Stöðugt fleiri vilja jarðarför í kyrrþey

Það færist í vöxt að jarðarfarir fari fram í kyrrþey.  Árið 2010 fóru 2% allra jarðarfara í landinu fram í kyrrþey, en á síðasta ári var hlutfallið komið í 12%.  Á bak við þessar tölur voru 43 jarðarfarir árið 2010, en 258 árið 2017. Endanlegar tölur fyrir 2018 liggja ekki fyrir.

Elín Sigrún Jónsdóttir

Ofbýður kostnaður við erfisdrykkjuna

Elín Sigrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri Útfararstofu Kirkjugarðanna, segir þetta gríðarlega áhugaverða þróun. „Við bjóðum þeim sem vilja skipuleggja eigin útför, uppá sérstök viðtöl og þá koma þeir kannski með ósk um að útförin fari fram í kyrrþey. Þegar við spyrjum hvers vegna, er svarið oft, að fólki ofbýður kostnaðurinn við erfisdrykkjuna og telur að hann sé of mikill fyrir ástvini.  Stundum er ástæðan  fyrir þessu vali hógværð þess sem er látinn og einnig getur ágreiningur í fjölskyldum, þar sem fólk talast ekki við, valdið því að ákveðið er að útför fari fram í kyrrþey. Stundum er ástæðan líka einsemd. Það eru dæmi um útfarir þar sem enginn mætir, eða kannski bara tveir eða þrír“, segir hún.

Algengast að verða við ósk hins látna

Ef jarðarför fer fram í kyrrþey er fólki boðið í jarðarförina. Það kemur fyrir að hinn láti hefur skilið eftir sig lista yfir þá sem börnin eiga að bjóða.  „Þegar fólk hefur farið fram á að jarðarförin fari fram í kyrrþey, þá eru aðstandendur spurðir hvort það sé líka þeirra ósk. Algengast er að þeir svari því til að þeir vilji verða við þessari ósk hins látna“, segir Elín Sigrún.  Hún bendir á að það sé ekki nauðsynlegt að vera með stóra erfisdrykkju. Það sé hægt að bjóða uppá kaffi og konfekt og svo komi líka fyrir að fólk slái saman og komi með veitingar með sér í jarðarförina. „Það er oft ótrúlega fallegt“, segir hún.

Mikið fjölmenni í íslenskum jarðarförum

Elín Sigrún segir að það sé sterk hefð fyrir jarðarförum á Íslandi og þær séu mun meiri viðburður en jarðarfarir á öðrum Norðurlöndum.  „Þar er sjaldgæft að meira en 30 manns komi í jarðarför, en á Íslandi mæta að meðaltali um 150 í jarðarfarir.  Það sem er líka öðruvísi í útförum á Íslandi er tónlistin, það er svo mikil og falleg tónlist. Það tíðkast ekki á Norðurlöndunum. Jarðarfarir á Norðurlöndum eru líkari kistulagningu á Íslandi þar sem 25-30 manns mæta“.  Stundum hafa menn ekki hugmynd um það hér á landi, hversu margir muni mæta í jarðarför eða koma í erfisdrykkju. En í Svíþjóð til dæmis, er tekið fram í dánartilkynningu að fólk þurfi að tilkynna fyrirfram hvort það ætlar að koma  í jarðarförina.

Fá alltaf frí til að fara í jarðarför

Elín Sigrún segir að jarðarför hafi alltaf forgang hérna hjá okkur og fari yfirleitt fram innan 7-10 daga frá andláti þess sem á að jarða. „Aðstandendur fá alltaf frí til að fara í jarðarför. Það er borin virðing fyrir því í okkar samfélagi.  Í Svíþjóð hefur það verið þannig að útför hefur að meðaltali farið fram 60 dögum eftir andlát, vegna þess að fólk hefur fundið ekki pláss fyrir jarðarförina í dagbókunum sínum. Nú hafa verið sett þar lög sem kveða á um að útför skuli fara fram eigi síðar en 30 daga frá andláti“.

Skoðaðu upplýsingar um andlát og jarðarfarir í Upplýsingabanka Lifðu núna. Hér.

Ritstjórn desember 13, 2018 10:10