Vesturbærinn: Húsin – Fólkið – Sögurnar

Út var að koma bókin VESTURBÆRINN – Húsin – Fólkið – Sögurnar, eftir Sigurð Helgason. Hér er víða komið við, eins og undirtitillinn gefur til kynna; fjallað er um fjölmörg hús, sem flest heyra sögunni til, minnisstætt fólk stígur fram í sviðsljósið og má þar nefna Bryndísi Zoëga, Steindór H. Einarsson, Ásdísi Steinþórsdóttur, Harald Á. Sigurðsson, Guðbjörn Jónsson (Bubba), Guðrúnu Helgadóttur, Þórarin Eldjárn, Svein Guðjónsson, Halldór fisksala, Jósefínu í Nauthól, Bóbó á Holtinu, Agga ljósmyndara, Gunnar A. Huseby, Svein Jónsson og Bjarna Felixson og er þá fátt upp talið.

Bókin fæst í öllum bókabúðum og eins í Melabúðinni og verður hér á eftir gripið aðeins niður í hana:

Haraldur Á. Sigurðsson

Árið 1919 var Íslandsmótið í knattspyrnu haldið í áttunda skiptið. Allir leikirnir fóru fram á Melavellinum og dæmdi Egill Jacobsen þá alla. KR vann þarna annan Íslandsmeistaratitil sinn en auk þess tóku þátt í mótinu Fram, Víkingur og Valur, allt Reykjavíkurfélög.

Í lokaleik mótsins mættust tvö efstu liðin, KR og Fram. Hvort lið um sig gat orðið Íslandsmeistari og þurfti KR að sigra til þess að svo yrði á meðan Fram nægði jafntefli. Þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma var staðan 3-2 fyrir KR. Þá var dæmd vítaspyrna á Vesturbæjarliðið. Stuðningsmenn beggja liðanna héldu niðri í sér andanum þegar Friðþjófur Thorsteinsson úr Fram hljóp að boltanum á vítapunktinum. Hann var ágætur skotmaður en Haraldur Á. Sigurðsson var líka ágætur markvörður og hann varði vítaspyrnuna og tryggði þar með liði sínu Íslandsmeistaratitilinn.

Haraldur var Vesturbæingur í húð og hár, fæddur að Vesturgötu 28, þann 22. nóvember 1901. Móðir hans, Þórdís Hafliðadóttir, lést þegar hann var aðeins fimm ára gamall og flutti hann þá til móðurömmu sinnar og -afa að Suðurgötu 6 og síðar til föður síns, Ásgeirs Sigurðssonar, og konu hans, Millýjar Sigurðsson, ofar í sömu götu, eða á númer 12. Hann hóf síðan búskap með konu sinni, Guðrúnu Ólafíu Hjálmarsdóttur, sem var alltaf kölluð Ollý, að Hávallagötu 1 en síðar lágu leiðir þeirra víða, meðal annars að Litlu-Drageyri í Skorradal. En Vesturbæingur var hann alltaf.

Segja má að Haraldur hafi brugðið sér í ýmis gervi og ólík á ævi sinni. Hann var liðtækur knattspyrnumarkvörður á yngri árum eins og fram hefur komið en síðar var hann allt í senn; gamanleikari, leikstjóri, rithöfundur, verslunarmaður, bóndi, náttúruunnandi og veiðimaður og margt fleira. Það var hið fyrstnefnda sem hann varð hvað þekktastur fyrir enda var hann burðarás í leiklistarlífi landsins í hartnær þrjá áratugi. „Það var dauður maður sem Haraldur gat ekki fengið til að brosa,“ skrifaði Árni Helgason í Stykkishólmi í minningargrein um þennan vin sinn.

Haraldur var kunnur af tilsvörum sínum við ýmis tækifæri. Hann var hávaxinn maður og skrokkmikill og notaði stundum vaxtarlag sitt til að vekja kátínu í kringum sig, bæði á leiksviði og annars staðar.

Einn af góðum vinum Haraldar var Páll Jónsson, iðulega kallaður Púlli. Það sem einkenndi hann öðru fremur var bjartsýnin, rólyndið og nægjusemin. Hann var alltaf ánægður og brá aldrei skapi, hafði sennilega ekki andstyggð á vinnu en það stappaði nærri því. Hollasta hreyfingin, sem hann vissi um, var að aka í bíl. Og uppáhaldsrétturinn hans var kjötkássa því að hana mátti borða með annarri hendi og hafa hina á meðan í vasanum. Púlli sagði líka: „Ég held að það sé best að gera ekki neitt og hvíla sig svo vel á eftir.“ Þetta kom líka frá honum: „Sá sem getur ekki sofið til hádegis hefur vonda samvisku.“

Þeir Haraldur og Púlli höfðu gaman af því að ráða krossgátur. Sátu þeir oft saman, réðu gáturnar yfir kaffibolla og hjálpuðu þá hvor öðrum við að fylla í eyðurnar.

Eitt sinn vantaði þá fjögurra stafa orð yfir „matur“ og lauk svo að báðir gáfust upp. Um kvöldið var landsleikur í knattspyrnu milli Íslendinga og Svía á Melavellinum og fóru þeir félagar þangað. Í miðjum leiknum, þegar Íslendingar voru í hörkusókn og nánast allir áhorfendur í uppnámi og hvetjandi landa sína, hnippir Púlli í Harald og segir:
„Heyrðu, Haraldur! Það er kæfa!“

Hér segir Haraldur sjálfur frá einu af ævintýrum þeirra Púlla:

„Í æsku vorum við dálítið vínhneigðir, eins og gengur og gerist. Eitt haust, er við vorum við skál, fengum við þá hugmynd að fara til Þingvalla og gera okkur glaðan dag. Þetta var um helgi og því mannmargt á sögustaðnum. Er við leituðum eftir gistingu í Valhöll var okkur sagt að öll rúm væru þegar lofuð að undanteknum tveim í átta manna herbergi. Var ekki um annað að ræða en að gera sér þau að góðu.

Um daginn var drukkið hraustlega, því að við vorum engir meðalmenn í þeim sökum, hann Púlli minn og ég, þegar við vorum upp á okkar allra besta. Er líða tók á kvöldið gerðumst við ölvaðir nokkuð og gengum því snemma til náða. Þegar við sofnuðum, þreyttir eftir dagsins önn, voru engir af herbergisfélögum okkar mættir.

Við vöknuðum snemma næsta morgun, litum í kringum okkur og sáum hrjótandi haus í hverju rúmi. Því miður var líðan okkar nú ólík því sem verið hafði kvöldið áður – mesti glansinn var farinn af tilverunni. Eins og alþjóð veit eru timburmennirnir einu íslensku iðnaðarmennirnir sem mæta ávallt stundvíslega á vinnustað og stundum svo, að óhugnanlegt verður að teljast. Umræddan morgun voru þeir óvenju árrisulir og athafnasamir. Engu var líkara en að þeir ynnu í ákvæðisvinnu eða eftir uppmælingu. Var nú aðeins eitt ráð fyrir hendi til þess að reyna að lama starfsgetu þessara þokkapilta. Það var að stramma sig af.

Er við höfðum stundað okkar skemmtilegu og þjóðlegu iðju um hríð varð Púlli þess var að járnsmiður var að skríða ofan á sænginni hans. Hann strauk járnsmiðinn burt svo að lítið bar á, enda kannski ekki alveg viss um raunverulega tilveru skriðdýrsins.

Ef tveir menn sitja að drykkju og annar sér einkennilegar pöddur en hinn ekki – þá er sjaldnast gott í efni. En innan stundar var annar járnsmiður kominn þarna og nú var ekki um að villast. Við sáum hann báðir.

Þótt Púlli væri rólyndur og þolinmóðasti maður veraldar þá ofbauð honum þessi óvænti átroðningur enda rann honum svo í skap að hann sló dýrið ofan af sænginni um leið og hann sagði:
„Hvaða helvítis járnsmiðir eru þetta?“
Þá reis maður upp við dogg í einu rúminu og sagði afar hæglátlega:
„Við erum úr Héðni.““

Bjarni Felixson

Í félagsblaði KR, sem gefið var út árið 1969 í tilefni af 70 ára afmæli stórveldisins, er viðtal við Bjarna Felixson, sem á sínum tíma hlaut viðurnefnið Rauða ljónið og var hann síður en svo óánægður með það, baráttuglaði vinstri bakvörðurinn. Grípum hér niður í viðtalið:
„Ég hef verið í þessu í rúman áratug og aldrei verið ánægðari með leik minn en þegar liðinu er illa tekið af áhorfendum. Sérstaklega hef ég notið þess, ef þeir hafa tekið mig fyrir, því að það hefur hert mig í baráttunni. Ég hef komist áfram á keppnisskapi og hörku og verið bestur, er við höfum átt í vök að verjast. Maður var orðinn dauðleiður á þessu árið 1959, þegar við unnum öll lið með yfirburðum.

Einkum er þó margs að minnast frá Akureyri. Árið 1960 höfðu þeir átt lélega byrjun í mótinu, eins og oftar, en áttu eftir heimaleikina síðari hluta sumars. Við áttum að fara norður og þá höfðu þeir unnið Fram fyrir skömmu. Daginn fyrir norðurför okkar var tilkynnt landslið og var „augasteinninn“ [Jón Stefánsson] þeirra utangarðs. Var nokkur ólga nyrðra af þeim sökum og þegar við komum var fullur völlur eins og venjulega.

Í fyrri hálfleik áttum við varla upphlaup. Akureyringar áttu leikinn og áhorfendur voru allæstir. Snemma í leiknum slapp einn þeirra í gegn en ég næ að renna mér á knöttinn og afstýra hættunni. Varð þá nokkur urgur meðal áhorfenda. Rétt á eftir lendir okkur aftur saman á kantinum og ég næ boltanum eftir návígi og geysist fram völlinn. Ræðst hann þá aftan að mér með þeim árangri að ég hlaut mikið sár á fæti og áminningu frá dómara en forystumaður heimamanna heimtaði að ég yrði rekinn út af. Ég lék þó áfram og barðist „eins og ljón“ og Gísli [Þorkelsson], varamarkvörður, varði meistaralega.

Eftir hálftíma leik skora Akureyringar, en Þórólfi [Beck] tókst að jafna fyrir hálfleik. Í leikhléi kom héraðslæknirinn, leit á sárið og sagði að það yrði að gera að því, en ég aftók það með öllu.

Í síðari hálfleik náðum við tökum á leiknum og sigruðum, 5:2. Þá lék ég fjær stúkunni og var þar fyrir hópur 20-30 stráka undir stjórn fyrrgreinds íþróttaleiðtoga norðanmanna. Er ekki að sökum að spyrja, að þegar séð var fyrir um úrslit, hófu þeir grjótkast að okkur.

Í miðjum hálfleiknum fékk Gísli mikið spark og leist mér þá ekki á blikuna. Meðan menn hugðu að meiðslum hans, tók ég boltann og henti honum á bak við grjóthrúgu við völlinn. Æpti þá lýðurinn: Út af með rauða tuggann! Var mörgum heitt í hamsi og í leikslok ruddust menn inn á völlinn í bræði sinni.

Ég hafði vart gengið 10 skref, eftir að flautað var af, þegar lögregluþjónar koma til mín og biðja mig að koma eins og skot. Voru þeir komnir að undirlagi héraðslæknisins og óku mér til hans í aðgerð.

En það er af félögum mínum að segja, að þegar þeir komu í rútuna, sem aka skyldi til búningsklefa annars staðar í bænum, urðu þeir þess varir að mig vantaði. Þeir þustu út á völl og fundur þar annan skóinn minn, sem ég hafði losaði mig við vegna meiðslanna, er leik lauk. Þá mælti Hörður bróðir þessi fleygu orð:
„Hérna er skórinn. Þeir eru búnir að drepa Bjarna bróður!““

Metaðsókn var á leiknum, 3964 áhorfendur mættu til að horfa á ÍBA og KR og urðu einhver blaðaskrif út af þeim skrílslátum sem þarna urðu.

Hótel Saga

Karen Þórsteinsdóttir var á sínum tíma umsjónarmaður einstaklingsbókana á Hótel Sögu. Hún fær nú orðið:

„Hingað kom líka einu sinni hópur af ungum mönnum sem höfðu komið til

landsins á einkaþotu. Einn þeirra kom í móttökuna og pantaði nokkrar svítur. Í

mínum huga voru þetta bara einhverjir smástrákar og mér leist ekki betur á þá

en svo að ég lét þá greiða allt fyrirfram. Um nóttina var svo eitthvert partístand

á þeim. Daginn eftir kallaði ég þá niður, talaði yfir þeim og bannaði þeim að

hafa svona mikinn hávaða. Einn þeirra gekk þá að mér ansi mannalegur og

sagði: „But I am Prince.“ Ég hafði ekki hugmynd um hver þetta var og svaraði:

„Yes, and I am a Princess.“ Eftir að strákarnir voru farnir kom í ljós að þetta

voru tónlistarmaðurinn Prince og vinir hans að skemmta sér.“

Ritstjórn nóvember 13, 2023 07:48