Gunnar V Andrésson ljósmyndari

„Ljósmyndari sem getur ekki hlaupið er dauður. Eða eins og Þórbergur Þórðarson sagði; skólaus maður er  dauður. Annars líður mér dásamlega,“ sagði Gunnar V. Andrésson ljósmyndari þegar Lifðu núna sló á þráðinn til hans til að athuga hvað hann hefði fyrir stafni.  Gunnar lét af störfum hjá Fréttablaðinu 1. maí síðast liðinn og þar með lauk 52 ára starfsferli hans sem blaðaljósmyndara.

„Síðustu tvö árin í vinnu voru nokkuð strembin hjá mér. Það var því nokkuð sjálfhætt. Ég er með fótamein, það er búið að stífa báða ökklana á mér en auk þess var annað hnéð á mér farið að leika mig ansi grátt. Ég var komin á hækjur, það var því farið að fjara svolítið undan mér í vinnu. Ég gerði starfslokasamning við Kristínu Þorsteinsdóttur vinkonu mína og þáverandi ritstjóra Fréttablaðsins og hætti. Ég er bara þakklátur fyrir að þau skildu vilja hafa mig illa haltan í vinnu síðustu tvö árin sem ég var á Fréttablaðinu.“ Gunnar er búin að fara í aðgerð á hnénu og segir að batinn sé góður. Hann sé farinn að finna fyrir eymslum í hinu hnénu og ætli að láta laga það líka. „Ef ég á að segja alveg eins og er þá sakna ég einskis úr vinnunni enda búinn að hlaupa eins og hundur í rúma hálfa öld. Ég hef nóg fyrir stafni. Ég mæti örlögum mínum við eldhúsborðið á hverjum morgni þar sem Anna K. Ágústsdóttir kona mín brosir fallega til mín og gefur mér hafragraut. Ég hreyfi mig eins mikið og ég get og reyndi að passa vel upp á kroppinn á mér. Ég syndi á hverjum degi. Sundið er helgasta athöfn dagsins,“ segir hann og skellihlær.

„Svo hjóla ég og stunda golf. Þegar ég gat ekki lengur gengið á eftir golfkúlunum, leigði ég mér golfbíl. Á honum flengist ég eftir golfvellinum í Mosfellsbæ. Það eina sem ég gæti kvartað yfir er að ég kemst ekki lengur í fjallgöngur en við Anna vorum afskaplega dugleg að ferðast um fjöll og firnindi fótgangandi. Mér finnst þetta svolítil skerðing á lífsgæðum mínum. Svo hefur maður auðvitað svolitlar áhyggjur af því hvort maður hafi næga peninga til framfærslu þegar aldurinn færist yfir.“

Gunnar var sæmdur Fálkaorðunni um síðustu áramót. „Það hefði mér nú aldrei dottið í hug. Orðuveitingin kom mér algerlega í opna skjöldu. Kannski fékk ég orðuna fyrir að vera lengi að og vera sauðtryggur mínum vinnuveitendum á hverjum tíma. Ég held að mitt „drive“ hafi verið að vera alltaf lafhræddur við það á hverjum tíma að ég væri ekki að gera nógu og vel.“

Um feril Gunnars má segja að hann sé einstakur. Hann hóf störf á Tímanum 16 ára, þaðan lá leið hans á Vísi og síðar DV og loks á Fréttablaðið. Á ferlinum tók hann margar frægustu fréttaljósmyndir samtímans. Hann var í Vestmannaeyjagosinu, myndaði alla forseta landsins nema Svein Björnsson, allar ríkisstjórnir og náttúruhamfarir.  Það má segja að hann hafi myndað alla helstu stórviðburði hér á landi í hálfa öld. „Ég vildi vera með nefið ofan í hvers manns koppi og vera þar sem hlutirnir voru að gerast. Ég held líka að það sé það mikilvægasta fyrir þann sem vill vera ljósmyndari.“

Gunnar hefur tekið þúsundir mynda. Þegar hann er spurður hvort hann ætli ekki að halda sýningu á myndum sínum segir hann, nei. „Ég hélt sýningu þegar ég fagnaði 40 ára starfsafmælinu. 95 prósent af öllum þeim myndum sem ég hef tekið eru komnar á söfn. Tímamyndirnar mínar eru á Þjóðminjasafninu. Myndirnar frá Vísis og DV tímabilinu eru á Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Þær myndir sem eru á stafrænu formi eru nær allar geymdar í handraða Fréttablaðsins. Sem betur fer er þetta allt varðveitt. Ég er rosalega feginn að hafa sloppið skammlaust í gegnum þessa vinnu mína en nú er ég hættur. Þetta var ofboðslega skemmtilegur tími, ég er sáttur og þarf ekki lengur að glenna mig á torgum.“

 

 

Ritstjórn september 13, 2018 08:41