Um Walt Disney hefur verið sagt að hann hafi verið einn þeirra manna sem varðveita barnið í sér allt sitt líf og að hann hafi í raun aldrei orðið fullorðinn. Þetta er ekki alls kostar rétt því Walt Disney naut aldrei heilbrigðrar og eðlilegrar æsku og kvikmyndir hans og skemmtigarðarnir sem hann byggði voru kannski öðrum þræði tilraun til að bæta sér upp þann missi, en einnig til að gefa börnum tækifæri til að njóta þeirrar ánægju sem frjáls, áhyggjulaus leikur við kjöraðstæður veitir en hann kynntist aldrei sjálfur.

Walt með Roy, bróður sínum skömmu eftir að þeir stofnuðu fyrirtæki sitt.
Þegar Walt Disney var átta ára vaknaði hann klukkan hálffjögur á morgnana og hóf að brjóta saman eintökin af Kansas City Morning Times sem hann bar út. Svæði hans var stórt og vinnan oft þreytandi fyrir ekki eldra barn sem einnig varð að sækja skóla, sinna heimaverkefnum og skyldustörfum inni á heimili sínu. Þegar þreytan var að yfirbuga drenginn skreið hann oft inn í dyraskot eða húsasund til að dotta svolitla stund. Walt fann þó minna fyrir þessu en eplatínslunni sem hann hafði stundað á búgarði fjölskyldunnar.
Faðir Walts, Elias, var strangur húsbóndi og rak syni sína miskunnarlaust áfram.Walt var langyngstur bræðranna en Ruth systir hans var yngri en hann. Tveir elstu bræður hans voru fluttir að heiman þegar hann fæddist og Roy sem var átta árum eldri en Walt flúði eins fljótt og hann gat. Eftir sat Walt og varð að þola vinnuhörku og barsmíðar föður síns en svo virðist að Ruth hafi sloppið betur því hún var stúlka. Áður en Roy fór hafði hann varið bróður sinn eftir bestu getu og ævinlega huggað hann eftir að faðir þeirra hafði barið hann. Móðir Disneybræðranna, Flora, var blíðlynd, hæglát og draumlynd kona sem þorði aldrei að setja sig upp á móti hinum skapmikla, árásargjarna manni sínum. Hún var börnunum sínum góð og það var hún sem las fyrir Walt litla ótal ævintýri og sögur sem síðar urðu honum uppspretta hugmynda að teikni- og kvikmyndum.

Forsíða Life Magazine eftir að Mikki mús hóf sigurför sína um heiminn.
Faðir Walts var ekki hrifinn af teikningum hans
Síðar á ævinni lýsti Walt barnæsku sinni í Missouri ævinlega sem hamingjusamri og heilbrigðri. Hann sagði frá því að hann hefði alltaf haft gaman af að teikna og í hvert sinn sem pappír, blýantar eða annað barst inn á sárafátækt heimilið þá notaði hann tækifærið til að teikna. Hann sagði hins vegar ekki frá því að eitt sinn varð teikniáráttan til þess að faðir hans barði hann illa. Walt hafði gaman af að teikna dýrin á bænum og einhverju sinni náði hann í tjöru og pensil og málaði stóra skopteikningu á gaflinn á húsinu. Húsið var hvítmálað og karl faðir hans hafði ekki kímnigáfu til að hlæja að teikningunni og tiltækinu heldur refsaði honum með því að lúberja hann en eins og venjulega laumaðist Roy til hans eftir á, huggaði bróður sinn og vaggaði honum í svefn.
Walt Disney las geysilega mikið í æsku og sérstaklega var hann hrifinn af bókum Horatio Alger sem allar fjölluðu um drengi sem sigruðust á ótrúlega erfiðum og grimmilegum aðstæðum og komust til æðstu metorða. Hann var sömuleiðis ákaflega hrifinn af myndum Charlie Chaplins og gat hermt svo vel eftir flakkaranum furðulega að hann var um tíma kallaður litli flakkarinn. Walt fæddist 5. desember 1901 í Marceline í Missouri. Þegar hann var átta ára flutti fjölskyldan til Chicago þar sem pabbi hans stofnsetti sultuverksmiðju en fyrirtækið gekk ekki. Walt skráði sig á teikninámskeið hjá Chicago Academy of Fine Arts. Til að geta borgað námskeiðið vann hann hlutastörf á þremur stöðum eftir skóla en faðir hans var ekki hrifinn af tiltækinu. Í hans huga var teikning tilgangslaust rugl sem ekki var þess virði að eyða peningum í.
Fyrri heimstyrjöldin braust út og Walt sá þá tækifæri til að sleppa að heiman. Hann falsaði undirskrift foreldra sinna á leyfisbréf til að gegna herþjónustu og gekk í herinn sextán ára. Hann hlaut þjálfun til að aka sjúkrabílum Rauða krossins í Frakklandi en slæm inflúensa varð til þess að vopnahléð var undirritað áður en til þess kæmi að hann yrði sendur á vígvöllinn. Hann var þó sendur til Frakklands til að aðstoða við hreinsun og endurbyggingu og þar vakti hann athygli fyrir að teikna skopmyndir á hliðar sjúkrabílanna sem hann ók milli staða.

Disney er enn í dag eitt öflugasta og mikilvirkasta framleiðslufyrirtæki kvikmynda og sjónvarpsþátta í heimi.
Svikinn af óprúttnum dreifingaraðilum
Þegar vinnu hans í Evrópu lauk hélt Walt til Kansas City til Roys bróður síns frekar en að snúa aftur heim í foreldrahús. Hann kynntist ungum listamanni, Ub Iwerks að nafni, og saman stofnuðu þeir auglýsinga- og myndskreytingafyrirtæki. Þeir félagar voru báðir heillaðir af kvikmyndum og gerðu saman röð kvikmynda sem voru sambland af teiknimynd og leikinni mynd. Myndaröðin nefndist Lísa í teiknimyndalandi og fyrst í stað leit út fyrir að félagarnir myndu stórtapa á framleiðslunni. Dreifingaraðilinn sveik þá og neyddi til að biðja um gjaldþrotaskipti fyrirtækis þeirra. Walt flutti þá til Los Angeles en þar var Roy bróðir hans á herspítala að ná bata eftir að hafa fengið berkla. Í Los Angeles fann Walt annan dreifingaraðila fyrir myndina um Lísu og nú gekk allt vonum framar. Honum voru boðnir 1.500 dollarar til að byrja með fyrir hverja mynd í röðinni og Walt hljóp beint upp á spítala til bróður síns. Þótt komið væri fram á kvöld fékk hann að fara inn á stofu til hans og beið ekki boðanna heldur vatt sér inn úr dyrunum og spurði: „Viltu koma og hjálpa mér að hrinda þessu fyrirtæki af stað?“

Bræðurnir síðar á ævinni en þeir voru alla tíð nánir og miklir vinir.
Daginn eftir útskrifaði Roy sig af herspítalanum og eftir það unnu bræðurnir saman. Roy hafði viðskiptavit og var snjall fjármálamaður, Walt hafði ímyndunaraflið og listræna hæfileika. Roy kvæntist um þetta leyti og Walt fann fyrir miklum einmanaleika fyrst eftir brúðkaupið. Þremur mánuðum síðar kvæntist hann sjálfur ungri stúlku sem vann í fyrirtæki þeirra, Lilian Bounds að nafni. Svo virðist sem í fyrstu hafi samband þeirra byggst frekar á löngun Walts til að tengjast annarri manneskju en heitri ást. Hann var tuttugu og fjögurra ára og virtist ekkert elska heitar en starf sitt. Hann hafði skapað vinsæla teiknimyndaseríu sem hét Oswald the Lucky Rabbit en dreifingaraðili myndanna, sleipur viðskiptajöfur frá New York, sveik höfundarréttinn af Walt og fékk réttinn dæmdan í hendur sjálfum sér. Dreifingaraðilinn taldi sig vera að fást við sveitalubba sem lítið vit hefðu og kallaði þá bræður ævinlega the Bumpkins (bóndadurgar). En hvort það hefur verið réttnefni eða ekki skal ósagt því Walt ákvað að venda sínu kvæði í kross. Hann hafði misst kaníuna svo nú ákvað hann að reyna að búa til skemmtilega mús.
Walt kallaði músina Mortimer en konu hans fannst það væmið og hvatti hann til að kalla hana Mikka. Ótal skissur voru dregnar upp á teikniborði Walt Disneys en hann var ekki ánægður með neina þeirra. Að lokum var það Ub Iwerks sem teiknaði þá útgáfu af músinni sem ákveðið var að nota og myndirnar um Mikka urðu til og þær lögðu grunninn að risaveldi Disneybræðranna. Í kjölfarið urðu fleiri skemmtilegar teiknimyndafígúrur til eins og Guffi, Andrés Önd og félagar þeirra. Fyrsta teiknimyndin í fullri lengd sem Disney framleiddi var Mjallhvít og dvergarnir sjö og í kjölfarið fylgdu síðan árlega myndir eins og Bambi, Öskubuska, Flugfíllinn Dúmbó, Skógarlíf og ótal fleiri. Disney hóf einnig að framleiða leiknar kvikmyndir og Mary Poppins, Kitty, kitty, bang, bang, Svartskeggur sjóræningi, Tómassína og Það búa litlir dvergar sem fengu metaðsókn um allan heim.

Walt lést áður en Disneyland var klárað en hann bað Roy að ljúka verkinu.
Bað bróður sinn að ljúka við Disneyland
Walt Disney fékk þá hugmynd að byggja skemmtigarð í kringum kvikmyndaverið þar sem börn og fullorðnir gætu skemmt sér í líflegum ævintýraheimi þar sem gleðin ein ríkti og engar áhyggjur væru til. Hann gekkst fyrir byggingu fyrsta hluta garðsins en entist ekki aldur til að ljúka uppbyggingu risagarðsins í Flórida sem búið var að teikna þegar Walt lést árið 1966. Roy sem þá var sjötíu og þriggja ára og hafði dregið sig í hlé frá öllum viðskiptum, lofaði Walt á dánarbeðinu að hann myndi ljúka við garðinn og stóð við það.

Walt Disney með eiginkonu sinni Lilian og dætrunum Diane og Sharon.
Í einkalífinu var Walt Disney þokkalega hamingjusamur þótt hjónaband hans gengi nokkuð skrykkjótt. Lilian reyndist honum góð eiginkona og smátt og smátt lærði hann að meta hana. Walt hafði þó erft skapbræði föður síns og hann hafði alla ævi tilhneigingu til þunglyndis. Nefna má að þegar hann frétti að Lilian væri ófrísk af fyrsta barninu þeirra lagðist hann í þunglyndi og flutti út af heimilinu. Hann var svo hræddur um að hann myndi ekki reynast föðurbetrungur þegar kæmi að uppeldinu. Þegar dóttir hans, Diane Marie, fæddist 19. desember 1933 kom þó fljótt í ljós að hann þurfti ekki að óttast neitt. Hann keypti stórt og fallegt hús handa fjölskyldu sinni og þangað flutti hann móður og barn beint af sjúkrahúsinu. Árið 1937 tilkynntu Disneyhjónin að þeim hefði fæðst önnur dóttir en það var ekki alls kostar rétt. Sharon var ættleidd en því var vandlega haldið leyndu bæði fyrir henni og fjölmiðlum árum saman. Walt Disney var stórreykingamaður og átti það til að drekka óhóflega á stundum. Hann dó úr lungnakrabba af völdum reykinga aðeins sextíu og fimm ára gamall. Sú þjóðsaga flaug fjöllum hærra um tíma að Walt hefði látið frysta líkama sinn í þeim tilgangi að verða vakinn til lífsins aftur síðar en er allsendis ósönn. Walt Disney var brenndur og aska hans grafinn skömmu eftir andlátið. Fyrirtækið sem hann stofnaði ásamt bróður sínum blómstrar hins vegar enn og mun sjálfsagt halda lengi á lofti nafni þessa manns, sem naut fyrst áhyggjuleysis og gleði æskunnar þegar hann var orðinn rígfullorðinn.