Björgvin Guðmundsson viðskiptafræðingur og pistlahöfundur skrifar:
Undirbúningur viðræðna um nýja kjarasamninga er á fullu. Starfsgreinasambandið í samráði við verkalýðsfélögin hefur samið kröfur verkalýðshreyfingarinnar. Aldraðir og öryrkjar þurfa að fylgjast vel með. Kjaradeilurnar og niðurstaða þeirra mun hafa bein áhrif á kjör aldraðra og öryrkja ef samið verður um litla hækkun lágmarkslauna mun lífeyrir aldraðra og öryrkja einnig hækka lítið. Ef samið verður um mikla hækkun lágmarkslauna mun lífeyrir einnig hækka mikið. Þannig eru hagsmunir láglaunafólks og aldraðra nátengdir. Þegar Samtök atvinnulífsins með stuðningi ríkisstjórnar reyna nú að halda launum niðri hittir það einnig aldraða og öryrkja. Takist þessi barátta atvinnurekenda og stjórnar tekst ríkisstjórninni einnig að halda lífeyri áfram niðri við fátæktarmörk. Ég óttast,að þingiði muni horfa aðgerðarlaust á, ef ríkisstjórnin heldur lífeyrinum áfram niðri eins og stjórnin hefur gert allt árið og frá myndun ríkisstjórnarinnar það er í 11 mánuði. Mér finnst furðulegt,að það virðist ekki snerta þing eða stjórn neitt,að lægsti lífeyrir aldraðra og öryrkja dugi ekki fyrir öllum framfærslukostnaði, ekki fyrir lyfjum og læknishjálp og stundum sé ekki nóg fyrir mat. Ráðherrar og þingmenn loka augunum fyrir þessu. Þetta er óþægileg staðreynd. Ég hefði haldið,að það væri verkefni stjórnar og þings númer eitt að leiðrétta þetta.
Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2019 hefur verið lagt fram á Alþingi þar er gert ráð fyrir því,að lífeyrir aldraðra og öryrkja hækki um 3,4% á næsta ári. Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands ræddi þetta og reiknaði út, að þegar tekið hefði verið tillit til verðbólgu á næsta ári væri raunhækkun lífeyris aldraðra og öryrkja samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 1200 kr á mánuði eftir skatt! Það er ótrúlegt,að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skuli bera slíka hungurlús á borð fyrir aldraða og öryrkja.
Þegar ég var formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík (til 2016) fékk ég iðulega upphringingar frá eldri borgurum,sem eingöngu höfðu lífeyri frá almannatryggingum. Algengt var,að þeir hefðu ekki efni á að fara til læknis eða að leysa út lyfin sín. Og stundum höfðu þeir ekki nóg fyrir mat. Þetta er eins í dag. Þetta er óbreytt. Stjórnvöld loka augunum fyrir þessu vandamáli. Giftir eldri borgarar og þeir sem eru í sambúð hafa einungis 204 þúsund kr. á mánuði eftir skatt. Einhleypir eldri borgarar hafa 243 þús.kr eftir skatt. Hvernig getur þing og stjórn ætlast til þess að menn lifi á þessu?Það er ekki unnt. Það er smánarblettur á íslensku samfélagi að búa lægst launuðu eldri borgurum svona slæm kjör,þegar nógir peningar eru til í þjóðfélaginu.
Staða eldri borgara er mjög misjöfn. Þeir, sem eiga skuldlaust eða skuldlítið eigið húsnæði standa mun betur að vígi en hinir, sem búa í leiguhúsnæði eða skuldugu eigin húsnæði. Þeir, sem eru í góðum lífeyrissjóði eru einnig betur staddir en hinir sem eru í lélegum lífeyrissjóði enda þótt skerðing lífeyris frá almannatryggingum sé mikil vegna lífeyrissjóða í öllum tilvikum en að vísu mismikil. Mikil óánægja ríkir meðal eldri borgara sökum skerðinga lífeyris TR vegna lífeyrissjóða. Þeir telja þessa skerðingu ganga í berhögg við yfirlýsingar,sem ASÍ og verkalýðsfélögin gáfu, þegar lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir. Þá var því lýst yfir, að lífeyrissjóðirnir ættu að vera hrein viðbót við almannatryggingar. Við það hefur ekki verið staðið. Ég tel að stöðva eigi framangreindar skerðingar og eldri borgarar eigi að fá lífeyrinn úr lífeyrissjóðunum óskertan. Þeir eiga þennan lífeyri; hafa sparað hann á langri starfsævi.