Eina vopnið að eldri borgarar bjóði fram sérlista

Halldór Gunnarsson, fyrrverandi sóknarprestur í Holti á Rangárvöllum, hefur lýst þeirri skoðun sinni að hann telji að efna eigi til sérframboðs eldri borgara til Alþingis. Hann segist hafa á undanförnum landsfundum hjá Landssambandi eldri borgara talað fyrir því sem hann teldi að þyrfti að gera. Á síðasta landsfundi hefði hann flutt tillögu um að stjórn LEB hefði heimild fyrir að kanna möguleika á sérframboði, sem hefði verið samþykkt. „En mér finnst reyndar lítil samstaða um að reyna það,“ segir hann.

Eins og kvennaframboðin

Hann gagnrýnir aðgerðaleysi stjórnvalda í málefnum eldri borgara. Þar sé fátt um svör við kröfum þeirra. Þá bendir hann á að sitjandi ríkisstjórn hafi hvorki ákveðið að leyfa eldra fólki sem komið er á eftirlaun að stunda launavinnu án skerðinga frá almannatryggingum, né dregið úr skerðingunum almennt. „Þá taldi ég að ef engu væri svarað, yrði einhvers konar framboð að eiga sér stað og Landssamband eldri borgara yrði að hafa forystu um það. Þá væri þetta eins og framboð kvenna á sínum tíma, bara til að ná árangri í þessu eina máli, málefnum eldri borgara. Það væri nauðvörn að bjóða fram.“

Framboðið yrði að einbeita sér að þessum eina málaflokki

Halldór segist hafa séð fyrir sér að stjórn Landssambandsins færi um landið, héldi fund í hverju félagi og sýndi svart á hvítu hvernig eldri borgarar hefðu verið skildir eftir. Þá yrðu menn spurðir hvort þeir vildu fara í framboð og ef þeir svöruðu játandi yrði þeim falið að safna undirskriftum og benda á 3–4 menn til þess að fara í framboð. Stjórn Landssambandsins myndi síðan stilla listunum upp. Hann segir að framboðið yrði að einbeita sér eingöngu að málefnum eldra fólks, því þá væri auðveldara að fá fólk til að kjósa það. Þegar kæmi að málaflokkum eins og sjávarútvegsmálum eða heilbrigðismálum sem varða ekki eldri kynslóðina skiptist fólk aftur á móti í marga flokka með mismunandi áherslur.

Gat ekki einu sinni látið lífskjarasamninginn gilda fyrir eldra fólk

„Ég tel að þetta hefði getað verið gerlegt og að þetta sé það eina sem hægt er að gera. Það næst ekki árangur þó eldra fólk fari á lista og skipi þriðja eða fjórða sæti á framboðslistum flokkanna,“ segir Halldór. „Núverandi ríkisstjórn lækkaði skattleysismörkin tvö ár í röð og gat ekki einu sinni látið lífskjarasamninginn gilda fyrir eldra fólk. Því er eina vopnið að bjóða fram. Ef eldra fólkið myndi kjósa sérframboðið og ná inn 3–4 þingmönnum, myndum við styðja ríkisstjórn sem tæki á þessum málum.“ Halldór telur að sérframboð eldri borgara ætti ekki að gera kröfu um að fara í ríkisstjórn, heldur krefjast þess að þau mál sem á eldri borgurum brenna verði leiðrétt. „Ef ríkisstjórn gerði það myndum við verja hana vantrausti,“ segir hann. „Núna er staðan þannig að það vantar kannski 3–4 þingmenn til að styðja núverandi ríkisstjórn áfram eða aðra stjórn. Á hinum Norðurlöndunum er það ekki skilyrði að minni flokkar fari alltaf í ríkisstjórn.“

Taka skattinn af lífeyrissjóðunum fyrirfram

Halldór sér fyrir sér að eldri borgarar myndu bjóða fram með svipuðum hætti og Kvennalistakonur gerðu á sínum tíma. Þingmenn þeirra myndu standa saman um baráttu fyrir hag eldri borgara en í öðrum þingmálum taka sjálfstæða ákvörðun um hvert og eitt mál. Meðal brýnna verkefna telur hann að eyrnamerkja fjárframlög til hjúkrunarheimila. Það safnast um 2 milljarðar í framkvæmdasjóð aldraðra árlega, sem allir skattgreiðendur frá 18 ára aldri til 67 ára greiða í. Svo fari ekki nema um 300 milljónir á ári í verkefni, sem sjóðnum er ætlað að fjárfesta í. Hann telur koma til greina að setja á stighækkandi erfðafjárskatt, sem væri eyrnamerktur til viðbótar í sjóðinn til uppbyggingar á hjúkrunarheimilunum og til rekstrarstuðnings þeirra. „Þá myndu þessar hörðu skerðingar á ráðstöfunarfé fólks, sem þar dvelur jafnframt verða breytt.“ Halldór segir einnig að með því að taka skattinn af lífeyrissjóðsgreiðslunum áður en greitt er inní sjóðina en ekki eftirá eins og nú er, þá fáist um 100 milljarðar króna árlega til ráðstöfunar til ríkis og sveitarfélaga. „Ef þessu yrði breytt væri auðvelt að hækka greiðslur úr almannatryggingakerfinu, hækka skattleysismörkin og lækka verulega skerðingar á greiðslum almannatrygginga á móti áunnum greiðslum frá lífeyrissjóðum, sem myndi bæta verulega stöðu eldri borgara, einkum þeirra um 12 þúsund eldri borgara sem lifa ekki af lágmarksgreiðslu almannatrygginga núna. Einnig yrði af þessum fjármunum mikill afgangur til að bæta heilbrigðisþjónustu og vegakerfi landsins.“

Ritstjórn ágúst 3, 2021 07:00