarlegt.

Einkenni vökvaskorts hjá eldra fólki

Fyrstu einkenni vökvaskorts eru lyktarsterkt og dökkt þvag, svimi, hraðari hjartsláttur, vöðvakrampar, grátur án tára, ergelsi og ringlun, þreyta, höfuðverkir og yfirlið. Langvarandi vökvaskortur er auðsjáanlegur á þurrum vörum, munnþurrki, þurri húð sérstaklega í handholinu og minni þvaglátum. Menn ættu að vera meðvitaðir um þessi einkenni og ef þeir verða þeirra varir drekka meira. En þess má geta að sumt af þessum einkennum getur verið tilkomið vegna aukverkana lyfja eða sjúkdóma. Góð regla er því að fá sér að drekka, bíða um stund og ef þetta lagast hefur mjög líklega verið um vökvaskort að ræða. Ef einstaklingurinn er orðinn ringlaður, reiður eða syfjaður er ástæða til að fara með hann á bráðamóttöku.

Aukaverkanir lyfja

Sum lyf virka þvagræsandi og geta því aukið líkur á vökvaskorti. Það er ávallt nauðsynlegt að kynna sér vel aukaverkanir þeirra lyfja sem maður tekur inn og vera meðvitaður um ráðstafanir sem þarf að gera til að milda þær. Meðal þeirra lyfja sem geta haft þvagræsandi áhrif eru antihistamín, háþrýstingslyf, magasýrulyf og sum hjartalyf

Þvagleki og hægðavandamál

Þvagleki er fylgifiskur hækkandi aldurs hjá mörgum og það veldur því oft að fólk fer að drekka minni vökva yfir daginn í viðleitni til að draga úr líkum á þvagleka. Hið sama á við ef fólk hefur oft linar hægðir eða niðurgang. Það er hins vegar algjörlega óþarft að hætta að drekka vatn þótt svo sé í raun eru meiri líkur á alls konar blöðruvandamálum ef fólk drekkur ekki nóg fremur en hitt. Ef hægðirnar eru ekki í lagi ætti fólk að ráðgast við lækni og fá ráð varðandi mataræði og rannsókn á hvað veldur.

Stirðleiki og ótti við að detta

Sumir eiga erfitt með að standa á fætur og eru hræddir við að detta vegna ójafnvægis eða svima. Þeir kjósa þess vegna að drekka minna til að þeir þurfi síður á klósettið. Það eykur hins vegar hættuna á falli þegar fólk um síður stendur upp við vökvaskortur getur aukið ójafnvægi og valdið svimatilfinningu.

Aðstæður á heimili

Aldraður einstaklingur sem býr einn þarf að vera meðvitaður um að drekka vel og það er góð regla að vera með vatnsflösku og glas við höndina í því herbergi sem hann dvelur mest í yfir daginn. Á hjúkrunarheimilum er reynt að passa upp á að skjólstæðingar drekki nóg en stundum skortir starfsfólkið yfirsýn yfir hve mikið einstaklingarnir í umsjá þeirra drekka. Ættingjar ættu að hafa þetta í huga og biðja um að fylgst sé með hversu mikið ástvinir þeirra drekka og reyna alltaf að hvetja hinn aldraða til að drekka vatn þegar þeir eru í heimsókn.

Heilsufarsvandamál

Í sumum tilfellum fá menn við sjúkdóma sem beinlínis valda vökvaskorti. Til dæmis ef flensa veldur háum hita getur það leitt til vökvaskorts, eins niðurgangur, uppköst og sykursýkissjúklingar þurfa alltaf að vera meðvitaðir um að drekka vel af vatni

Meðferð við vökvaskorti

Þegar vökvaskortur er ekki orðinn langvarandi og alvarlegur dugir oftast að gefa viðkomandi vel að drekka og fylgjast með vökvainntöku næstu daga eða vikur. Sé hann hins vegar kominn á alvarlegt stig vegna langvarandi ónógrar vökvainntök þarf fólk að leggjast inn og fá vökva í æð, sölt og rafkleyf efni.

Góð ráð

Ekki allur vökvi sem líkaminn fær yfir daginn kemur úr drykkjarglasi. Margar fæðutegundir innhalda mikið vatn og geta hjálpað verulega við að halda vökvabúskapnum í lagi. Þar á meðal er margvíslegt grænmeti og ávextir, súpur og sósur.

Notaðu tæknina

Ef þú ert ekki viss um að þú sért að drekka nóg getur þú skoðað öpp á borð við Hydro Coach og WaterMinder. Bæði hjálpa fólki að fylgjast með hversu mikið það drekkur og minna það á að drekka meira.

Hafðu alltaf vatn við hendina

Það er góð regla að hafa alltaf vatnsflösku og glas á borði í því herbergi sem þú dvelur lengst í yfir daginn eða vera með vatnsbrúsa með þér hvert sem þú ferð.

Drekktu það sem þér finnst gott

Það er hægt að drekka fleira en vatn og ef fólk er leitt á að drekka það eingöngu er hægt að drekka djús, gosdrykki eða sjúga frostpinna. Menn ættu þó að gæta þess að drekka ekki of mikið af sætum drykkjum

Komdu þér upp rútínu

Skapaðu rútínu í kringum vatnsdrykkjuna. Sumir byrja hvern dag á að drekka tvö glös af vatni og drekka tvö glös með hverri máltíð auk þess að drekka eitt um miðjan dag og eitt áður en farið er að sofa. Þetta verða átta glös í allt en það er sá skammtur sem mælt er með að allir drekki.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 10, 2024 07:00