„Ég fer í fjós kvölds og morgna og mjólka kýrnar, það er að segja ef ég er ekki að sinna félagsmálum. Ég sinni enn mörgum verkefnum fyrir félagasamtök og stofnanir. Það er ótrúlegt að það skuli enn vera einhver eftirspurn eftir manni. En ég er þrælbrött og verð eiginlega aldrei veik,“ segir Drífa Hjartardóttir bóndi á Keldum á Rangárvöllum hlæjandi þegar Lifðu núna spyr hvað hún sé að gera um þessar mundir.
Árið sem allt breyttist
Þau eru drjúg verkin hennar Drífu Hún er bóndi af lífi og sál, hefur verið einn af máttarstólpum sinnar sveitar, þingmaður og ötul félagsmálakona. Drífa er fædd og uppalin í Reykjavík og á Seltjarnarnesi. Þar var hún eins hver annar kaupstaðakrakki sem fór í sveit í nokkur sumur til frænda síns á Ingjaldssand í Önundarfirði. Þegar hún var tólf ára söðlaði hún hins vegar um í lífinu og fór að vinna í búð föðurafa síns á sumrin og í öllum skólafríum. Drífa lauk landsprófi vorið 1967 og hóf nám í MR sama haust. Árið 1968 var hins vegar árið sem allt breyttist. Hún réði sig sem kaupakonu að Keldum og þar tókust náin kynni með henni og syni bóndans honum Skúla Lýðssyni. „Ég kom hingað alkomin 1969 og hér hef ég búið síðan. Okkur Skúla fæddist sonur það sama ár og þar með voru örlög mín ráðin. Þó mér þætti erfitt að hætta í MR og sæi eftir að hætta í skóla var ekkert annað í stöðunni. Á þessum árum var ekki nokkur leið að vera í fjarnámi eða stunda nám utan skóla. Í dag hefði staðan verið allt önnur með allri þeirri tölvutækni sem nú er til staðar, ég hefði örugglega haldið mínu striki í náminu og sinnt því með búskapnum,“ segir hún.
Myrkrið var svo svart
Drífa segir að það hafi verið gríðarleg viðbrigði að flytja í sveitina. „Ég man hvað mér þótti myrkrið svart hér þegar það fór að hausta. En ég gerði það besta úr öllu, las gríðarlega mikið og svo var nóg að gera á búinu,“ segir hún. Þegar frá leið fann Drífa leið til að halda áfram að mennta sig. Hún skráði sig á allskonar styttri námskeið og sótti þau til Reykjavíkur þar sem hún bjó hjá foreldrum sínum með drenginn. „Ég bætti líka tungumálakunnáttu mína, hafði alltaf haft áhuga á að læra tungumál og það hefur gagnast mér vel í lífinu. Svo eignuðumst við annan son 1973 og sá þriðji bættist í hópinn 1980.“ Drengirnir sóttu skóla á Hellu en Drífu og fleiri foreldrum fannst skólinn ekki nógu góður. „Ég hef nú alltaf verið þannig gerð að ég get ekki bara setið og talað við eldhúsborðið. Ég vil beita mér, láta til mín taka. Það varð því úr að við nokkrir foreldrar stofnuðum foreldrafélag sem hafði það að markmiði að bæta skólann. Ég gat svo beitt mér enn betur í skólamálum, þegar ég tók sæti í skólanefnd og svo í hreppsnefnd í hátt í tuttugu ár. Okkur tókst ætlunarverkið að koma skólanum í gott lag,“ segir hún og bætir við „grunnskólinn á Hellu er mjög góður skóli.“
Það urðu aldrei vinslit
Á meðan Drífa sinnti uppbyggingu skólans tók hún líka að sér allskonar verkefni fyrir sitt sveitarfélag og opinberar stofnanir. Hún sat í stjórnum eða stýrði hinum ýmsu félögum. Hún starfaði innan vébanda Sjálfstæðisflokksins í Suðurlandskjördæmi og svo fór að hún var beðin um að taka þátt í prófkjöri flokksins í kjördæminu árið 1991. „Ég var stödd í Ungverjalandi þegar tveir vinir mínir hringdu og báðu mig um að taka þátt. Þeir sögðu að ég hefði ekki um neitt annað að velja svo ég sagði bara já.“ Drífu gekk vel í prófkjörinu þó hún hafi ekki náð inn á þing í þeirri atrennu. Hún var hins vegar varaþingmaður næstu átta árin en var kosin á þing 1999 og sat þar næstu átta árin. „Mér fannst bæði gaman og lærdómsríkt að sitja á Alþingi. Allt það góða fólk sem maður kynntist á þingi og í kjördæminu er eftirminnilegt og þó menn tækjust oft á, urðu aldrei vinslit. Ég var alltaf í meirihluta þau ár sem ég sat á þingi og það var uppgangur í þjóðfélaginu. Okkur í meirihlutanum tókst því að koma mörgum góðum málum til leiðar. Ég fékk líka tækifæri til að sitja í hinum ýmsu nefndum þingsins. Ég sat í umhverfis-, landbúnaðar- iðnaðar-, félagsmála-, fjárlaga- heilbrigðis- og trygginganefnd og utanríkismálanefnd.
Ánægð með hafa lagt sitt að mörkum
Af öllum þessum nefndum fannst mér ég læra mest af því að sitja í fjárlaganefndinni. Málefni þeirrar nefndar snerta allt og alla. Annars finnst mér líka gaman að segja frá því að ég er eina konan sem hef gengt formennsku í landbúnaðarnefnd. Sú nefnd er raunar ekki til lengur, nú er það atvinnuveganefnd sem fer með málefni landbúnaðarins.“Drífa var á tímabili nokkuð gagnrýnd fyrir að sitja í nefndinni þar sem hún var bóndi. „Það var nú bara alger vitleysa,“ segir hún og bætir við að hún hafi haft sérþekkingu á málaflokknum. Ég fékk lögfræðiálit þess efnis að ég væri ekki vanhæf. Að halda svona fram væri álíka vitlaust og halda því fram að hjúkrunarfræðingur mætti ekki sitja í heilbrigðisnefnd. Það væri bara jafn galið.“ Drífa var um hríð fyrsti þingmaður síns kjördæmis en hún varð aldrei ráðherra. Segist reyndar ekki hafa sóst eftir því. „Það er ekki takmark allra þingmanna að verða ráðherra. Ég var bara ánægð með að leggja mitt af mörkum og sinna starfi mínu sem þingmaður af kostgæfni. Ég minnist með gleði þess að fyrir mitt tilstilli var samþykkt að hefja leit að krabbameini í ristli, tillaga um þriggja farsa rafmagn var samþykkt og ég fékk samþykkt lög um þjóðbúningaráð, svo ég nefni nú eitthvað,“ segir hún.
Ferðamenn ekkert að plaga okkur
Keldur á Rangárvöllum eru einn sögufrægasti staður Íslands. Drífa þekkir sögu staðarins vel enda var hún starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands í mörg sumur. Þá sagði hún gestum og gangandi frá sögu staðarins. “Hér eru miklar fornminjar og mörg kennileiti á jörðinni sem vísa beint í sagnaarfinn. Keldur koma bæði við sögu í Njálu og Sturlungu og jörðin var raunar á tímabili bæði í eigu Oddaverja og Sturlunga. Einn frægasti eigandi Keldna var Jón Loftsson. „Það eru gríðarlega margir ferðamenn sem koma hingað á hverju ári á öllum tímum sólarhrings og undanfarin ár hefur þeim farið stöðugt fjölgandi. Meira að segja á jóla- og nýársdag koma ferðamenn hingað. Gamli bærinn er lokaður yfir vetrartímann en fólk gengur hér um til að skoða sig um. Annars eru ferðamenn ekkert að plaga okkur. Þetta er upp til hópa kurteist og elskulegt fólk sem hingað kemur. Það kemur þó fyrir að þeir þurfi aðstoð og við látum hana í té með glöðu geði.“
Ætla að halda áfram að búa
Drífa segir að þau hjón séu ekki á þeim buxunum að hætta að búa á næstunni. „Við erum með góða hjálp og þetta gengur allt ágætlega. Við erum með nálægt 200 ær á fóðrum um 50 mjólkandi kýr og heilmikið af holdagripum, það er nautgripum sem notaðir eru í kjötframleiðslu. Svo erum við í umfangsmikilli skógrækt,“ segir hún. Það lifnar yfir röddinni í Drífu þegar hún fer að tala um skógræktina. „Við erum búin að planta um tveimur milljónum plantna undanfarinn aldarfjórðung eða svo. Höfum verið þátttakendur í Suðurlandsskógum síðan þeir voru settir á laggirnar. Í grennd við Keldur eru stór örfoka svæði. Þegar við byrjuðum að planta var þetta svartur sandur. Í dag er landið að skrýðast skógi, mest birki. Það er alveg magnað að fylgjast með skóginum vaxa og dafna. Upplifa hvernig skógarbotninn klæðist gróðri og hvernig nýir landnemar nema land. Í dag eru hér fugla og skordýrategundir sem voru óþekktar áður en við fórum að planta skóginum. Þetta er bæði vinna og áhugamál hjá okkur hjónum að koma þessum skógi upp,“ segir Drífa og bætir við að hún skilji stundum ekkert í því að þau skuli ekki hafa byrjað að rækta skóg miklu fyrr. „Þetta er hreinlega mannbætandi.“
Gæðastundir í traktornum
Drífa segir að hennar síðustu afskipti af pólitík hafi verið þegar hún gegndi starfi sveitarstjóra í Rangarþingi ytra í tvö ár. Eftir að hún lét af þingmennsku var hún við störf í Valhöll sem framkvæmdastjóri og formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna. „Nú er ég í bakhópnum og er alltaf tilbúin til að koma að til að hjálpa mínu fólki.“ Hún situr í mörgum nefndum og stjórnum ýmissa félaga enn þann dag í dag. Ég hef meðal annars setið á Kirkjuþingi síðast liðin fjögur ár og er núna í framboði til kirkjuþings. Ég er vel á mig komin og er alltaf komin á fætur klukkan sex á morgnana. Ég myndi hreinlega koðna niður ef ég væri ekki líka í þessu félagsmálastússi alla daga. Á sumrin eru svo mínar mestu gæðastundir í skógræktinni og við slátt. Ég slæ öll tún hér á Keldum og nota tímann traktornum til að hugsa og hlusta á útvarp.“