Viltu sleppa við að greiða Tryggingastofnun tilbaka?

Tekjuáætlanir Tryggingastofnunar eru mjög mikilvægar,  vegna þess að ef tekjuáætlun er ekki rétt, getur fólk ýmist þurft að greiða til baka ef það hefur fengið greitt umfram rétt eða  tilkynningu um endurgreiðslu, sem er auðvitað sýnu skárra.

Þegar sótt er um ellilífeyri hjá TR verður tekjuáætlun að fylgja umsókninni. Það er vegna þess að réttindi fólks í almannatryggingum eru reiknuð út frá tekjum . Greiðslurnar frá TR byggjast á því hversu miklar tekjur fólk hefur.

Lög kveða á um tekjutengingar

Kveðið er á um tekjutengingar í almannatryggingalögunum, sem þýðir að ellilífeyrir frá TR lækkar þegar tekjur einstaklinga annars staðar frá hækka.  Í lögunum er einnig kveðið á um frítekjumark, sem er eins og orðið gefur til kynna fríar tekjur, sem hafa ekki áhrif á greiðslur Tryggingastofnunar. Menn eru með 25.000 króna sameiginlegt frítekjumark á mánuði fyrir atvinnutekjur, lífeyristekjur og fjármagnstekjur. Þar fyrir utan má fólk hafa 100.000 krónur í atvinnutekjur á mánði, eða 1.200.000 krónur á ári, án þess að það hafi áhrif á greiðslurnar frá Tryggingastofnun.

Greiða fyrst til TR og síðan skatt

Ef menn fara hins vegar yfir frítekjumörkin, byrja hinar svokölluðu skerðingar. Þær eru hlutfallslegar. Eru  45% af ellilífeyri og 11,9% af heimilisuppbót. en hana fá einungis þeir sem búa einir.

Hægt að fá aðstoð við tekjuáætlunina

Það þurfa allir að skila tekjuáætlunum og hægt er að fá aðstoð starfsmanna Tryggingastofnunar og umboða hennar um allt land, við að útbúa þær. Það er bara að hafa samband. Þegar tekjuáætlun er gerð er gott að skoða lífeyrisgáttina, ef menn eru með lífeyrissjóðsgreiðslur í nokkrum sjóðum. Þá þarf að skoða vel fjármagnstekjur, atvinnutekjur og leigutekjur því allt hefur þetta áhrif á réttindin hjá TR. Eignir sem fólk á í peningum hafa ekki áhrif á réttindin í almannatryggingakerfinu. Hins vegar hafa fjármagnstekjur af peningunum áhrif. Ef menn eiga til dæmis bankainnistæðu, hafa vextir af henni áhrif. Það hefur ekki áhrif á greiðslur TR þó menn eigi 3.000.000 króna inni á bankabók, en fái þeir 30.000 krónur á ári í vexti, þá hafa þeir áhrif. Þetta er samt ekki alveg einfalt, því það skiptir máli hvað menn hafa í aðrar tekjur, svo sem atvinnutekjur og lífeyristekjur og hvernig það kemur út gagnvart frítekjumarkinu. En það er hægt að fá upplýsingar um þessi mál hjá TR og það er líka hægt að fara inná reiknivél TR til að skoða þetta allt saman, sjá hér.

Rétt áætlun kemur í veg fyrir greiðslur tilbaka

Sá sem sækir um eða fær ellilífeyri frá TR, ber ábyrgð á að tekjuáætlunin sem send er inn sé rétt.  Ef tekjurnar breytast á fólk að breyta tekjuáætluninni. Ef fólk sem fær heimilisuppbót fer í sambúð á það að láta vita, því þá fellur hún niður. Einnig ef fólk fer að hafa leigutekjur.  Ef fólk er með rétta tekjuáætlun eru minni líkur á að það þurfi að greiða TR tilbaka.   Greiðslur TR eru endurreiknaðar í maí ár hvert þegar staðfest skattframtal liggur fyrir. Árlegur endurreikningur tryggir að allir fá rétt greitt á endanum..  Þeir sem hafa sent inn tekjuáætlanir sem ekki eru réttar, fá þá ýmist tilbaka eða þurfa að greiða TR  tilbaka. –  Ef menn hafa  ofáætlaðar tekjurnar, eiga þeir peninga inni hjá TR sem eru greiddir út 1.júní.  Ef tekjurnar hafa aftur á móti verið vanáætlaðar geta menn  þurft að greiða  háar fjárhæðir tilbaka. Meginreglan er að greiða skuld til baka  á 12 mánuðum en það er einnig hægt að semja við TR um endurgreiðslu á lengri tíma.

Auðvelt er að breyta tekjuáætlun inná mínum síðum TR, www.tr.is   rafræn skilríki og íslykill veita aðgang.  En það er líka hægt að fara í Tryggingastofnun sem núna hefur aðsetur í  Hlíðarsmára í Kópavogi og svo til umboðsmanna sem eru sýslumenn um allt land.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn janúar 21, 2020 07:43