Fjölbreyttari búsetuúrræði fyrir eldra fólk voru umræðuefnið á Fundi fólksins á sunnudaginn, en fundurinn var haldinn um helgina í Reykjavík. Þátttakendur í umræðunni voru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, og Þorbjörn Guðmundsson, stjórnarmaður í Landssambandi eldri borgara. Þau voru í lok umræðunnar spurð að því hvernig þau myndu vilja búa þegar þau eltust. Svör þeirra koma hér fyrir neðan.
María Fjóla Harðardóttir:
Ég myndi vilja fá að velja mína búsetu sjálf, hvort sem ég er í mínu eigin húsnæði eða öðru. Það yrði að vera húsnæði sem ég kemst vel um sjálf, með eða án hjálpartækja, eða þar sem ég er örugg og gæti fengið þjónustu. Að öðrum kosti vildi ég geta valið mér það hjúkrunarheimili sem ég vildi búa á og á þeim stað sem ég vildi eiga heima.Þorbjörn Guðmundsson:
Ég er ekki tilbúinn að fara inn á stofnun, án þess að ég vilji gera lítið úr því. Ég vil búa í umhverfi sem er allra líkast því sem ég er í nú. Það er svolítið skrítin tilfinning á hverjum morgni þegar ég sest og fæ mér morgunkaffið, að þá eru allir að fara í vinnuna. Ég sit einn eftir. Það er dálítið erfitt.Það sem er mikilvægast að gerist núna eftir kosningar er að það verði sett ráðuneyti sem sér um þennan málaflokk. Það eru núna tvö eða þrjú ráðuneyti sem fara með málefni eldra fólks. Það er algjörlega útilokað kerfi. Þetta ætti að vera forgangsatriði núna, að þegar ný ríkisstjórn sest að völdum, þá fái þessi málaflokkur mjög skýra stöðu í stjórnkerfinu.
Dagur B. Eggertsson:
Minn óskastaður yrði Reykjavík og ég vona að ég verði ekki úr hófi leiðinlegur og að Arna vilji búa með mér ennþá. Þetta eru lykilþættirnir. Ég hugsa að ég þurfi lyftuhús og ég vona að það verði stutt í alla þjónustu, stutt á barinn, og stutt í samneyti við annað fólk, það er það sem gefur lífinu gildi í dag og alla daga, og það mun án efa ekki minnka þegar árin færast yfir.