Vilja ekki að tengdabörnin fari í burtu með arfinn

Elín Sigrún Jónsdóttir

„Foreldrar sem sjálfir hafa skilið velja í auknu mæli að gera erfðaskrá þar sem kveðið er á um að arfur frá þeim verði séreign barnanna þeirra. Ég tel að það hafi  færst í vöxt að fólk geri þetta og skiljanlega, þegar  helmingur hjónabanda endar með skilnaði“. Þetta segir Elín Sigrún Jónsdóttir lögmaður hjá Búum vel, en hún hefur sérhæft sig í þjónustu við eldra fólk.  Hún segir líka að fólk erfi almennt hærri fjárhæðir nú, en það gerði fyrir nokkrum áratugum. „Þegar ég var að byrja í lögmennsku var oft lítið í dánarbúum. Í dag er fasteignaverð hátt, þannig að ef fólk á hús og sumarbústað, getur arfur barnanna numið 100 – 200 milljónum króna sem skiptast kannski milli tveggja, en í sumum búum er lítið og kannski eingöngu skuldir. Það er mat mitt að  þessar upphæðir hafi hækkað töluvert í ljósi betri lífskjara.“

Afsökuðu að þau vildu gera erfðaskrá

Elín segir það færast í vöxt að fólk á sjötugsaldri vilji gera erfðaskrár. „Þegar ég var að byrja í starfi fyrir tæpur fjórum áratugum, kom til mín fólk um sjötugt og var hálfpartinn að afsaka það að þau vildu gera erfðaskrá, það var bara eitthvað sem menn höfðu séð í bíó að var gert, en hér á landi var það ekki algengt. Nú þykir það eðlilegt að gera erfðaskrá og menn velta fyrir sér hvort þeir eigi að gera erfðaskrá, eða hvort þeir þurfi að gera erfðaskrá“, segir hún.

Erfðaskrá tryggir setu í óskiptu búi

Það eru þrjú atriði sem einkum valda því að sögn Elínar að fólk vill gera erfðaskrá.  Í fyrsta lagi til að  tryggja að arfurinn verði séreigna barnanna, í öðru lagi til að tryggja rétt eftirlifandi maka til að sitja í óskiptu búi, sem er nauðsynlegt ef börnin eru ekki öll sameiginleg eins og algengt er  í blönduðum fjölskyldum.  Stjúpbörn þurfa nefnilega að gefa samþykki sitt til að maki foreldris þeirra fái að sitja í óskiptu búi og geta þannig knúið á um skiptingu búsins, ef þeim sýnist svo.  Í þriðja lagi vill fólk stundum nýta heimild erfðalaga til að ráðstafa allt að þriðjungi eigna sinna. Það getur fólk gert og aukið þannig til dæmis hlut eins barns síns, barnabarna eða ráðstafað arfi til dæmis til almannaheillafélags.  „Ef fólk er í óvígðri sambúð, getur það gert gagnkvæma erfðaskrá og arfleitt hvort annað að þriðjungi eigna sinna ef þau eiga börn, en annars af öllum eignum, en ella erfa þau ekki hvort annað, sama hversu lengi sambúðin hefur varað. Það er því mikilvægt fyrir sambúðarfólk að huga að möguleikum sínum“, segir hún.

Reynir ekki á séreign arfs nema fólk skilji eða deyji

En hvernig getur arfur orðið séreign barns, sem er í hjónabandi og deilir búi með makanum? Elín segir að það reyni í raun ekki á þetta, nema fólk skilji eða deyji. „Fólki finnist súrt í broti, að fá arf eftir foreldra og makinn gangi síðan út með helming fjárins, ef skilnaður verður nokkrum mánuðum eða árum síðar. Þess vegna færist það í vöxt að arfur sé gerður að séreign barns. En það er mikilvægt að börn sem fá arf með þeim formerkjum að hann skuli vera séreign, tryggi að arfinum verði haldi aðgreindum, heppilegast er að gera um hann kaupmála, því annars getur reynst örðugt fyrir barnið að sanna tilvist séreignarinnar ef það skilur kannski áratugum síðar“, segir Elín.

Það er misjafnt hvað það kostar að gera erfðaskrá og fer eftir því hversu flókið það er og hversu langan tíma það tekur, en Elín segir algengt verð um 60 þúsund krónur án virðisaukaskatts.

Ritstjórn febrúar 28, 2023 07:00