Tæplega 60% áttu peninga inni hjá TR um mánaðamótin

Tryggingastofnun hefur lokið endurreikningi á tekjutengdum greiðslum fyrir árið 2020 og voru inneignir greiddar lífeyrisþegum um mánaðamótin 1. júní. Þetta kemur fram á heimasíðu TR. Sjá hér.

Tæplega 60% þeirra sem fengu tekjutengdar greiðslur á síðasta ári áttu inneign hjá TR, eða um 37 þúsund einstaklingar. Flestir áttu inni greiðslur undir 35.000 krónum. Tæplega 30%, eða um 20 þúsund einstaklingar, fengu ofgreitt  í fyrra og þurfa að endurgreiða í samræmi við það. Tæplega 10% færri lífeyrisþegar þurfa að endurgreiða á þessu ári en í fyrra.

Á vefnum segir að greina megi áhrif kórónuveirufaraldursins í uppgjörinu þar sem tekjur lífeyrisþega urðu í mörgum tilfellum minni en þeir höfðu gert ráð fyrir í tekjuáætlunum sínum.

Niðurstöður á Mínum síðum

Greiðslur frá TR byggja á tekjuáætlunum lífeyrisþega,  um hvað þeir telja að þeir muni hafa í tekjur á komandi ári. Endurreikningur TR  byggir síðan á tekjuupplýsingum úr staðfestum skattframtölum þeirra að árinu liðnu. Þessi samanburður leiðir í ljós hvort lífeyrisþegi hafi fengið réttar greiðslur, eða hvort frávik valdi því að hann hafi fengið van-  eða ofgreitt á árinu.

Á vefsíðunni segir að það sé eðlilegt að frávik á greiðslum komi fram við endurreikning, þar sem erfitt geti reynst að áætla tekjur fram í tímann. Almenna reglan er sú að menn þurfa að endurgreiða upphæðina sem um rærðir á 12 mánuðum. Ef það er of íþyngjandi fyrir fólk er hægt að semja um greiðslutíma.

Ef lífeyrisþegi hefur athugasemdir við niðurstöðu endurreiknings er hægt að óska eftir rökstuðningi, andmæla niðurstöðunni eða hafa samband við Skattinn vegna skattbreytinga.

Sjá nánar hér.

 

 

Ritstjórn júní 3, 2021 14:41