Viltu gefa mér merki ef þú ert til

Davíð Þór Jónsson.

Sr. Davíð Þór Jónsson, prestur í Laugarneskirkju, segir að þegar hann byrjaði í guðfræðinni 26 ára gamall hafi það ekki verið prestskapur sem heillaði hann heldur fagið sjálft. “Ég hef alltaf verið áhugasamur um trú og trúarbrögð sem afl til góðs eða ills í mannlegu samfélag. Ég var auðvitað leitandi trúarlega en mér þóttu fræðin sérlega áhugaverð.”

Bakgrunnur Davíðs er sannarlega óhefðbundinn en hann segist ekki vera jafn óhefðbundinn prestur og margir telji. “Ég fæ skítapillur af og til en mér þykir frekar lágkúrulegt að hjóla í manninn en ekki boðskapinn þegar rök skortir. Það er af nógu að taka þegar fortíð mín er skoðuð. Ég er fyrrverandi fíkill og sú staðreynd hefur fært mörgum heim sanninn um að ég sé breiskur eins og hver annar og það er gott. Fólk á ekki á hættu að mæta siðferðilegu yfirlæti þegar það kemur til mín. Ég náði bata og myndi aldrei fórna því sem ég hef í dag fyrir fíkniefni af neinu tagi.”

Fékk svar frá Guði

Nú eru rúm 15 ár frá því að Davíð hætti að drekka. Það var á páskadag 2005 sem hann segist hafa risið upp frá andlegum dauða. “Skömmu síðar settist ég inn í kirkju á Staðarfelli þar sem ég var í eftirmeðferð og var í öngum mínum og vanlíðan og sagði við Guð: “Viltu gefa mér einhver merki um að þú getir gert mig andlega heilbrigðan á ný ef þú ert til.” Þar sem ég stóð upp til að ganga út kom ég auga á litla öskju með miðum þar sem á stóð “Orð guðs til þín”. Ég dró ritningarstað úr fyrra Pétursbéfi þar sem stóð: “Varpið allri áhyggju á hann því hann ber umhyggju fyrir yður.” Ég hugsaði með mér að þetta væri nú merkileg tilviljun en var auðvitað fullur vantrúar og kaldhæðni. Ég hugsaði strax að þeir þarna á Staðarfelli hefðu auðvitað handvalið ritningarstaði í þetta box. Þar sem ég var í svo mikilli þörf fyrir hjálp á þessum tíma fór ég og leitaði að biblíu og fann textann og las áfram: “Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum, stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug.”

Skynsamasta ákvörðunin

Davíð segir að í hans huga hafi ekki verið nokkur vafi á því hver var djöfullinn í lífi hans á þessum tíma. “Þarna fannst mér ég fá loforð um að ef ég myndi halda mér allsgáðum myndi ég verða reistur við af guði almáttugum og styrktur og gerður öflugur. Ég ákvað að trúa því að svo væri og það var einhver skynsamasta ákvörðun sem ég hef tekið um dagana. Ég held að guð tali stundum við okkur í tilviljunum. En þá verðum við að vera opin fyrir því og taka eftir. Kannski var ég á þessum tíma svona rosalega opin fyrir því að fá staðfestingu fyrir að ég væri ekki dauðadæmdur. Að það væri eitthvað fram undan annað en þjáningar og vanlíðan.”

Hamingjusöm fyllibytta í 20 ár

“Ég var hamingjusöm fyllibytta í 20 ár,” segir Dvíð. “Vandamálið er að ég var fyllibytta í 25 ár. Þessi síðustu fimm ár voru svo skelfileg að ég er reiðubúinn að leggja á mig mikla vinnu til að fara ekki þangað aftur. Sú vinna verður aldrei jafn erfið og að vera þar. Nú eru fimmtán ár síðan ég hætti að drekka og af þeim hef ég ekki þurft að glíma við erfiða fíkn í 10 ár. Fyrstu tvö árin þurfti ég stundum að bíta í blýant og vera edrú í korter. En það var þess virði.”

Nú er áfengi ekki inni í myndinni lengur hjá Davíð Þór en hann gerir sér grein fyrir því að hann verður alltaf að vera á varðbergi. “Ég veit að ég vil ekki fórna því sem ég hef í dag fyrir nokkurn mun. Ég á tvö ung börn, er nýgiftur og er í draumastarfi. Þetta er nokkuð sem ég taldi útilokað fyrir 15 árum að framtíðin geymdi handa mér. Ég vinn því þá vinnu sem ég þarf til að halda í það með glöðu geði vegna þess að það sem ég fæ í staðinn er svo margfalt meira en það sem ég þarf að leggja á mig.”

Ekkert okkar hálfvolgt í afstöðu sinni

Davíð er alinn upp við hefðbundna trú flestra í þá daga. “Ég var signdur áður en ég var settur í kotið en foreldrar mínir voru ekki kirkjurækin. Ég var skýrður og fermdur en trú var aldrei haldið sérstaklega að mér í uppvextinum. Við sóttum ekki kirkju á aðfangadag en við hlustuðum á aftansönginn á meðan við borðuðum. Það var ekki fyrr en seinna sem mamma varð virk í kvennakirkjunni. Á sama tíma gekk bróðir minn í Vantrú og faðir minn í Ásatrúarfélagið. Ekkert okkar er hálfvolgt í sinni afstöðu en erum ekkert að boða hvert öðru okkar lífsskoðanir en berum virðingu fyrir afstöðu hinna.”

Gott fólk getur átt samleið

“Ég hef þá trú að ef trúarbrögð, hver sem þau eru, eru iðkuð af góðu fólki þá geti allir átt samleið. Góður Gyðingur, góður Múslimi, góður Kristinn maður geta búið saman í sátt og samlyndi. En ef einhver þessara manna er krumpaður að einhverju leyti þá eru trúarbrögðin handhæg tylliástæða til að búa til vandræði. Ef þú ert ofbeldismaður þá verður trú þín ofbeldishneigð. Ef þú ert friðarins maður þá veður trú þín kærleiksrík og umburðarlynd. Ef þú ert trúlaus ofbeldismaður þá verður þú sami ofbeldismaðurinn en ef þú ert trúlaus, kærleiksríkur og umburðarlyndur maður verður þú þannig maður. Með öðrum orðum gerir trúin þig ekki góðan nema þú takir ákvörðu um að vera góður. Eins og dæmin sanna getur þú verið ofboðslega trúaður maður í eigin sannfæringu um að guð hafi gefið þér prókúru á mun góðs og ills. Sami maður getur svo staðið í pontu og predikað fullum hálsi gegn mannréttindum í nafni guðs almáttugs. Felst ekki tvískinnungur í því?”

Er guð til?

Sr. Davíð Þór Jónsson.

Davíð segir að sér finnist spurningin um það hvort guð sé til vera óáhugaverð. “Svar mitt við þessari spurningu er sannarlega já. Annars væri erfitt fyrir mig að vera prestur. En það er ekki mitt hlutverk að sannfæra fólk um að guð sé til. Spurningin er ekki viðfangsefni guðfræðinnar og er ekki einu sinni áhugaverð út frá sjónarhóli guðfræðinnar. Það er ekki hægt að ræða þessa spurning nema út frá tilfinningalegum forsendum. Mín tilfinning er ekkert réttmætari en bakarans eða rafvirkjans þótt ég sé guðfræðingur. Ég útskrifaðist úr Háskóla Íslands sem guðfræðingur sem þýðir að ég á að vera fær um að ræða spurninguna “ef guð er til, hvað þá?”. Og ef við ákveðum að guð sé til getum við byrjað að tala saman á öðrum forsendunum en: mér finnst eða ég held.”

Efinn í trúnni

“Það er alltaf efi í trúnni,” segir Davíð. “Trúin er í raun viðtengingarháttur sálarinnar. Við getum ekki talað um trú öðruvísi en í viðtengingarhætti. Framsöguhátturinn er “ég veit að eitthvað er” en viðtengingarhátturinn er “ég trúi að eitthvað sé”. Trúin felur nefnilega í sér efann. Maður finnur engan eins sannfærðan um sína lífsskoðun og trúleysingjann. Það eru hinir trúuðu sem eru stöðugt að glíma við efann. Efinn og trúin eru þess vegna sitt hvor hliðin á sama peningi. Að trúa er að horfast í augu við efann og neita að gefast upp fyrir honum. Við verðum að segja við efann: “allt í lagi, ég sé þig en þú ert ekki húsbóndi minn.”

Trúin höfð að yfirvarpi

Um fullyrðinguna að mestu illvirki sögunnar hafi oft verið framin í nafni trúarinnar segir Davíð: “Yfirleitt er staðreyndin sú að þegar á bak við er horft þá er trúin höfð að yfirvarpi til að réttlæta grimmdarverk í þágu einhverra hagsmuna. Ég man til dæmist eftir því að ég ólst upp við fréttir af stöðugum átökum mótmælenda og kaþólikka á Norður Írlandi. Ég undraðist oft á því af hverju fólkið gat ekki bara lifað í sátt og samlyndi af því munurinn á mótmælendatrú og kaþólskri trú væri nú ekki svo mikill. Þetta tvennt er í raun sitt hvorar dyrnar á sömu kirkjunni. Ég komst svo að því að átökin höfðu sannarlega ekkert með trúarbrögð að gera. Þetta voru bara átök á milli þeirra sem vildu að Norður Írland væri írskt og hinna sem vildu að Norður Írland væri hluti af breska heimsveldinu. En af því að þannig vildi til að annar hópurinn var kaþólskur og hinn mótmælendatrúar þá var sagt frá þessu sem átökum tveggja trúarhópa sem það var alls ekki. Þetta voru átök á milli Englendinga og Íra og kostaði mörg mannslíf. Þarna var trúin sannarlega höfð að yfirvarpi.”

Flóttinn úr þjóðkirkjunni

Davíð segir flóttann úr þjóðkirkjunni áhyggjuefni en að um leið verðum við að átta okkur á því að flóttinn sé hluti af þróun sem eigi sér stað víða um heim. “Að hluta til má rekja flóttann úr Þjóðkirkjunni til lagabreytinga. Áður var barn sjálfkrafa skráð í trúfélag móður en þessum lögum var breytt þannig að nú er barn ekki skráð í trúfélag nema foreldrar tilheyri sama trúfélagi. Það þýðir að nýskráningum í þjóðkirkjuna við fæðingu hefur fækkað verulega. Fleira kemur auðvitað til. Sem dæmi skar septembermánuður úr hvað varðar fjölda úrsagnar úr þjóðkirkjunni. Þá birtist auglýsing frá þjóðkirkjunni fyrir sunnudagaskólann þar sem Jesús kristur var sýndur með kvenmannsbrjóst. Þá sögðu sig 600 manns úr þjóðkirkjunni. Einhverjir sögðu sig úr þjóðkirkjunni þegar biskup lét í ljós óvinsæla persónulega skoðun á gagnaleynd. Biskup á að geta lýst yfir persónulegum skoðunum án þess að fólk taki því sem yfirlýstri afstöðu kirkjunnar.”

Eftir allt sem á undan er gengið

“Og svo fer maður að hugsa að eftir allt sem á undan var gengið að þá sé upplýsingaleynd þér svo mikilvæg að tilefni sé fyrir þig að segja þig úr þjóðkirkjunni,” segir Davíð. “Mér þykir vert að spyrja af hverju fólk hafi verið með okkur í gegnum allt Ólafs Skúlasonar málið en sé núna ofboðið út af óvinsælum skoðunum biskups um gagnaleynd. Mér þykir það skjóta skökku við.”

Siðferðisbrot kirkjunnar manna

Davíð fullyrðir að geta kirkjunnar þegar kemur að því að taka á siðferðisbrotum meðal vígðra þjóna hennar sé gerbreytt frá því sem áður var var. “Engin stofnun hefur farið í eins sársaukafulla og gagngera innri endurskoðun og þjóðkirkjan hefur gert. Nú eru komnir mjög skýrir verkferlar og þeir sem grunur beinist að eru undantekningarlaust settir í leyfi þangað til botn fæst í málið. Það hefur orðið alger bylting en fólk virðist ekki vita af því.”

Nýtir þjónstu kirkjunnar

Davíð segir að fólk haldi áfram að nýta þjónustu kirkjunna. “Fólk lætur gifta sig, skýra börnin sín, leitar sálgæslu hjá presti og jarða ástvini sína en sér samt ekki ástæðu til að tilheyra stofnuninni. Ég held að fólk standi almennt í þeirri trú að yfirstjórn kirkjunnar sé rekin fyrir sóknargjöldin en svo er ekki. Kannanir hafa sýnt að fólk er almennt ánægt með sína kirkju og sinn prest. En svo segir það sig úr þjóðkirkjunni af því það er óánægt með biskupinn eða kirkjuþing eða fagráð þjóðkirkjunnar. Fyrir vikið verður til minni peningur hjá kirkju viðkomandi einstaklings til að fjármagna barnastarf, eldriborgarastarf eða reka kirkjukórinn. Yfirstjórn kirkjunnar er rekin fyrir allt aðra peninga. Það er þess vegna ekki rökrétt að af því þú ert óánægður með biskupinn segir þú þig út þjóðkirkjunni til að þú þurfir ekki að borga sóknargjöldin. Þau renna alls ekki til þjóðkirkjunnar heldur til kirkjunnar í sókn hvers og eins.”

Vígðist pestur 2014

Davíð Þór vígðist prestur 2014 og fór fyrst austur á land þar sem hann var héraðsprestur í Austurlandsprófastdæmi með aðsetur á Eskifirði. “Mér leið mjög vel á Eskifirði og var ekki á leiðinni þaðan þegar Laugarneskirkja var auglýst laus til umsóknar. Ég fann mig mjög vel í því sem ég var að gera fyrir austan og átti satt að segja ekki von á að fá starfið í Laugarneskirkju. En úr varð að ég var valinn úr þeim hópi sem sótti um. Ég fann um leið og ég kom hingað í Laugarneskirkju að ég var kominn heim. Þessi sókn er öðruvísi en margar aðrar sem var einmitt það sem laðaði mig að henni. Hér er hefð fyrir því að prestur sé í fararbroddi framsækinnar og frjálslyndrar guðfræði. Það er ekki bara umborið heldur beinlínis til þess vænst af honum. Ég hefði ekki flutt frá Eskifirði fyrir hvað sem var. Laugarneskirkja var sennilega eina kirkjan á Íslandi sem ég hefði fórnað Eskifirði fyrir. Ég sagði í umsókn minni að ég dáðist að því viðhorfi sem hér ríkti og að ég hefði áhuga á að taka við þeim kyndli.”

Forsaga Davíðs

Mörgum þótti skrýtið á sínum tíma að grínarinn Davíð Þór skyldi hafa verið í nám í guðfræði. Nú er þessi maður virðulegur prestur í Laugarneskirkju. “Við Steinn Ármann vorum að gera tilraun með grín sem hafði verið að slá í gegn erlendis en það var grín sem fór langt út fyrir öll velsæmismörk. Það var nýtt hér og þótti mjög einkennilegt að þessi grófi grínari skyldi hafa verið að nema guðfræði.”

Stóra ástríðan að verða leikari

Davíð Þór Jónsson.

Davíð var búinn að sækja um í Leiklistarskólann í þrígang og komst alltaf í sextán manna lokaúrtakið en aldrei alla leið. “Ég var í raun búinn að sætta við það þegar við Steinn Ármann slógum í gegn sem Radíusbræður og þar með fékk ég útrás fyrir leikaradrauminn. Ég hugsaði með mér að fyrst við værum í tísku núna ætti ég að notfæra mér það. Ég hætti því í guðfræðinni til að elta drauminn.”

Eftir mörg ár í allt öðru endaði Davíð Þór í guðshúsi og fann fjölina þar sem honum líður best. Og þar vill hann vera en þar er hann líka á sviði svo draumurinn rættist kannski eftir allt.

Jólin hjá Davíð Þór

Jólin verða auðvitað öðruvísi í lífi Davíðs í ár eins og hjá öðrum. “Ég hefði gert ráð fyrir að vinna allan aðfangadag og enda á aftansöng klukkan sex, messu á jóladag og nýársdag. En nú ætlum við að hafa kirkjuna opna á aðfangadag frá kl. 14 til 17.  Fólk getur komið og átt hljóða stund og hlustað á tónlist. Síðan þarf að slökkva ljósin og ganga frá og allir fara heim nema presturinn. Ég á heima næst kirkjunni og tek það því að mér. Ég hringi jólin inn klukkan 18 áður en ég fer heim þar sem bíða mín hlæjandi börn og rjúpnailmur.”

Nýlega kom út bók eftir Davíð Þó sem nefnist Allt uns festing brestur. Í bókinni eru 21 trúarljóð undir dróttkvæðum hætti. Ljóðin eru ort við 13 liði hinnar klassísku messu en fyrst og fremst eru ljóðin samin til trúarsvölunar heima í stofu, enda fæddust ljóðin í fæðingarorlofi Davíðs.

Á bókarkápu stendur: Dróttkvæði hátturinn er einn sá dýrasti í íslenskri bragfræðihefð. Hann hefur þjóðlegt yfirbragð sem kveikir hughrif aldagamallar hefðar og hentar því andlegum, trúarlegum textum afar vel. Sterk hrynjandi, þétt stuðlasetning og öflugt innrím ljær orðunum ákveðinn hugleiðslublæ. Textann má því auðveldlega kyrja, enda gerir hann það nánast sjálfur í huga lesandans ef hann gefur sig honum á vald.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 24, 2020 07:30