Vaxmyndasafnið sem hvarf

Einar Sigurmundsson skrifar

Vaxmyndasafnið var stofnað árið 1951 af Óskari Halldórssyni útgerðarmanni og börnum hans, til minningar um um Óskar Theódór Óskarsson, son Óskars sem fórst í sjóslysi aðeins tuttugu og þriggja ára gamall. Safnið innihélt 33 vaxmyndir þar af 18 af íslendingum og 15 af útlendingum.

Óskar Halldórsson fór 16 ára gamall til Danmerkur að læra garðrækt. Meðferðis hafði hann bréf sem móðir hans ritaði Valtý Guðmundssyni sem þá var háskólakennari í Höfn, þar sem hún bað hann um aðstoð syni sínum til handa. Valtýr tók Óskari vel, sýndi honum borgina og fór með hann á mörg söfn, þar á meðal vaxmyndasafnið. Óskar segir svona frá þeirri upplifun:

Segi eg það eins og það er, að ekkert hreif huga minn eins og þetta safn. Kannaðist eg þar við fjölda manna eftir myndum, sem eg hafði sér og voru þeirra meðal margir heimskunnir menn.

Árið 1941 fórst skip í eigu Óskars sem bar nafnið Jarlinn þegar það var á leið til Englands og með því meðal annara sonur hans, Óskar Theódór. Vaxmyndasafnið var stofnað til minningar um Óskar Theódór. Vaxmyndirnar gerði englendingurinn Richard Lee. Óskar hafði ekki húsnæði undir myndirnar og var því komið fyrir í Þjóðminjasafns Íslands og haft þar til sýnis frá 1951 til ársins 1969. Sýningin var tekin niður vegna plássleysis og voru myndirnar settar í geymslu, enda safnið ekki formlega í eigu Þjóðminjasfnsins heldur ríkisins.

Umdeilt safn

Skiptar skoðanir virðast vera um safn þetta og finnst sumum að gera eigi því hátt undir höfði og hafa til sýnis og jafnvel bæta við vaxstyttum, en aðrir eru á öndverðri skoðun eins og Þór Magnússon þáverandi þjóðminjavörður, en hann svaraði spurningu um hvort hann áliti ekki sjónarsvipti af vaxmyndasafninu:

Nei, ekki get ég persónulega tekið undir það… Ég skal játa að safnið vakti á sínum tíma dálitla forvitni gesta, en ég get ekki gert að því, að mér finnst sjálfum það ekki sérlega áhugavert fyrirbrigði að móta eft til vill lifandi menn í vax og sýna þá á safni, meðan þeir ganga kannski í fulliu fjöri um götur borgarinnar… Að minnsta kosti myndi ég ekki vilja að minn líkami yrði settur í styttulíki og hafður til að sýnis fyrir almenning

Á sömu skoðun var Halldór Kiljan Laxnes, en hann hafði fyrir þrábeiðni Óskars Halldórssonar látið til leiðast að gera mætti mynd sína í vaxi og var hún í upphafi hluti safnsins. Þórarinn Eldjárn sem var alinn upp á

Smásagnasafn Þórarins Eldjárns

Smásagnasafn Þórarins Eldjárns

Þjóðminjasafninu skrifar smásögu sem hann kallar heimildasmásögu og segir „þarna er samkvæmt bestu heimildum verið að segja sögu íslenska vaxmyndasafnsins á árunum 1951 til 1971“. Sagan heitir „Eins og vax“ og er í samnefndri bók og má þar lesa um vaxmyndamál nóbelskáldsins. En í sögunni kemur einnig fram að Kristján Eldjárn síðar Forseti Íslands, hafi eitt sinn þegar hann var á leið í samkvæmi gripið til þess ráðs að fá lánaða spariskó, af vaxmynd Davíðs Stefánssonar skálds, með nokkuð skondnum afleiðingum.

Níu dögum eftir að Óskar Halldórsson deyr og tæpum tveimur árum eftir að safnið er opnað, sendir Halldór menntamálaráðuneytinu bréf þar sem segir meðal annars að „þó ég hefði af vináttusökum okkar Óskars leyft honum að birta myndina, ræddi ég oft við hann um þann óbifur sem ég hefði á hugmynd hans um vaxmyndasafn“ og segir að slíkum sýningum hafi víðast hvar í heiminum verið útrýmt af „fagurfræðilegum ástæðum“ og taldi hann það hafa verið glappaskot sitt „að gefa í upphafi leyfi mitt til þessa óþrifnaðar“. Síðar segir Halldór í bréfinu:

Nú þegar Óskar Halldórsson er látinn, tel ég mig ekki leingur bundinn vilyrði því sem ég gaf á sínum tíma um að hafa mætti á glámbekk umrædda fígúrumynd, og leyfi mér því að snúa mér til hins háa menntamálaráðuneytis, en undir það skilst mér að safn þetta liggi, og mælast til þess af fagurfræðilegum ástæðum, að umrædd vaxmynd verði tekin niður.

Safnið í dag

Í dag er vaxmyndasafnið í geymslum Þjóðminjasafnsins, reyndar voru nokkrar myndir sýndar sumarið 2006 á sérsýningu á þriðju hæð safnsins. Ekki er fyrihugað í náinni framtíð að hafa safnið til sýnis, að sögn fagstjóra munasafns, enda þurfa myndirnar allnokkuð viðhald, aðallega vegna þess að fólk þurfti aðeins að koma við og kroppa í þær þegar þær voru sýndar. Auk þess verður vaxið hart með tímanum sem krefst þess að varlega sé farið með myndirnar. Í dag eru þær eru því geymdar höfuðlausar á bak við tjald í hillum, en höfuðin eru geymd í kössum, nema höfuðið að mynd Halldórs Laxness – það brotnaði nefnilega í flutningum.

 

 

Ritstjórn janúar 30, 2015 10:00