VR gerist aðalstyrktaraðili Gráa hersins í málinu gegn ríkinu.

VR hefur ákveðið að gerast bakhjarl Málsóknarsjóðs Gráa hersins, vegna málsóknar gegn Tryggingastofnun og íslenska ríkinu. Þetta kemur fram á Facebook síðu Gráa hersins og þar segir:

Dómsmálið er rekið til þess að ná fram þeirri niðurstöðu að núverandi skerðingar Tryggingastofnunar á ellilífeyri vegna greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum standist ekki ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála.
VR hefur stutt málsóknina frá upphafi, og án þess að gert sé lítið úr framlögum annarra félaga og samtaka, er óhætt að fullyrða að loforð VR á frumstigum málsins um afgerandi fjárhagslegan stuðning hafi ráðið úrslitum um að hægt var að hefjast handa um málsóknina.
Ljóst er að framundan er löng barátta við ríkið fyrir dómstólum. Til þess að tryggja að reka megi málið af fullum krafti allt til enda, samþykkti stjórn VR á fundi sínum 13. maí sl. að gerast bakhjarl Málsóknarsjóðsins og ábyrgjast kostnað af málarekstrinum allt að 7.000.000 kr., sem er viðbót við þegar samþykktan styrk að fjárhæð 1.000.000 kr. Grái herinn mun halda áfram að sækjast eftir styrkjum frá einstaklingum, samtökum og öðrum aðilum til að standa straum af málsókninni.
Þrír félagar úr Gráa hernum, baráttuhópi eldra fólks um lífeyrismál, hafa að beiðni og fyrir hönd samtakanna höfðað mál á hendur Tryggingastofnun f.h. íslenska ríkisins og hafa stefnur þeirra þegar verið þingfestar. Málshöfðunin er reist á því sjónarmiði að með skerðingu opinberra lífeyrisgreiðslna í hlutfalli við réttindi, sem ellilífeyristakar hafa áunnið sér í lífeyrissjóðum með vinnuframlagi sínu og iðgjöldum, sé gengið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti lífeyristaka.
Þessar skerðingar nemi allt að 56,9% af greiðslum úr lífeyrissjóði. Þegar einnig sé tekið tillit til tekjuskatta sé því um að ræða ígildi eignaupptöku á allt að 72,9% greiðslna frá lífeyrissjóðunum. Þetta sé brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi eignarréttarins, og ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmálans, sem leggja bann við mismunun.

Ritstjórn maí 27, 2020 13:20