Að vera konulaus kona

Eva María Þórarinsdóttir

Eva María Þórarinsdóttir

„Við höfum verið að velta því fyrir okkur að fara inn á heimili eldra fólks, til dæmis dvalarheimili aldraðra og gera eitthvað fyrir það fólk. Kannski gerum við það á næsta ári. Það er kominn tími til að sinna eldri hommum og lesbíum. Ég er búin að ganga með þessa hugmynd í maganum í tvö ár,“ segir Eva María Þórarinsdóttir, formaður Hinsegin daga.  Eva María segir að athyglin á Hinsegin dögum hafi hingað til, í mun meira mæli beinst að yngri hommum og lesbíum en í ár hafa verið þó verið viðburðir sem helgaðir eru þeim sem eldri eru.

 

Stella Hauks

Í Iðnó var til að mynda dagskrá helguð Stellu Hauks en hún var mikil baráttukona fyrir mannréttindum, verkalýðsfrömuður og trúbador. Hún var fyrst  íslenskra söngvaskálda til að yrkja og syngja opinberlega um ástir kvenna til kynsystra sinna. Eyjafréttir ræddu við Stellu 25. nóvember 1999 og þar talaði hún um ljóð sín. Blaðamaður spyr hvort hún sé tilfinningaheit kona. Stella svarar: „Mér er sagt það. Að vissu leyti get ég alveg tekið undir það. Þó að ég sé svona norræn eins og ég er, má alveg vera að ég sé hreint á hinn veginn, bæði í textum mínum núna og tilfinningalífi. Textarnir mínir eru til

Stella Hauks

Stella Hauks

kvenna en þeir eru gerðir á löngum tíma og það gefur auga leið að margir þeirra eru ortir til vissra kvenna. En mér þykir vænt um allar konur og í heildina er ég bara að tala til kvenna almennt.“

Að vera konulaus kona

Stella var líka spurð að því hvernig hefði verið að koma út úr skápnum í Vestmannaeyjum árið 1980. „Ég fann aldrei og hef aldri fundið neitt fyrir því. Ég man ekki til þess að ég hafi orðið fyrir æðislegu aðkasti þó að einhverjir hafi kippt í mann. Vestmannaeyingar tóku að minnsta kosti ekkert neikvætt í þetta. Einnig tóku foreldrar mínir þessu eins og manneskjur. Auðvitað bregður foreldrum undir svona kringumstæðum en ef væntumþykja er til staðar skiptir engu máli hvað við erum, það er svo einfalt. Ég flutti svo frá Eyjum 1984, sem kom þessari skápaútkomu ekkert við. Ég varð hins vegar ástfangin af konu og hún bjó í Reykjavík, ef hún hefði ekki komið inn í líf mitt væri ég eflaust enn þá í Eyjum. En þessi kona er nú löngu úr sögunni. Í dag er ég konulaus kona og er mjög sátt við það, það er ekkert að því að vera konulaus kona.“

Sterkur karakter

Regnbogalitirnir

Regnbogalitirnir

Stella sem var fædd um miðja síðustu öld, lést í byrjun þessa árs. Guðný Einarsdóttir minntist hennar í Eyjafréttum og sagði: „Stella var sterkur karakter, listamaður af Guðs náð og samdi lög og texta eins og ekkert væri. Hún átti mörg frábær lög og texta eins og „Lyklabarnið“ og „Taktu skítugar hendurnar þínar í burtu af mínum“ og hefði mátt gefa út miklu meira af efni eftir hana. Með hjálp frábærra lista- og tónlistarmanna hélt Stella nokkra tónleika og gaf út diska og voru það draumar sem rættust fyrir henni, þökk sé þessu góða fólki. Stella var ein sú tryggasta manneskja sem ég þekki og mátti ekkert aumt sjá. Hún gerði aldrei flugu mein og stóð alltaf með þeim sem minna máttu sín í þjóðfélaginu. Hún var mikil baráttukona fyrir verkafólk og stóð föst á sínum sterku skoðunum.“

Ritstjórn ágúst 7, 2015 15:34