Viltu semja sögur eða skrifa um minningar þínar?

Það gæti nú verið gaman að skrifa svo sem eina bók.

Marga dreymir um að koma hugsunum sínum á blað á þann hátt að aðrir nái að skilja og skynja. „Auðvitað er hægt að kenna fólki að skrifa eins og hægt er að kenna tækni og undirstöðuatriði allra annarra skapandi greina,” segir Björg Árnadóttir framkvæmdastjóri og aðalkennari Stílvopnsins sem heldur námskeið fyrir fólk sem langar til að skrifa eða fæst þegar við skriftir. Hún bætir við að einnig sé hægt að hjálpa fólki við að örva ímyndunaraflið og ekki síst sé mikilvægt að skoða eigin tilfinningar þegar sest er við skriftir. „Oft þarf að hjápa fólki að komast yfir óttann við hvíta blaðið, eins og það er kallað, óttann við óskrifaðan texta. Eina leiðin til að byrja að skrifa er einfaldlega sú að byrja að skrifa, að setjast niður og standa ekki upp fyrr en orðin eru komin á blað.”

Námskeið Bjargar eru haldin í húsakynnum Reykjavíkur Akademíunnar, Þórunnartúni 2.  „Vinsælustu námskeið Stílvopnsins eru skapandi skrif, endurminningaskrif og greinaskrif. Ég byrja öll námskeið með æfingum sem hrista upp í heilasellunum og undirbúa hug og hönd fyrir skrifin. Í skapandi skrifum legg ég áherslu á að hjálpa fólki að skrifa skáldaðar sögur. Þátttakendur læra að finna sjónarhorn, skapa persónur, skrifa samtöl og byggja upp frásögn. Skrifunum er svo deilt í hópnum og um þau rætt og þannig lærir fólk hvert af öðru. Hins vegar gefst lítill tími á öllum námskeiðunum til að kryfja málfar og stíl hvers þátttakenda og þess vegna er ég farin að bjóða sérstök námskeið sem hafa það að markmiði.”

Endurminningar og minningargreinar

Námskeið í ritun endurminninga fjalla eins og nafnið gefur til kynna um að rifja upp og skrifa um það sem gerst hefur í fortíðinni en Björg segir að þegar sú vinna er hafin átti fólk sig á því hvað endurminningar og tilfinningar tengjast sterkt. „Ég veiti hópnum það svigrúm sem hann þarf til að ræða tilfinningarnar að baki endurminningunum. Þátttakendur eru á öllum aldri en þó er meðalaldur hærri á endurminninganámskeiðum mínum heldur en hinum.  Flestir koma til að skoða eigin reynslu og upplifanir en þó hefur komið mér á óvart hversu margir koma til að skrifa um annað fólk, lifandi eða látið. Sumir vilja fá innblástur til að skrásetja stórar fjölskyldusögur á meðan aðrir hafa bara það markmið að muna og minnast atburða ævi sinnar. Hvatinn er því misjafn en mér sýnist allir geta nýtt sér námsefnið, ekki síst vegna þeirrar hvatningar sem fólk fær frá öðrum þátttakendum.”

Hin séríslenska bókmenntagrein minningargreinar er meðal þess sem skoðað er á endurminninganámskeiðunum.  „Stór hluti Íslendinga hefur skrifað minningargrein sem oft eru einu skrifin sem fólk birtir um ævina,” segir Björg og bætir við að það sé áhugavert að heyra þátttakendur deila greinum sem þeir hafa skrifað. „Við skoðum og skilgreinum þessi skrif í því skyni að verða betri minningargreinahöfundar en einnig til að skilja betur tilgang þessara skrifa sem oft eru ekki bara áhugaverðar mannlýsingar heldur líka aldarfarslýsingar. „Minningargreinar þróast eins og öll mannanna verk og nú er ýmislegt orðið sjálfsagt sem áður var bannað eins og að höfundur „flíki sjálfum sér” eða „ávarpi líkið.” Mörk þess smekklega eru þó ávallt á reiki og eitt af því sem við ræðum er hvað er við hæfi að birta þegar fólk er kvatt. Fólk virðist sammála um að einlægni sé eftirsóknarverð og það að hafa í huga hvað góð minningargrein getur yljað aðstandendum í sorginni.”

Staðreyndir og skoðanir

Björg Árnadóttir

Það er ekki síður kúnst að klæða staðreyndir og skoðanir í orð en um það fjalla námskeið Bjargar í greinaskrifum. „Yfirleitt áttar fólk sig ekki á því að tilfinningar koma líka við sögu við skoðanamyndun né heldur að það þurfi að nýta sköpunargáfuna eitthvað sérstaklega til að matreiða staðreyndir. Námskeið í greinaskrifum fjalla að miklu leyti um að hjálpa fólki að finna flöt á skoðunum sínum til að geta komið þeim skilmerkilega á framfæri í rituðu máli og styðja þær staðreyndum. Ég reyni að hjálpa fólki að finna flöt á því máli sem það vill fjalla um, að finna hvað það vill raunverulega tjá sig um og afmarka efnið þannig að það rúmist innan tiltekins orðafjölda. Þú getur til dæmis ekki tjáð þig um allar hliðar sjávarútvegs í lítilli grein heldur þarft að búta málaflokkinn niður. Galdurinn er að finna þann flöt sem manni finnst mikilvægastur eða hefur jafnvel persónulega reynslu af og stendur hjarta manns næst. Aðrir geta svo skrifað um hina þættina!”

Að sjálfsögðu er mikilvægt að meðhöndla staðreyndir á trúverðugan hátt en þurr upptalning staðreynda vekur þó sjaldnast áhuga lesenda. „Eitt af því sem við skoðum á námskeiðunum er hvernig má meðhöndla það sem talið er vera algild sannindi á þann hátt að það tengist skoðunum greinarhöfundar og varpi jafnvel nýju ljósi á þær,” segir Björg.

Sumir koma á fleiri en eitt námskeið

Björg segir að það sé nokkuð um það að fólk komi aftur og aftur á námskeið hennar. Það byrji gjarnan á því sem vekur mestan áhuga en ákveði svo að taka fleiri námskeið.  „Hjá mér var til dæmis hópur sem byrjaði í endurminningaskrifum en tók sig svo saman um að taka líka skapandi skrif. Í framhaldi af því ákvað ég að búa til námskeið sem ég kalla ritsmiðju þar sem ég er ekki eins stýrandi kennari og á hinum heldur læt námskeiðin þróast í þá átt sem skrif þátttakenda leiða þau. Þetta námskeið er ekki ennþá farið af stað né heldur námskeiðið um málfar og stíl sem ég minntist á áðan. Þar er ég þó að taka upp þráðinn frá þeim tíma að ég kenndi blaðamennsku og lagði mikla áherslu á að kryfja ólíka stíla þannig að hver og einn fyndi út hvernig honum hentar best að skrifa.”

Hámarksfjöldi á námskeiðum Bjargar eru sextán en lágmark fimm. „Umræðurnar verða gjarnan fjórri og fjörugri ef hópurinn er stór en innilegri þegar hann er lítill. Það þurfa ekki allir að lesa allt sem skrifað er heldur er farið yfir efnið í minni hópum eftir því sem við á. Það má segja að við étum fíllinn í litlum bitum, fólk þarf aldrei að finna fyrir frammistöðupressu en einhvern veginn verður samt til í hverjum hópi heilbrigð löngun til að færa hópnum bitastætt efni að fjalla um.”

Þeir sem vilja skoða hvað er í boði hjá Stílvopninu geta farið inn á heimasíðu fyrirtækisins hér  www.stilvopnid.is

 

 

 

Ritstjórn október 16, 2017 09:31