Hvað kostar vetrarflóttamenn frá Íslandi að komast í sól í janúar?

Margir Íslendingar ákveða að stytta hinn dimma og stundum snjóþunga vetur, með því að bregða sér í sól og sumaryl í öðrum löndum, á meðan myrkrið og kuldinn eru við völd hér heima.  Töluverður hópur fólks velur líka að halda jólin á suðrænum stöðum eins og Kanarí og Tenerife. Lifðu núna skoðaði heimasíður þriggja ferðaskrifstofa til að fá einhverja hugmynd um hvað það kostar íslenska vetrarflóttamenn að komast í sól í mesta skammdeginu.  Þetta voru ferðarskrifstofurnar Úrval Útsýn, sem einnig rekur Plúsferðir og Sumarferðir, Ferðaskrifstofan VITA og Heimsferðir.

Skoðaðar voru ferðir fyrir tvo til Tenerife og Kanarí og miðað við dvöl þar í um það bil 2 vikur. Lengi vel voru Kanaríeyjar einn vinsælasti áfangastaður vetrarflóttamanna frá Íslandi, en Tenerife hefur hins vegar unnið verulega á síðustu misserin.  Með því að skoða heimasíður ferðaskrifstofanna, má sjá að ferðir til Kanarí, eru almennt séð ívið ódýrari en Tenerife ferðirnar. En það verð sem hér er gefið upp, miðast við þær ferðir sem var enn hægt að panta í þessari viku, en sýnir hins vegar ekki verð á ferðum sem þegar eru uppseldar.

Það verður að taka það fram, þegar verð ferðanna er skoðað, að það er ákaflega mismunandi hvað er innifalið í ferðunum.  Þannig er hægt að fá ferðir þar sem gist er á íbúðahótelum og enginn matur er innifalinn.  Það er að sjálfsögðu ódýrara, en að búa á hóteli þar sem morgunverður er innifalinn í gistingunni eða að búa á hóteli þar sem allt fæði er innifalið.  AUK ÞESS, eru ekki allar ferðirnar nákvæmlega 2 vikur, því flugtímar ferðaskrifstofanna eru mismunandi og nokkrar ferðanna eru þannig 17 daga ferðir. Það er því ekki hægt að bera verð þessara þriggja ferðaskrifstofa beint saman.  Við fengum þær upplýsingar að haustferðir til þessara staða væru ódýrari en vetrarferðirnar og verðið ívið lægra í janúar en febrúar.

Bungalow Parque Cristobal

Bungalow Parque Cristobal

Úrval Útsýn.  Þar er hægt að finna ferðir til Kanarí á verðbilinu frá 173.612 krónum á manninn, eða rétt tæpar 350.000 krónur fyrir par, og upp í 531.000 krónur á manninn sem er þá rúm milljón fyrir parið.  Verðið fer að sjálfsögðu eftir því á hversu góðu hóteli menn gista og hversu mikið er innifalið.  Sem dæmi um hótel sem Úrval Útsýn er að bjóða er Bungalows Parque Cristobal.  Það er sagt fremur rólegt hótel þar sem menn búa í smáhýsum.  Ferð með gistingu og morgunverði þar, kostar 210.000 krónur fyrir manninn, eða 420.000 fyrir par.  Úrval Útsýn er svo með ferðir til Tenerife frá rúmlega 185 þúsund krónum á manninn, eða rúmlega 370.000 fyrir parið. En þar er líka hægt að fá ferðir og  bestu aðstöðu fyrir 476.000 krónur á manninn, eða hátt í eina milljón fyrir par. Nánari upplýsingar færðu með því að smella hér.

La Siesta hótelið

La Siesta hótelið

Ferðaskrifstofan VITA  Á heimasíðu Ferðaskrifstofunnar VITA má sjá að ódýrustu ferðir til Kanaríeyja í janúar eru á 152.455 krónur fyrir manninn, eða um 305.000 krónur fyrir tvo fullorðna saman í herbergi. Síðan hækkar verðið eftir því hversu mikið er innifalið á hótelinu og hæsta verð fyrir Kanaríferðina fer uppí 349.795 krónur, eða um 700.000 fyrir tvo.  Ef pantað er í dag má fá ferðir til Tenerife á verðbilinu  frá rúmlega 233.000 krónur fyrir einn, eða um 466.000 krónur fyrir par, uppí tæplega 481.000 á mann, eða hátt í eina milljón fyrir parið. Sem dæmi um hótel á Tenerife sem er sagt vinsælt og í ódýrari kantinum, er La Siesta. Ferð fyrir tvo með dvöl þar kostar þannig 466 þúsund krónur. Sjá ferðir VITA hér.

Hotel Villa Adeje Beach

Hotel Villa Adeje Beach

Heimsferðir. Hjá Heimsferðum kosta ferðir til Kanaríeyja í janúar, frá 105.000 á manninn upp í rúmlega 180.000 á manninn, eða frá  210.000 krónum fyrir par upp í  361.000 krónur. Ferðirnar fyrir tvo til Tenerife kosta aftur á móti frá rúmlega 225 þúsund krónum upp í 628.000, eða frá rúmlega 112 þúsund krónum fyrir einstaklinginn upp í 314.000 krónur.  Ef menn vilja ekki vera í mesta glaumnum er hægt að fá hótel í rólegri kantinum, svo sem eins og Hotel Villa Adeje Beach, en þar er allt innifalið.  Morgunverður, hádegisverður, kvöldverður og allir drykkir, en það gildir að vísu eingöngu um innlenda drykki. Ferð með gistingu þar kostar rúmlega 321.000 krónur fyrir tvo.  Hér er hægt að skoða ferðir Heimsferða.

Það skal skýrt tekið fram að hér var ekki um formlega verðkönnun að ræða, heldur einungis gluggað í verð ferða á ákveðnu tímabili í janúar hjá þremur íslenskum ferðaskrifstofum. Það er mjög mismunandi hvað er innifalið í verðinu og ferðirnar eru frá 13 dögum og upp í 17 daga langar. Þeir sem vilja nánari upplýsingar eru hvattir til að skoða vefsíður ferðaskrifstofanna nákvæmlega.

 

 

 

 

 

Ritstjórn október 5, 2016 13:09