Nýtt rautt menningarkort veitir eldri borgurum 70% afslátt

Síðustu árin hafa  67 ára og eldri fengið frían aðgang að öllum söfnum Reykjavíkurborgar. Það þýðir að íbúar annarra bæjarfélaga, og erlendir ríkisborgarar hafa heldur ekki greitt aðgang, þar sem þeir njóta sömu kjara. Nú hefur þessu verið breytt og allir munu framvegis borga sama gjald fyrir heimsókn á söfnin. Til að koma til móts við þarfir eldri borgara hefur verið gefið út nýtt rautt Menningarkort fyrir 67 ára og eldri og kostar það 1.800 krónur, sem er sama upphæð og greidd er fyrir staka heimsókn í eitthvert safnanna.

Fyrir þá sem ekki þekkja til, er Menningarkort Reykjavíkur árskort sem veitir endurgjaldslausan aðgang að öllum söfnum Reykjavíkurborgar, 2 fyrir 1 aðgang að einhverju safnanna í hverjum mánuði, auk tilboða og sérkjara hjá fjöldamörgum samstarfsaðilum í menningarlífinu.

Hefðbundna Menningarkortið, eða bláa kortið, kostar 6.000 kónur á ári, en rauða menningarkortið fyrir 67 ára og eldri fæst með 70% afslætti, á 1.800 krónur og endurnýjun þess verður gjaldfrjáls að ári, ólíkt því sem er fyrir bláu Menningarkortin.

Það er einlæg ósk borgaryfirvalda að þeir sem eru 67 ára og eldri nýti sér það mikla menningarframboð sem borgin hefur upp á að bjóða í söfnum sínum með rauða Menningarkortinu.“Við munum kappkosta að ná til hópsins með því að vera með sérstök tilboð til handhafa rauðra Menningarkorta, eða með tilteknum viðburðum og uppákomum sem verður beint að þeim og vonumst við til þess að sjá fjölgun í hópi gesta í þessum hópi. Þetta munum við vinna í samvinnu við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni en stuðningur félagsins hefur verið skipt sköpum við að ýta þessu verkefni úr vör“, segir meðal annars í upplýsingum frá borginni um nýja kortið.

Fólk sem býr í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur, getur rétt eins og Reykvíkingar keypt sér Menningarkort borgarinnar, þó það búi ekki þar.

Ritstjórn júlí 11, 2019 14:42