Halda uppá stórafmæli á Tenerife

Íslensku ferðaskrifstofurnar verða varar við að eldri ferðamönnum, sextugum og eldri,  fjölgar og á næstu árum mun þeim fjölga enn meira. Þórunn Reynisdóttir framkvæmdastjóri Úrvals Útsýnar, segir að þróunin hafi verið í þesa átt á síðustu árum. Fólk sé eldra og hressara og sé óhrætt við að ferðast. „Það er að koma inn ný kynslóð eldra fólks sem er vant ferðalögum. Það sækist eftir að komast í öruggar ferðir og oft er boðið uppá margvíslega þjónustu sem hentar fólkinu“, segir Þórunn.

Þjónusta við allra hæfi

Hún tekur sem dæmi eldri hjón sem bókuðu ferð til Tenerife, til að halda þar uppá stóramæli. „Þau vildu vera í hópi og búa við öryggi á hótelinu“, segir Þórunn og bætir við að hótelin á þessum stöðum séu vel búin til að taka á móti elsta aldurshópnum. Þar sé hægt að leigja alls kyns búnað og útvega læknisþjónustu og hvaðeina sem fólk þarf á að halda. Þetta henti vel parinu sem ætlar að halda afmælisveisluna á Tenerife.

Kanaríferðir vinsælastar

Þórunn segir að ferðamarkaðurinn hafi breyst frá því sem var. Það sé ódýrara að ferðast og fólk taki barnabörnin með sér í meira mæli en áður „Þetta er orðið viðráðanlegra fyrir alla“, segir hún.  Þórunn segir að vinsælustu ferðirnar fyrir eldri borgara hjá Úrvali Útsýn, séu til Kanaríeyja. „Þarna er öruggt umhverfi, þægilegt loftslag og fjölbreytt dagskrá, fyrir þá sem hafa áhuga á því“, segir hún. „Menn koma í þessar ferðir aftur og aftur, eignast vini og kunningja og halda jafnvel áfram að fara í ferðirnar þó maki falli frá“.

Búa ekki í tjaldi

Hún segir að það sé breiður aldurshópur sem fari til Kanarí, en þangað er nú flogið allt árið.  En ferðamönnum á aldrinum 60-70 ára fari fjölgandi og þetta sé miklu öruggari hópur en áður, sem sé heimsvanur. Fyrir þennan hóp snýst málið um áhugaverðar ferðir  og góða þjónustu „Þetta fólk ætlar ekki að vera í tjaldi“, segir Þórunn og hlær. Hún segir að Ferðaskrifstofur í Bretlandi og Bandaríkjunum bjóði þessum hópi í vaxandi mæli, sérferðir af ýmsu tagi og þannig sé það einnig hér á landi.

 

 

Ritstjórn ágúst 12, 2016 10:32