Við hverju má búast þegar gerð er liðskiptaaðgerð?

Á síðasta ári var gerður metfjöldi liðskiptaaðgerða hér á landi eða 2.138. Þetta dugði þó ekki til að eyða biðlistunum eftir slíkum aðgerðum en þeir styttust. Slitgigt er sársaukafullur sjúkdómur og algengur meðal eldra fólks hér á landi. Mjaðma- eða hnjáliðir eru einu liðirnir sem hægt er að skipta um enn sem komið er þótt aðrir liðir geti orðið sliti að bráð og valdið miklum sársauka og óþægindum. En skoðum hvernig liðskiptaaðgerðir fara fram og við hverju má búast eftir að þær hafa verið gerðar.

  1. Mjaðma- og hnjáskipti  

Hér sést um hvað er skipt þegar gerð er mjaðmaskiptaaðgerð.

Skipt er um mjaðmakúluna og liðinn fyrir neðan hana þar sem efsti hluti lærleggsins gengur inn í mjaðmagrindina við augnkarlinn. Til skýringar má segja að um sé að ræða einmitt þann hluta liðsins sem hreyfist þegar fólk sest niður. Í heilbrigðum lið þekur brjósk þann hluta liðamótanna þar sem beinin mætast. Brjóskið virkar eins og púði og dregur úr höggunum þegar beinin mætast og hreyfast við liðamót. Með árunum eyðist brjóskið en misjafnt er eftir einstaklingum hversu hratt það gerist. Erfðir ráða miklu en einnig lífsstíll einstaklingsins. Fólk sem hreyfir sig mikið eða stundar íþróttir eyðir brjóskinu hraðar en þeir sem gera minna. Slys og óhöpp þar sem högg koma á liðinn geta hraðað ferlinu og skemmt brjóskið. Þegar beinin taka síðan að nuddast saman veldur það miklum sársauka og bólgum í liðnum og gerir fólki erfiðara að hreyfa sig.

Þegar skipt er um mjaðmalið kemur skurðlæknirinn fyrir liðskál eða augnkarli úr málmi í mjaðmagrindinni og málmstilk efst á lærleggnum og býr þannig til ný liðamót. Þar með verða allar hreyfingar auðveldari og sársaukinn hverfur.

Gerviliður í hné.

Þegar skipt er um hné er settur í gerviliður úr tveimur hlutum; lærbeinshluta úr ryðfríu stáli (krómkóbolt) og sköflungshluta úr ryðfríu stáli eða títaníum og plastfóðringu. Í einstaka tilvikum þarf að setja fóðringu aftan á hnéskelina en íhlutir eru festir við bein með beinsementi. Þegar skipt er um allan liðinn er allur liðflöturinn við lærlegg og sköflung fjarlægðir og sniðnir að þeim íhlutum sem þar á að setja. Skemmdir vefir eru hreinsaðir burtu en reynt að halda í öll starfhæf liðbönd. Stundum  er sett plast aftantil á hnéskel en oftast eru slitfletir hennar aðeins snyrtir.

  1. Ekki alltaf nauðsynlegt að skipta um lið

Verkir og bólga vegna slitgigtar skerða hreyfigetu þeirra sem þjást af henni. Iktsýki eða liðagigt getur líka valdið brjóskeyðingu sem og högg sem koma á liðinn vegna þess að fólk dettur og beindrep. Ákvörðunin um hvort nauðsynlegt sé að skipta um lið og hvenær það er gert er í höndum lækna. Gerviliðir endast í 10-20 ár og þess vegna reyna læknar yfirleitt að draga það að gera aðgerð eins lengi og hægt er. Oft er hægt að draga úr sársaukanum og halda fólki góðu með sterasprautum í liðinn, bólgueyðandi lyfjum, sjúkraþjálfun og hjálpartæki eins og stafir geta nýst mörgum.

  1. Flestir ná sér fljótt

Sjúklingar mæta á sjúkrahúsið að morgni aðgerðardags og eru fastandi. Blóðþynningarlyf eru gefin með sprautu kvöldið fyrir aðgerð og sjúklingurinn fer í sturtu og þvær sér með sérstakri sótthreinsandi sápu sem hann er látinn fá. Eftir liðskiptaaðgerð stoppar fólk stutt á sjúkrahúsinu, flestir eru útskrifaðir daginn eftir aðgerð. Verkir eru óhjákvæmilega miklir fyrstu dagana en það er mikilvægt að fólk byrji að hreyfa sig sem fyrst til að koma í veg fyrir blóðtappamyndum. Aðgerðin sjálf tekur eina og hálfa til tvær klukkustundir og oftast fer fólk fram úr og gengur aðeins um strax og það hefur jafnað sig eftir svæfingu eða epidúral-deyfingu.

  1. Fullur bati næst á tveimur til þremur mánuðum 

Í flestum tilfellum tekur tvo til þrjá mánuði að ná sér að fullu. Það tekur líkamann þann tíma að venjast aðskotahlutunumog vefirnir í kringum liðinn þurfa um það bil þrjá mánuði til að gróa. Það er mjög gott að nota margvísleg hjálpartæki fyrstu vikurnar svo sem eins og sokkaífæru, klemmur sem hjálpa þér að toga upp buxurnar, langt skóhorn, göngugrind, göngustafir og þrep til að hjálpa þér að fara ofan í baðker ef þú hefur ekki aðgang að sturtu. Verkjalyf eru auðvitað sjálfsögð fyrst til að byrja með en í mörgum tilfellum hjálpar mikið að kæla liðinn með kælipokum. Það dregur verulega úr bólgum.

 

Ritstjórn desember 28, 2024 07:00