Vinsemd og virðing fyrir goðsögn lofuð

Þótt vera kunni að Óskarsverðlaunahátíðarinnar í ár verði helzt minnzt fyrir kinnhest nokkurn, þá er það annað og öllu jákvæðara atvik sem átti sér stað á hátíðinni sem gengur nú eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum.

Það er „Íslandsvinurinn“ Lady Gaga sem er í aðalhlutverki í þessu atviki, en hún tróð upp til að kynna beztu kvikmynd ársins ásamt leik- og söng-goðsögninni Lizu Minnelli. Þegar Minnelli, sem er 40 árum eldri en Lady Gaga og var í hjólastól á sviðinu, átti í einhverjum vandræðum með að opna umslagið sem geymdi nafn verðlaunahafans kom Lady Gaga henni til aðstoðar með hætti sem þykir sýna virðingu og væntumþykju. Fyrir þessi næmu viðbrögð sín hefur hún hlotið mikið lof netverja.

Fyrst eftir að þær stöllur komu fram á sviðið sagði Gaga við Minnelli: „Sérðu, áheyrendur elska þig!“ og allur salurinn tók undir með dynjandi lófataki.

„Gott kvöld. Þið vitið að ég elska að vinna með goðsögnum,“ hóf Gaga mál sitt. „Og það er mér mikill heiður að kynna lokaverðlaun kvöldsins með sannkallaðri sviðsgoðsögn.“

Áheyrendur brustu aftur í dynjandi lófatak til heiðurs Minnelli, en nú eru rétt 50 ár síðan henni hlotnuðust Óskarsverðlaunin fyrir bezta leik í sívinsælu dans- og söngvamyndinni Cabaret.

Af Twitter.

Minnelli hóf þá að lesa upp þau sem tilnefnd voru til verðlauna fyrir beztu mynd ársins, en rak eitthvað í vörðurnar. Þá greip Gaga boltann mjúklega og lauk lestrinum.

„Ég passa upp á þig“

Í lokin kraup Gaga á kné við hlið Minnelli og hvíslaði að henni: „Ég passa upp á þig“ („I’ve got you“). Og Minnelli svaraði: „Ég veit, takk.“

Upptaka af þessu ljúfa andartaki í samskiptum stórstjarnanna tveggja hefur síðan farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og Gaga hlotið mikið lof fyrir hvernig hún brást við aðstæðum og aðstoðaði Minnelli með virðingu og vinsemd.

Á Twitter sagði til dæmis @jamietunkel: „Lady Gaga að segja „Ég passa upp á þig“ á sviðinu á Óskarsverðlaunahátíðinni í iðnaði og samfélagi sem svo sjaldan tekur tillit til eldri kvenna. Mitt litla hjarta þurfti á þessu að halda! Ég vona að einn góðan veðurdag verði einhver nærri sem segir við mig „Ég passa upp á þig.“

Ritstjórn mars 30, 2022 14:18