Bættu nokkrum góðum árum við ævina

Enn er talsvert stór hópur eldra fólks sem reykir en langar til að hætta. Samkvæmt upplýsingum úr Talnabrunni Landlæknisembættisins reyktu tæp 15 prósent karla og kvenna daglega á aldrinum 50 til 59 ára árið 2013. Í aldurshópnum 60 til 69 ára var hlutfallið tæp 11 prósent og  í næsta aldurshópi þar fyrir ofan 70 til 79 ára var hlutfallið rúm 5 prósent. Margskonar ráðgjöf er í boði fyrir þá sem vilja hætta má þar nefna Reyklausa símann, 8006030 en í hann er hægt að hringja alla daga  á milli 17 og 21. Ráðgjöfin er einstaklingsmiðuð og sniðin að þörfum hvers og eins. Á vefnum reyklaus.is og á vef Landlæknisembættisins og Krabbameinsfélagsins og á  doktor.is er sömuleiðis að finna gagnlegar upplýsingar um hvernig best sé að hætta og hvaða heilsufarslegan ávinning fólk hefur af því að drepa í. Þá má geta þess að næsta námskeið Krabbameinsfélagsins til að hjálpa fólki að hætta hefst 1. febrúar næstkomandi. Í bæklingi sem Hjartavernd gaf út fyrir nokkru kemur fram að með því að hætta reykingum fái fólk hugsanlega tækifæri til að bæta við mörgum góðum árum við ævina. Fimmtugur einstaklingur sem reykt hefur einn pakka á dag getur bætt 5 til 6 árum við ævina, sextugur 4 til 5 árum og sjötugur einstaklingur getur bætt við 3 til 4 árum.  „Maðurinn hefur frá örófi alda leitað að lausninni að lengra og betra lífi. Hér er áhrifarík lausn fyrir reykingafólk: Hættu að reykja, lífslíkur þínar aukast og heilsan batnar,“ segir ennfremur.

 

Ritstjórn janúar 5, 2016 12:57