Verður ekki óttalegt að deyja

Séra Bára Friðriksdóttir skrifaði nýlega meistararitgerð í öldrunarfræði og studdist þar meðal annars við kenningar Svíans Lars Tornstam, en hann hefur gert viðamiklar rannsóknir á því hvernig hugsunarháttur okkar breytist þegar við eldumst. Þetta snýst bæði um hvernig við sjáum okkur sjálf og hvernig við upplifum umhverfið og alheiminn.  Bára segir að hann velti upp rannsóknarspurningum eins og hvað segja menn sjálfir um hvernig er að eldast? og Hvað er það sem breytist í upplifun fólks þegar það fer að eldast?

Verður sama hvað öðrum finnst

Bára talar um öldrunarinnsæi í þessu sambandi. Viðhorf fólks til hlutanna breytist, hugsunin breytist og þetta snúi að alheiminum og sjálfum okkur, en líka að samskiptunum við annað fólk.  „Manneskjan er að vinna úr lífi sínu og mynda sátt, til að geta haldið áfram og tekið á móti dauðanum“, segir hún.  „Á þeirri leið losnarðu frá ýmsu sem skipti þig miklu máli áður. Þú fellir grímuna. Þú hættir til dæmis að vera þessi settlega kona sem umhverfið hefur sagt þér að vera, verður þú sjálf, segir það sem þér finnst og er sama hvað öðrum finnst. Fólk sem hefur kannski verið hlédrægt og ekki viljað stíga fram, gerir það nú og segir beint eða óbeint. Hér er ég og ég hef þessa skoðun“.

Líta á sig sem hlekk í keðju kynslóðanna

Bára segir tvennt hafa skorað hátt í rannsóknum Tornstams, í því sem lýtur að alheimsvíddinni. „Þú ferð að upplifa þig eins og hluta af alheiminum. Fólk horfir á barrtré út um gluggann og finnst það undurfagurt. Það upplifir sig sem hluta af náttúrunni og alheiminum. Þetta er algeng upplifun hjá eldra fólki. Það fer líka að líta á sig, sem hlekk í keðju kynslóðanna og sér að lífið heldur áfram í þeirri keðju. Fólk fer að horfa á forfeður sína, það fer fram og aftur í tímanum og sér að þetta er allt ein samfella. Stundum finnst öðrum að menn séu orðnir eitthvað ruglaðir og fastir í því hvar þeir ólust upp, ætt sinni og frændfólki“ segir hún.

Endurmeta líf sitt

„Þarna segir höfundurinn Lars Tornstam að menn séu að endurmeta lífsferil sinn. Þeir eru að vinna úr sínum málum, gera upp ýmislegt og þegar þeir eru búnir að fara í gegnum þetta ferli hverfur óttinn við dauðann. Menn finna sátt og einingu, það er ekkert lengur óttalegt að deyja. Menn hverfa úr þessari keðju og safnast til feðra sinna, eins og segir í Biblíunni“, segir Bára. „Annað er að fólk fer að gleðjast meira yfir hinu smáa, sökkvir sér niður í það sem það hefur hér og nú og nýtur þess. Dægurþras hættir að vera mikilvægt. Myndun nýrrar ríkisstjórnar skiptir fólk kannski ekki máli en það getur gleymt sér við að dást að undurfögru blómi. Fólk verður heldur ekki jafn upptekið af útlitinu og það var, þó það hugsi um sig af virðingu“.

Vilja vera einir

Bára segir að margir hafi þörf fyrir meiri einveru en áður, sem sé oft  álitið neikvætt. Það sé þá talið slæmt að menn einangri sig og jafnvel sjúklegt. „En menn líta á þetta sem jákvæða einveru“, segir hún. „Þeir vilja vera einir og í friði. Það eru hlutir að gerjast í kollinum á fólki, menn eru að vinna sig í gegnum lífið og vilja fá næði til að gera það“ segir Bára og bætir við að menn vilji heldur ekki vera með hverjum sem er og verði með aldrinum vandlátari á það fólk sem þeir vilji umgangast.  Menn fari jafnvel að endurmeta lög og reglur samfélagsins, leggi sjálfstætt mat á þær en líti ekki á þær út frá viðhorfi samfélagsins. Þeir hætti að gera sér rellu út af smámunum. Menn hefja sig upp yfir þessa hluti, ekki í neikvæðum skilningi að mati Báru, heldur skapst þarna ákveðið frelsi.

Ánægjulegast að vinna með börnum og gömlu fólki

En hver er ástæða þess að Bára fékk áhuga á eldra fólki? Hún segist hafa unnið á hjúkrunarheimili þegar hún var unglingur og þá hafi hún farið að bera mikla virðingu fyrir eldra fólki. Þegar hún fór að starfa sem prestur fannst henni ánægjulegast að vinna með börnum og gömlu fólki. Það ætti sameiginlegt hispursleysi og sakleysi. „Þetta vakti áhuga minn á öldrunarfræði“, segir hún.  Bára fór í meistaranám í öldrunarfræði árið 2012 og kynntist þá hugmyndum Lars Tornstam. „Upphaflega vakti kenningin áhuga minn af því hún er andleg „spiritual“ en seinna sá ég að hún er víðtækari. Það sem mér fannst forvitnilegt í þessum kenningum, var að sjá að fólk er að vinna úr lífi sínu þegar það eldist og myndar sátt við bæði sorgir og sigra. Þannig finnur fólk samhengi í lífi sínu, í gegnum öldrunarinnsæið eins og Tornstam kallar það. Þeir sem ná að vaxa inn í þessar hugsanir finna fullnægju í lífinu. Auk þess fannst mér áhugaverð þessi kenning að menn nái sátt við lífið þegar þeir eldast, hvernig sem það var og er, og takist þannig á við dauðann“, segir hún.

Stundin kringum dauðann heilagur tími

Bára segir að eldra fólk hafi gott af svokallaði endurminningameðferð (reminiscence). Það sé að gera upp og fara í gegnum hluti. Flestir séu sáttir, elskulegir og jákvæðir, þó inná milli sé að finna gamalt fólk sem er haldið beiskju.  „Það hefur ekki náð sáttinni“, segir hún. Stundin í kringum dauðann er heilagur tími að mati Báru. „Þá eru menn að finna sátt og fyrirgefa og eru að græða og binda um sárin mitt í sorginni“.

Ritstjórn nóvember 29, 2017 07:57