Vaxandi kjósendahópur

Umfjöllun um aldraða á Alþingi og opinber umræða yfirleitt einkennist fyrst og fremst af því að litið sé á þá sem vandamál“ segir Helga Hjörvar formaður Sextíu plús hjá Samfylkingunni. „Það eru eftirlaunin, hjúkrunarrýmin og yfirfull sjúkrahús“.

Helga Hjörvar formaður Sextíu plús í Samfylkingunni

Helga Hjörvar formaður Sextíu plús í Samfylkingunni

Sama vinnugeta og daginn áður

Helga segir að það sé eðlileg krafa eldra fólks að það haldi áfram að vera fullgildir þjóðfélagsþegnar þó það hafi fengið samheitið ellilífeyrisþegar. „Daginn sem þú verður 67 ára hefur ekkert breyst, þú hefur sömu vinnugetu og andlegt ástand þitt er sama og daginn áður“,segir hún.

Ólíkur hópur

Eldra fólk sé hins vegar ekki einn hópur, sumir séu fullir starfsorku en aðrir þreyttir og slitnir. Þá sé fjárhagur þess einnig mismunandi. En eldri borgarar eru vaxandi hluti kjósenda segir Helga. „Þeir hafa lagt sinn skerf til uppbyggingar þjóðfélagsins og gera þá kröfu til stjórnvalda að hlutur þeirra, sem höllum fæti standa verði leiðréttur samtímis því að kerfið fái þann sveigjanleika að fjölbreytilegir hæfileikar fái notið sín“.

Lítil umræða á Alþingi

Þórunn Sveinbjörnsdóttir sagði nýlega í viðtali við Lifðu núna að það hefði komið sér á óvart eftir að hún tók við formennsku í Félagi eldri borgara hvað málefni þeirra væru lítið rædd á Alþingi.

Halldór Blöndal formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna

Halldór Blöndal formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna

Fjárlög og tryggingamál snerta eldri borgara

Halldór Blöndal formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna segist ekki átta sig á hvert formaður Félags eldri borgara sé að fara. Hann hafi ekki hlustað á það sem fram fer á Alþingi, en umræða um fjárlög og tryggingamál snerti meðal annars málefni eldri borgara. „Allt sem lýtur að Landsspítalanum snýst um stöðu þeirra“, segir hann. Hann segir að venjan sé sú að mál séu ekki rædd nema um þau séu flutt frumvörp og tillögur.

Hefur tekist að nokkru að rétta hlut aldraðra

Halldór segir að nú sé starfandi nefnd sem Pétur Blöndal alþingismaður er í forsvari fyrir og hún hafi það verkefni að skoða sveigjanleg starfslok og töku ellilífeyris. Hann segir einnig að ályktun Samtaka eldri sjálfstæðismanna hafi verið tekin inní ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins „Við höfum haldið þeim málum vakandi og hefur tekist að rétta að nokkru hlut aldraðra og öryrkja eftir vinstri stjórn í rúm fjögur ár“.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn september 26, 2014 21:25